Snjallari Bílar

Hér finnur þú skilmála og persónuverndarstefnu sem gilda um Snjallari Bílar.

Snjallir Bílar skilmálar

Snjallari Bílar er hugbúnaðarlausn sem Síminn býður upp á í samstarfi við bandaríska fyrirtækið Modus Solutions, LLC, sem gerir notanda mögulegt að fylgjast rafrænt með staðsetningu og notkun bifreiðar.

Hugbúnaðarlausnin er tengd tækjabúnaði (t.d. ökurita) sem komið er fyrir í bifreið notanda. Í tækjabúnaðinn er sett SIM kort frá Símanum og í gegnum hugbúnaðarlausnina er veittur aðgangur að upplýsingum um bifreiðina og aksturslag hennar.

Notandi getur bæði notast við vefviðmót lausnarinnar sem og smáforrit (App).

Frekari leiðbeiningar um notkun og virkni Snjallari Bíla eru aðgengilegar hér á vefnum.

Skilmálar þessir gilda um Snjallari Bíla hugbúnaðarlausnina og eftir því sem við á þann tækjabúnað sem notandi hefur keypt af Símanum.

 

1. Almennt

Með því að skrá sig sem notanda í Snjallari Bíla og staðfesta að viðkomandi hafi kynnt sér, skilið og samþykkt neðangreinda skilmála hefur viðkomandi undirgengist skilmála Símans hf., kt. 460207-0880, Ármúla 25, 108 Reykjavík, (hér eftir „Síminn“), eins og þeir eru á hverjum tíma, og fela þeir í sér heildarsamning milli Símans og notanda um notkun Snjallari Bíla (einnig vísað til sem „samningsins“). Um notkun aukanotanda á lausninni fer skv. gr. 1.3. í skilmálum þessum.

Lausnin Snjallari Bílar hefur verið hönnuð og þróuð í samstarfi við Modus Solutions, LLC. (hér eftir „Modus“).

Í skilmálum þessum er einnig vísað til hugbúnaðarlausnarinnar Snjallari Bílar sem „lausnarinnar“ eða „Snjallari Bílar“.

Notandi skal kynna sér vandlega skilmála þessa áður en stofnaður er aðgangur og er samþykki skilmálanna forsenda þess að notandi megi nota lausnina. Óski notandi eftir hliðræðu afriti af skilmálum þessum skal notandi koma slíkri beiðni á framfæri við Símann. Notandi er jafnframt hvattur til að vista afrit af þeim skilmálum sem hann samþykkir áður en hann byrjar að nota Snjallari Bíla.

Skilmálarnir, eins og þeir eru hverju sinni, eru birtir á vefsíðu Símans, www.siminn.is og eru einnig aðgengilegir í gegnum smáforritið Síminn Snjallari Bílar.

Almennir skilmálar Símans um fjarskipta-, internet- og farsímaþjónustu, eins og þeir eru á hverjum tíma, teljast hluti þessa samnings. Skulu ákvæði þeirra gilda þar sem ekki er kveðið á um annað í samningi þessum. Skilmálar Símans eru aðgengilegir á www.siminn.is. Ef misræmi er á milli samnings þessa og skilmála Símans gilda ákvæði samningsins.

Skilmálar þessir hafa ekki áhrif á þau gjöld og/eða kostnað sem notandi kann að þurfa greiða fjarskiptafélagi sínu í tengslum við notkun á lausninni.

1.1. Skráningarskilyrði

Snjallari Bílar hugbúnaðarlausnin er einungis ætluð einstaklingum eldri en 18 ára.

Til þess að notandi geti notað lausnina Snjallari Bílar þarf hann að hafa:

tækjabúnað sem komið er fyrir í bifreið, sbr. gr. 2.4,
SIM kort frá Símanum,
aðgang að tölvu og/eða snjalltæki þar sem notandi getur nálgast lausnina,
netfang, og
skráð farsímanúmer

Til þess að stofna aðgang þarf að hafa samband við Símann og gefa upp nafn sitt, kennitölu og netfang, svo Síminn geti útbúið aðgang fyrir réttan aðila og reikningsfært réttan aðila. Síminn sendir næst skilaboð til viðkomandi með leiðbeiningunum hvernig hægt er að virkja aðganginn að lausninni.

Um meðferð Símans á persónuupplýsingum gildir Persónuverndarstefna Snjallari Bíla sem aðgengileg er á vefsíðu Símans, www.siminn.is, sbr. gr. 6.

Notandi ábyrgist að upplýsingar sem skráðar eru séu alltaf réttar og varði hann sjálfan, eða hann hafi heimild til að skrá upplýsingar varði þær þriðja aðila. Það er alfarið á ábyrgð notanda að uppfæra umræddar upplýsingar þegar og ef þörf krefur.

Síminn áskilur sér rétt til að meina notanda skráningu í Snjallari Bílar ef Síminn hefur áður sagt upp eða rift samningi við notanda um Snjallari Bílar eða aðrar þjónustur Símans.

1.2. Aðgangur notanda

Aðgangur notanda að viðmóti lausnarinnar skal aðeins vera notaður af honum sjálfum og skal notandi varðveita vel notandanafn sitt og lykilorð, sbr. þó gr. 1.3.

Ákveði notandi að deila aðgangsupplýsingum með þriðja aðila, eða á annan hátt veita þriðja aðila aðgang að aðgangi sínum að Snjallari Bílum, skal það alfarið vera á ábyrgð notanda.

Telji notandi að óviðkomandi þriðji aðili hafi komist yfir aðgang hans skal hann tilkynna það tafarlaust til Símans, sbr. gr. 7.3.

1.3. Aukanotendur

Með lausninni geta notendur heimilað öðrum aðila aðgang að lausninni, s.k. aukanotanda. Notandi sem hefur aðgang að fleiri aðgöngum en sínum persónulega aðgangi telst hafa svokallaðan „aukinn aðgang“ eða „admin aðgang“.

Síminn gengur út frá því að notanda sé heimilt að bæta við viðkomandi sem aukanotanda lausnarinnar og að aukanotanda sé kunnugt um að allar upplýsingar sem safnast um notkun hans á lausninni séu aðgengilegar á reikningi notanda.

Notandinn getur sjálfur breytt aðgangi aukanotanda í vefviðmótinu og eytt út gögnum þeirra í þeim tilvikum sem hann óskar þess.

Berist Símanum fyrirspurnir frá aukanotanda sem varða aðgang hans að lausninni, eyðingu upplýsinga um hann eða annað sem tengist vinnslu upplýsinga um hann við notkun lausnarinnar mun Síminn eftir fremsta megni beina slíkum beiðnum áfram til notanda, nema í þeim tilvikum sem Símanum telur að félaginu sé heimilt eða skylt að bregðast við fyrirspurninni án frekari aðkomu notanda.

Skilmálar þessir gilda, eftir því sem við á, um notkun aukanotanda á lausninni þ.m.t., en þó ekki takmarkað við, gr. 2.5. og 5. Að öðru leyti fer um notkun aukanotanda á lausninni, þar á meðal hvað varðar aðgang notanda að lausninni, eftir samkomulagi þeirra sín á milli og eru slíkir samningar Símanum óviðkomandi.

1.4 Réttur notanda til að falla frá samningi

Notandi, sem neytandi í skilningi neytendalaga, hefur rétt til að falla frá samningi þessum innan 14 daga frá því að hann var staðfestur af hálfu notanda, sbr. gr. 1. Skal slík tilkynning berast Símanum, sbr. gr. 7.3. Notandi þarf ekki að tilgreina ástæðu fyrir þeirri ákvörðun sinni að falla frá samningnum.

Um leið og notandi byrjar að nota lausnina fyrirgerir notandi hins vegar rétti sínum til þess að falla frá samningnum.

2. Eiginleikar og notkun Snjallari Bíla

2.1. Lausnin

Gegn greiðslu þóknunar, sbr. gr. 3, fær notandi leyfi til að nota hugbúnað (vefviðmót og smáforrit, einnig vísað til sem „kerfis“) sem gerir notanda kleift að fylgjast með notkun og staðsetningu bifreiða. Í lausninni felst jafnframt hýsing á þeim upplýsingum sem safnast við notkun á kerfinu sem gerir notanda kleift að skoða upplýsingar þær sem safnast aftur í tímann á aðgangi sínum. Nánari upplýsingar um hýsingu þessa er að finna í Persónuverndarstefnu Snjallari Bíla.

2.2. Lausn virkjuð

Til þess að virkja lausnina þarf notandi að tengja kerfið við tækjabúnað (t.d. ökurita). Frekari leiðbeiningar um tengingu búnaðar við lausnina má finna á www.siminn.is. Notandi getur tengt fleiri en eitt ökutæki við aðgang sinn í lausninni, að því gefnu að búnaður hafi verið virkjaður í hverju ökutæki.

Að öðru leyti fer um uppsetningu aðgangs skv. gr. 1.1. í skilmálum þessum.

2.3. Notkunarmöguleikar

Unnt er að nálgast lausnina í gegnum vefviðmót á https://bilar.siminn.is en notandi hefur einnig val um að hlaða niður smáforriti Símans (App), Síminn Snjallari Bílar, til að nálgast lausnina. Einungis er unnt að veita aukanotanda aðgang í gegnum vefviðmót lausnarinnar. Upplýsingar um aukanotendur eru aðgengilegar notanda með aukinn aðgang í gegnum vefviðmót og smáforrit (Appi) lausnarinnar. Nánari upplýsingar um upplýsingasöfnun vefviðmótsins annars vegar og smáforritsins (Appsins) hins vegar eru aðgengilegar á www.siminn.is.

2.4. Tækjabúnaður

Notanda er óheimilt að nota lausnina og tengja hana við annan tækjabúnað en þann sem Síminn hefur samþykkt, sem notandi hefur keypt af Símanum eða keypt af þriðja aðila í gegnum Símann. Kaupi notandi tækjabúnað frá Símanum skal notandi greiða Símanum endurgjald fyrir slíkan búnað eftir því sem mælt er fyrir um í verðskrá Símans á vefsíðu þess www.siminn.is. Notandi ber ábyrgð á uppsetningu á tækjabúnaði nema um annað sé samið og greitt fyrir á grundvelli gjaldskrár Símans. Í þeim tilvikum sem Síminn hefur útvegað leiðbeiningar og fyrirmæli um tengingu búnaðar við ökutæki skal notandi fylgja þeim í hvívetna.

Um ábyrgð á tækjabúnaði sem notandi hefur keypt af Símanum skal fara eftir því sem segir í gr. 4.2.

Sé tækjabúnaður tengdur bifreiðum í gegnum OBD-II tækni ber notanda að gæta þess að sú gerð bifreiðar sem búnaðurinn er tengdur við styðji við stöðluð OBD-II samskipti. Í þeim tilvikum er óheimilt er að nota búnaðinn í bifreiðar sem eru framleiddar fyrir 1996 þar sem slíkar bifreiðar styðja almennt ekki við stöðluð OBD-II samskipti.

2.5. Óheimil notkun

Notanda er með öllu óheimilt að:

afrita kerfið í heild eða hluta, eða breyta, endurþýða eða endurhanna, án þess að hafa aflað sér fyrirfram skriflegrar heimildar Símans, að því marki sem heimilt er að takmarka slíkt með samningi skv. lögum,
tengja annan búnað við lausnina en þann sem Síminn hefur samþykkt eða selt notanda, sbr. gr. 2.4.
setja búnað í ökutæki þriðja aðila án vitneskju eiganda eða ökumanns bifreiðar eða vakta aðra einstaklinga með rafrænum hætti með leynd eða öðrum óheimilum hætti, sbr. gr. 4.1.
Verði Síminn var við ofangreinda notkun á lausninni, eða ef notandi brýtur að öðru leyti gegn skilmálum þessum, áskilur Síminn sér rétt til að loka fyrirvaralaust aðgangi viðkomandi notanda að Snjallari Bílum og rifta um leið samningi þessum, sbr. gr. 4. og 8.

 

3. Þóknun

3.1. Verðskrá

Fyrir notkun á lausninni ber notanda að greiða Símanum þóknun í samræmi við verðskrá Símans sem aðgengileg er á www.siminn.is.

Verð er tilgreint í íslenskum krónum og með virðisaukaskatti, nema annað sé tekið fram. Komi til breytinga á verðskrá skulu þær tilkynntar notanda með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara.

3.2. Reikningar

Notandi er gjaldfærður mánaðarlega fyrirfram fyrir notkun lausnarinnar.

Reikningstímabil miðast við almanaksmánuð og er útgáfudagur reikninga í lok þess mánaðar. Gjalddagi reikninga er 20 dögum eftir lok reikningstímabils og eindagi að jafnaði 15 dögum eftir gjalddaga. Sé reikningur ekki greiddur á eindaga skal notandi greiða dráttarvexti, eins og þeir eru ákveðnir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá og með gjalddaga til greiðsludags. Hafi notandi ekki greitt reikninga tvo gjalddaga í röð áskilur Síminn sér rétt til að loka fyrir aðgang viðkomandi og eftir atvikum aukanotanda á hans vegum að lausninni og eftir atvikum rift samningi þessum við notanda og eyða aðgangi notanda og eftir atvikum aukanotanda að lausninni, sbr. gr. 8.4.

3.3. Annað

Notandi ber eftir sem áður ábyrgð á greiðslu gjalda vegna fjarskiptaþjónustu sem hann kaupir frá sínu fjarskiptafélagi vegna notkunar á snjalltæki sínu, t.d. notkun á gagnamagni.

Framangreint tekur ekki til greiðslu vegna þess búnaðar sem notandi kýs að tengja við lausnina, sbr. gr. 2.4.

4. Ábyrgð

4.1 Ábyrgð notanda

Hafi fleiri aðilar en notandi aðgang að bifreið sem tækjabúnaði hefur verið komið fyrir í, og hann tengdur kerfinu, ber notandi alfarið ábyrgð á því að upplýsa þá aðila um tilvist búnaðarins og söfnun þeirra upplýsinga sem fer fram með lausninni og tilganginn með söfnuninni/vöktuninni. Á þetta t.a.m. við í vinnusambandi og undir öllum öðrum kringumstæðum þar sem fleiri aðilar en notandi hafa aðgang að bifreið, þ.á m. maki eða aðrir fjölskyldumeðlimir.

Þá ábyrgist notandi í hverju tilviki fyrir sig að hann hafi rétt til þess að koma tækjabúnaði fyrir í þeirri bifreið sem hann gerir og að hann hafi rétt til að fylgjast með notkun þeirrar bifreiðar með tenginu við lausnina.

Skal notandi halda Símanum skaðlausu í tengslum við hvers konar kröfur þriðja aðila sem kunna að vera gerðar á hendur Símanum brjóti notandi gegn framangreindu.

4.2 Ábyrgð Símans

Komi í ljós innan árs frá afhendingu búnaðar (eða innan tveggja ára sé notandi neytandi í skilningi neytendalaga) að tækjabúnaðurinn er gallaður ber Símanum að gera við eða útvega notanda nýjan búnað í samræmi við meginreglur laga um lausafjárkaup. Það sama gildir um galla í kerfinu, komi í ljós galli í því ber Símanum að gera við það í samstarfi við Modus. Sé ekki fýsilegt að gera við galla skal Símanum jafnframt heimilt að endurgreiða notanda greidda þóknun fyrir viðkomandi tækjabúnað eða kerfið, eftir því sem við á.

Noti notandi tækjabúnaðinn eða kerfið með óeðlilegum hætti ber Síminn enga ábyrgð á búnaðnum og/eða kerfinu eða því tjóni sem notandi kann að verða fyrir. Með óeðlilegri notkun er t.a.m. átt við það ef notandi brýtur gegn gr. 2.4 eða 2.5, ef notandi breytir með einhverjum hætti búnaðnum eða kerfinu, ef notandi opnar búnaðinn eða fiktar í honum með öðrum hætti, eða ef gert er við búnaðinn með ófullnægjandi hætti. Þá ber Síminn ekki ábyrgð á mögulegu tjóni eða skemmdum sem kunna að verða á bifreið notanda við uppsetningu eða tengingu búnaðarins, nema um annað hafi verið samið sbr. gr. 2.4. Síminn ber ekki ábyrgð á að vinnsla í kerfinu stöðvist tímabundið, að aðgangur að gögnum notanda í kerfinu verði ekki mögulegur eða á tapi notanda á gögnum sem safnast hafa í kerfinu. Þá ber Síminn ekki ábyrgð á áreiðanleika þeirra gagna sem safnast í kerfinu.

Síminn ber í engu tilviki ábyrgð á rekstrartapi notanda og/eða þriðja aðila, né heldur afleiddu tjóni slíkra aðila, þ.m.t. glötuðum ágóða eða ráðgerðum sparnaði, hvort sem tjónið er rakið til galla, skemmda eða eyðileggingar á tækjabúnaði eða kerfinu eða til annarra ástæðna, jafnvel þó að Símanum hafi verið tilkynnt um möguleikann á slíku tjóni.

Í öllum tilvikum skal ábyrgð Símans, vegna hvers konar mistaka, villna, vanrækslu, truflana, tafa, tjóns eða galla á lausninni takmarkast við jafnvirði þeirrar þóknunar sem notandi hefur sannanlega greitt Símanum fyrir lausnina á síðustu 3 mánuðum fyrir það atvik sem orsakaði umrætt tjón, að því marki sem heimilt er á grundvelli ófrávíkjanlegra laga.

Ef aðili getur ekki uppfyllt skyldur sínar vegna neyðarréttarlegra, óviðráðanlegra atvika (force majeure) falla skuldbindingar hans, þ.m.t. möguleg bótaábyrgð, niður á meðan slíkt ástand varir.

 

5. Höfunda- og hugverkaréttur

Allur hugverkaréttur að kerfinu er annað hvort eign Símans eða þriðja aðila, þ.á m. Modus. Samningur þessi hefur ekki í för með sér neins konar yfirfærslu á höfunda- eða hugverkarétti frá Símanum eða Modus til notanda eða aukanotanda. Gegn greiðslu þóknunar fær notandi, og eftir atvikum aukanotandi á hans vegum, með samningi þessum hins vegar leyfi til notkunar á kerfinu á samningstíma, þ.á m. hugbúnaði Modus sem lausnin byggir á.

Allt innihald smáforritsins og vefsvæðis er í eigu Símans hf. eða Modus, þ.m.t. vörumerkið Snjallir Bílar, texti, hönnun, grafík, ljósmyndir, myndir og ritstýrt efni er varið höfundarétti. Dreifing, fjölföldun, endurútgáfa eða annars konar sambærileg notkun af höfundavörðu efni Símans eða Modus er með öllu óheimil.

 

6. Persónuvernd

Við notkun þjónustunnar verða til upplýsingar um notkun þeirra bifreiða sem tengdar hafa verið kerfinu, þ.á m. um staðsetningu, aksturslag, bilanir og/eða viðhaldsþörf bifreiðanna. Þessar upplýsingar kunna eftir atvikum að teljast til persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. 

Í Persónuverndarstefnu Snjallari Bíla, sem aðgengileg er á vefsíðu www.siminn.is, er að finna nánari upplýsingar um hvernig unnið er með þær upplýsingar sem safnast við notkun á lausninni. Persónuverndarstefna þessi skal teljast hluti af samningi þessum og skal notandi því kynna sér hana vel.

 

7. Breytingar og samskipti

7.1. Tæknilegar breytingar eða uppfærslur

Síminn áskilur sér rétt til að gera tæknilegar breytingar eða uppfærslur á Snjallari Bílum þegar þörf krefur, þ.á m. til að bæta lausnina. Mun Síminn tilkynna notanda um slíkar breytingar í þeim tilvikum sem slíkar breytingar geta haft áhrif á notkun á Snjallari Bíla eftir því sem unnt er.

7.2. Breytingar á skilmálum Snjallari Bíla

Síminn áskilur sér rétt til að uppfæra skilmála þessa. Nýjasta útgáfa skilmála þessa er aðgengileg á vefsíðu Símans og í gegnum smáforritið Snjallari Bílar.

Samþykki notandi ekki breytta skilmála Snjallari Bíla getur notandi ekki lengur nýtt sér lausnina eftir að breyttir skilmálar taka gildi og verður aðgangi hans, og eftir atvikum aukanotanda á hans vegum, þá sjálfkrafa lokað.

7.3. Samskipti milli Símans og notanda

Síminn áskilur sér rétt til að senda notanda og eftir atvikum aukanotanda skilaboð sem tengjast lausninni, þ.á m. tilkynningar um tæknilegar breytingar eða uppfærslur á lausninni eða breytingar á skilmálum, með því að senda SMS skilaboð, tölvupóst eða skilaboð í gegnum smáforritið.

Síminn mun ávallt óska eftir samþykki fyrir að mega hafa samband við notanda og/eða aukanotanda í markaðslegum tilgangi, svo sem til að senda skilaboð um aðrar þjónustur og/eða vörur Símans. Unnt er að afturkalla slíkt samþykki hvenær sem er með því að senda tilkynningu þess efnis til Símans eða með því að hafa samband símleiðis við þjónustuver.

Hvers konar samskiptum til Símans, þ. á m. ábendingar og kvartanir, skulu fara fram með eftirfarandi hætti:

  • Í verslun Símans
  • í Þjónustuveri Símans 800-7000
  • Í Netspjalli Símans á siminn.is

Frekari upplýsingar um tilkynningaraðferð og/eða -form gætu verið birtar á vefsvæðinu www.siminn.is eða í skilaboðum frá Símanum til notanda og eftir atvikum aukanotanda.

 

 

8. Lokun aðgangs og uppsögn/riftun samnings

8.1. Lokun aðgangs

Síminn áskilur sér rétt til að loka tímabundið fyrir aðgang notanda og/eða aukanotanda ef eitthvert af skilyrðum í gr. 8.4. eru uppfyllt.

Upplýsingum um notanda, og eftir atvikum aukanotanda, eða notkun hans á lausninni er ekki eytt þegar aðgangi er lokað tímabundið, heldur eru þær varðveittar þar til samningi þessum er sagt upp eða rift, sbr. gr. 8.-2.-8.4. og Persónuverndarstefnu Símans.

Auk þess að loka tímabundið fyrir aðgang áskilur Síminn sér rétt til að loka tímabundið á fjarskiptaþjónustu og þar með söfnun upplýsinga með lausninni í tilviki vanskila notanda, eins og nánar er kveðið á um í almennum fjarskiptaskilmálum Símans á www.siminn.is.

8.2. Uppsögn af hálfu notanda

Notandi getur sagt upp samningi þessum með tilkynningu til Símans hvenær sem er, sbr. gr. 7.3. Við tilkynningu um uppsögn samnings þarf notandi að tilgreina kennitölu sína og nafn. Uppsögn notanda tekur gildi strax og lokast aðgangur notanda, og eftir atvikum aukanotanda, samtímis.

Vakin er athygli á að eyðing smáforritsins Snjallari Bílar úr snjalltæki notanda felur ekki í sér uppsögn á samningi þessum eða á notkun Snjallari Bíla. Með sama hætti felur það ekki í sér uppsögn á samningi fjarlægi notandi tækjabúnað úr bifreið sinni eða aftengi hann kerfið með öðrum hætti.

8.3. Uppsögn af hálfu Símans

Síminn getur sagt upp samningi þessum við notanda hvenær sem er með tveggja mánaða fyrirvara. Skal slík uppsögn berast notanda skriflega, svo sem með tölvupósti. Síminn þarf ekki að tilgreina ástæðu uppsagnar.

Að uppsagnarfresti liðnum lokast sjálfkrafa aðgangur notanda, og eftir atvikum aukanotanda, að Snjallari Bílum.

8.4. Riftun samnings

Síminn áskilur sér rétt til að rifta samningnum án fyrirvara og þar með eyða aðgangi notanda, og eftir atvikum aukanotanda, fyrirvaralaust ef eitthvert neðangreindra skilyrða á við:

notandi eða aukanotandi fer ekki eftir skilmálum þessum, lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum við notkun á Snjallari Bílum, sbr. einkum gr. 2.5.,
notandi eða aukanotandi hefur í frammi ógnandi hegðun gagnvart starfsfólki Símans,
ef notandi stendur ekki skil á þóknun vegna notkun lausnarinnar tvo gjalddaga í röð, sbr. gr. 3.2, eða
ef Símanum er það skylt skv. fyrirmælum frá stjórnvöldum eða dómstólum.
8.5. Áhrif uppsagnar/riftunar

Við uppsögn samnings þessa, hvort sem er af hálfu notanda eða Símans, eyðast öll gögn um notkun notanda og eftir atvikum aukanotanda á lausninni við lok uppsagnarfrests.

Skyldi Síminn rifta samningi við notanda áskilur Síminn sér rétt til að eyða aðgangi notanda, þ.m.t. öllum upplýsingum um notanda og notkun hans (og eftir atvikum aukanotanda). Hafi Síminn rift samningi við notanda vegna athæfis sem varðar við lög eða stjórnvaldsfyrirmæli áskilur Síminn sér rétt til að leita réttar síns eða kæra viðkomandi til lögreglu. Slíkur réttur skal einnig vera til staðar vakni grunur um saknæma háttsemi jafnvel þó svo að Síminn ákveði að rifta ekki samningi við notanda. Framangreint á einnig við um athæfi eða háttsemi aukanotanda.

 

9. Lögsaga og varnarþing

Um skilmála þessa gilda íslensk lög. Rísi ágreiningur milli notanda og Símans vegna lausnarinnar Snjallari Bílar, sem ekki reynist unnt að leysa með farsælum hætti milli aðila, skal reka málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

 

10. Gildistími

Skilmálar þessir eru gefnir út af Símanum og gilda frá 1. júlí 2017 og til þess tíma er nýir skilmálar taka gildi. 

Persónuverndarstefna Snjallari Bílar

Snjallari Bílar er hugbúnaðarlausn sem Síminn hf., Ármúla 25, 108 Reykjavík (hér eftir „Síminn“) býður upp á í samstarfi við bandaríska fyrirtækið Modus Solutions, LLC, sem gerir notanda mögulegt að fylgjast rafrænt með staðsetningu og notkun bifreiðar.

Hugbúnaðarlausnin er tengd tækjabúnaði (t.d. ökurita) sem komið er fyrir í bifreið notanda. Í tækjabúnaðinn er sett SIM kort frá Símanum og í gegnum Snjallari Bíla hugbúnaðarlausnina er veittur aðgangur að nánar tilteknum upplýsingum um bifreiðina og aksturslag hennar.

Notandi getur bæði notast við vefviðmót lausnarinnar sem og smáforrit (App).

Frekari leiðbeiningar um notkun og virkni Snjallra Bíla eru aðgengilegar á vefsíðu Símans, www.siminn.is.

Persónuverndarstefna þessi gildir um vinnslu Símans á þeim persónuupplýsingum notanda sem unnið er með í tengslum við notkun á lausninni Snjallari Bílar.

 

1. Vinnsla Símans
Við skráningu á aðgangi í hugbúnaðarlausninni og við notkun lausnarinnar er unnið með persónugreinanlegar upplýsingar notanda eins og nánar er kveðið á um í stefnu þessari.

Öll vinnsla á persónuupplýsingum lýtur lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, reglum nr. 837/2006 um rafræna vöktun og öðrum reglum sem settar hafa verið á grundvelli persónuverndarlaga („persónuverndarlög“).

Síminn gætir þess að þeir þættir vinnslunnar sem Síminn hefur með höndum í tengslum við notkun lausnarinnar séu í samræmi við slíka löggjöf. Í þeim tilvikum þar sem lausnin er notuð í vinnuréttarsambandi, eða í öðrum tilvikum þar sem um tengda aðganga er að ræða, kunna sérstök sjónarmið að gilda um ábyrgð á vinnslunni. Nánar er fjallað um þau tilvik í gr. 5 í stefnu þessari.

 

2. Persónuupplýsingar sem safnað er
Við stofnun aðgangs í hugbúnaðarlausninni þarf notandi að skrá upplýsingar um nafn, kennitölu og netfang. Þá getur notandi valið að skrá skráningarnúmer ökutækis í lausnina við stofnun aðgangs. Með því að skrá inn skráningarnúmer ökutækis kallar lausnin sjálfkrafa eftir upplýsingum úr ökutækjaskrá um gerð ökutækisins.

Í tilvikum aukanotenda kann notandi jafnframt að þurfa að skrá nafn og netföng annarra notenda til að veita þeim aðgang að lausninni og ber notandi í þeim tilvikum ábyrgð á því að hann hafi heimild til þess. Slíkir aðilar teljast vera aukanotendur.

Við notkun lausnarinnar safnast upplýsingar um notkun þeirra ökutækja sem tengd hafa verið lausninni í gegnum þar til gerðan tækjabúnað og geta slíkar upplýsingar eftir atvikum talist til persónuupplýsinga þar sem mögulegt kann að vera að rekja upplýsingarnar til tilgreindra ökumanna.

Vefviðmót; Eftir að hafa tengt tækjabúnað við ökutæki og virkjað aðgang í hugbúnaðarlausninni fær notandi aðgang að upplýsingum um staðsetningu ökutækisins, akstursleiðir (þ. á m. aksturssögu) og aksturslag ökutækis, svo sem ökuhraða og upplýsingar um harkalegar hömlur eða beygjur), auk þess sem sumir framleiðendur ökutækja gera einnig aðgengilegar nánari upplýsingar um ástand og eiginleika bílsins, svo sem hitastig vélar og fjölda ekinna km. Athugið að mismunandi upplýsingar eru aðgengilegar um OBD-II tengi eftir framleiðendum bifreiða.

Smáforrit; Notendur hafa einnig val um að hlaða niður smáforriti Símans (App), Síminn Snjallir Bílar, til að nálgast lausnina. Kjósi notandi það safnar smáforritið einnig eftirfarandi upplýsingum úr símtæki hans, t.d.:

hvort sími er opnaður og í hvaða tilgangi (til að hringja, opna SMS eða nota smáforrit),
gerð símtækis,
OS/App/Api Version (þar sem við á),
upphafs- og lokatími síðustu akstursleiðar (frá hvaða tæki, tími og dagsetning)
Wi-Fi/Bluetooth/Tracking/Location/Push notifications (hvort slík stilling virkjuð)
hvort símtæki var aflæst á meðan ökumaður ók hinu skráða ökutæki

Það skal tekið fram að smáforritið safnar aldrei upplýsingum um efni símtala, símanúmer eða texta smáskilaboða.

Ekki er unnið með neinar viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi laga við notkun á lausninni.

Nánari upplýsingar um upplýsingasöfnun vefviðmótsins og smáforritsins eru aðgengilegar á www.siminn.is.

3. Tilgangur vinnslu
Síminn aflar, skráir og vistar upplýsingarnar í þeim tilgangi að gera notanda kleift að nýta hugbúnaðarlausnina og veita réttum notanda upplýsingar um rétt ökutæki, á grundvelli samnings milli Símans og notanda. Þá eru upplýsingarnar notaðar til að tryggja gæði og virkni lausnarinnar og ef þörf krefur vegna stoðþjónustu og bilanagreiningu.

Hvað smáforritið varðar þá er tilgangur vinnslunnar jafnframt að staðfesta tengsl á milli síma og ökutækis.

Þá mun Síminn nota upplýsingarnar til að hafa samband við notanda í viðskiptalegum tilgangi, þ.á m. í þeim tilgangi að tilkynna notanda um breytingar á lausninni, þegar og ef þess gerist þörf og í því skyni að geta sent notanda reikninga til að gjaldfæra fyrir notkun á lausninni í samræmi við samning aðila.

 

4. Viðtakendur upplýsinga
Þær upplýsingar sem safnast við notkun lausnarinnar um tengd ökutæki í gegnum tækjabúnað og snjallforrit eru vistaðar hjá Modus Solutions LLC („Modus“) í Írlandi. Modus telst vinnsluaðili Símans í tengslum við þá vinnslu í skilningi persónuverndarlaga og hefur Síminn sannreynt að Modus getur framkvæmt viðeigandi öryggisráðstafanir við hýsingu upplýsinganna og hefur Síminn gert skriflegan vinnslusamning við Modus.

Vinnsla Modus á upplýsingunum felst í því að tryggja öryggi upplýsinganna, hýsa upplýsingarnar, tengja lausnina og upplýsingar sem safnast úr tækjabúnaði og eftir atvikum snjallsímum við upplýsingar frá framleiðendum ökutækja og eftir atvikum þriðju aðilum (t.d. Google Map) og sjá um að eyða upplýsingum á grundvelli fyrirmæla Símans þar um.

Þá kann Síminn eftir atvikum að þurfa veita notendum stoðþjónustu eða bilanagreiningu, sé um það samið, og í slíkum tilvikum kunna upplýsingar að verða sendar til Modus í Bandaríkjunum frá Símanum. Modus er hins vegar skráð hjá bandaríska viðskiptaráðuneytinu á grundvelli samkomulags Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um öryggisskjöld (e. Privacy Shield), og er flutningur upplýsinga þangað því heimill á grundvelli persónuverndarlaga.

Hvorki Síminn né Modus munu afhenda þriðja aðila, að lögreglu frátalinni, persónugreinanleg gögn úr kerfinu nema á grundvelli lagaheimildar, stjórnvaldsfyrirmæla eða dómsúrskurðar.

 

 

5. Notkun lausnarinnar í vinnuréttarsambandi
Þegar lausnin er notuð af fyrirtækjum, þ.á m. í vinnuréttarsambandi, skal slíkur notandi teljast ábyrgur fyrir þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram þegar hann eða einhver á hans vegum notar þjónustuna, þ. á m. aukanotendur. Ber notanda í slíkum tilvikum að gæta að því að sú vinnsla sem fer fram á hans vegum samrýmist lögum og reglum um persónuvernd. Skulu notendur í slíkum tilvikum vera ábyrgir fyrir því að upplýsa starfsmenn og aðra aðila sem aðgang kunna að hafa að lausninni um öll þau atriði sem lúta að vinnslu persónuupplýsinga.

Síminn telst almennt vinnsluaðili í skilningi persónuverndarlaga í tengslum við hvers konar vinnslu persónuupplýsinga notanda undir slíkum kringumstæðum og Modus undirvinnsluaðili. Skulu aðilar gera með sér skriflegan vinnslusamning um vinnslu Símans óski notandi þess.

Um notkun lausnarinnar í vinnuréttarsambandi, eða öðrum tilvikum þar sem notandi útvegar og/eða hefur aðgang að aðgöngum aukanotenda, fer að öðru leyti eftir samkomulagi þeirra sín á milli og eru slíkir samningar Símanum óviðkomandi.

 

6. Varðveislutími
Persónuupplýsingar notanda verða ekki varðveittar lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslunnar.

Upplýsingum sem safnast við notkun lausnarinnar verður eytt að uppsagnarfresti liðnum, hafi samningi notanda og Símans verið sagt upp, eða við riftun.

Upplýsingum er ekki eytt í þeim tilvikum er aðgangi notanda er lokað tímabundið.

Notandi getur hvenær sem er valið í vefviðmótinu eða smáforritinu að láta eyða upplýsingum um ferðir tengdrar bifreiðar innan 90 daga frá söfnun þeirra.

 

 

7. Áreiðanleiki upplýsinga
Síminn mun gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að persónuupplýsingar sem félagið safnar séu áreiðanlegar og, ef nauðsyn krefur, uppfærðar. Framangreint á ekki við um upplýsingar sem notandi eða aukanotandi skráir sjálfur í aðgang sinn að lausninni. Séu persónuupplýsingar óáreiðanlegar mun Síminn, með hliðsjón af tilgangi vinnslunnar, gera viðeigandi ráðstafanir til þess að þær verði leiðréttar eða þeim eytt.

 

 

 

8. Öryggi upplýsinga
Síminn mun gera viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir til að tryggja öryggi persónuupplýsinga, m.a. með það að markmiði að koma í veg fyrir mannleg mistök, þjófnað, svik og aðra misnotkun á upplýsingum. Síminn mun takmarka aðgang að upplýsingum við þá sem þurfa slíkan aðgang til að ná fram tilgangi vinnslunnar. Starfsmenn Símans eru upplýstir um skyldu þeirra til að viðhalda trúnaði og öryggi persónuupplýsinga.

 

 

 

 

9. Réttindi notanda
Notandi hefur rétt til andmæla söfnun Símans á persónuupplýsingum telji hann að slík söfnun sé ekki í samræmi við tilgang hennar, að meðalhófs sé ekki gætt eða ef hann telur að sama árangri væri hægt að ná með mildari aðferðum. Þá getur notandi óskað eftir því að fá upplýsingar um vinnslu sem á sér stað hjá Símanum um hann eða eftir atvikum aukanotendur sem hefur verið unnið með ef um notanda með aukinn aðgang er að ræða, enda standi hagsmunir annarra því ekki í vegi. Sé aðgangur veittur skal hann veittur eins fljótt og auðið er og eigi síðar en innan eins mánaðar frá móttöku slíkrar beiðni. Notandi kann jafnframt að eiga rétt til að krefjast þess að rangar, villandi eða ófullkomnar persónuupplýsingar um hann eða eftir atvikum aukanotendur séu leiðréttar og/eða að persónuupplýsingum sé eytt, þ.á m. ef upplýsingarnar teljast ekki lengur nauðsynlegar í þeim tilgangi sem lá að baki söfnun eða annarri vinnslu þeirra, ef ekki eru lengur til staðar lögmætar ástæður til að vinna upplýsingar, ef síðar kemur í ljós að vinnslan reynist ólögmæt eða ef Símanum eða notanda er skylt að eyða upplýsingunum á grundvelli lagaskyldu eða stjórnvaldsfyrirmæla.

Berist Símanum fyrirspurnir frá aukanotanda sem varða aðgang hans að lausninni, eyðingu upplýsinga um sig eða annað sem tengist vinnslu upplýsinga um hann við notkun lausnarinnar mun Síminn eftir fremsta megni beina slíkum beiðnum áfram til notanda, nema í þeim tilvikum sem Símanum telur að honum sé heimilt eða skylt að bregðast við fyrirspurninni án frekari aðkomu notanda.

 

 

 

 

 

10. Ópersónugreinanlegar upplýsingar
Síminn áskilur sér rétt til að vinna með ópersónugreinanlegar upplýsingar sem safnað er með hugbúnaðarlausninni til áframhaldandi vöruþróunar, til að bæta þjónustu og til að bæta virkni lausnarinnar.

 

 

 

 

 

11. Kvartanir og beiðnir
Kvartanir og beiðnir notanda vegna vinnslu Símans á persónuupplýsingum í tengslum við hugbúnaðarlausnina skal koma á framfæri við Símann með skriflegum hætti eða með því að hafa samband símleiðis við þjónustuver.

Aukanotandi skal beina kvörtunum og beiðnum til viðeigandi notanda með aukinn aðgang, eða eftir atvikum til Persónuverndar ef ágreiningur er til staðar.

 

 

 

 

 

12. Tilkynning til Persónuverndar
Vinnsla persónuupplýsinga með hugbúnaðarlausninni á vegum Símans hefur verið tilkynnt til Persónuverndar í samræmi við ákvæði reglna nr. 712/2008 um tilkynningarskylda og leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga. Aðrir ábyrgðaraðilar vinnslu persónuupplýsinga vegna notkunar á lausninni kunna einnig að þurfa tilkynna Persónuvernd fyrirfram um vinnsluna, sbr. einnig gr. 5.