Ársskýrsla 2017

Síminn

Áfram leiðandi í nýjungum á markaði.
Síminn

Reyndasta fjarskiptafélag landsins

Farsími, fastlína, internet og sjónvarp eru fjórar helstu vörur Símans á smásölumarkaði. Rétt tæpur helmingur heimila er með fastlínunettengingu hjá Símanum og um þriðjungur farsímanotenda er hjá fyrirtækinu. Þá eru um helmingur notenda gagnvirks sjónvarps (IPTV) á Íslandi hjá Símanum.

Ástæða þessarar velgengni er ekki aðeins ríflega aldargamalt samband Símans við heimili landsins, heldur einnig að Síminn er leiðandi í nýjungum á markaði, býður góða þjónustu og sanngjarnt verð.

Viðtal við forstjóra

Stoltur af afkomu Símans og dótturfélaga

Orri Hauksson

„Stefna undanfarinna ára hefur verið að skerpa rekstur samstæðunnar utan um kjarnastarfsemina á hörðum samkeppnismarkaði. Það hefur skilað góðum árangri.“ Orri bendir á að hagnaður hafi aukist um tæp tólf prósent milli áranna 2016 og 2017 og að EBITDA framlegð samstæðunnar sé nú komin yfir 30% af tekjum. „Tekjur lækkuðu vegna lægri verða á farsímamarkaði, minni búnaðarsölu og starfsemi sem við seldum frá okkur eða lögðum af. Kostnaðurinn lækkaði hins vegar enn hraðar, til að mynda dróst launaliðurinn saman um 642 milljónir milli ára. Skuldir voru einnig lækkaðar umtalsvert á árinu, eða um rúma fimm milljarða, þegar við greiddum upp skuldabréfaflokk og endurskipulögðum efnahagsreikning samstæðunnar í heild“, segir Orri.
 
Orri segir að Síminn hafi bætt við viðskiptavinum í internet- og farsímaþjónustu, en sérstaklega í Premium efnisþjónustu Símans í sjónvarpi. Hann tekur einnig til, að Íslendingar hafi í fyrsta sinn í fyrra getað horft á 4K háskerpuútsendingar, tekið myndlykilinn með í sumarbústaðinn og greitt með farsímanum í verslunum. „Fyrirtæki samstæðunnar, þ.e. Síminn, Míla, Sensa og Radíómiðun, hafa markvisst fjárfest í sterkara sambandi við viðskiptavini sína undanfarin misseri. Uppbygging Símasamstæðunnar á ríkan þátt í því að Sameinuðu þjóðirnar útnefndu Ísland á síðasta ári með hæstu einkunn allra landa í heiminum í fjarskipta- og upplýsingatækni. Útbreiðsla ljósnetstenginga Mílu jókst hratt á landsbyggðinni og 60% heimila á höfuðborgarsvæðinu höfðu í árslok möguleika á ljósleiðara félagsins. Alls 98,2% heimila landsmanna voru um áramótin dekkuð með heimsklassa 4G sambandi Símans.“
 
Hinar miklu fjárfestingar hafa skilað sér í stöðugri kerfum, sjálfvirkari þjónustu og einfaldari ferlum, að sögn Orra. Á síðasta ári hafi símtölum í þjónustuver Símans fækkað um 20%. „Þrátt fyrir að fækkað hafi í starfsliði samstæðunnar um 11% á síðasta ári og hjá móðurfélaginu um tæpan fjórðung á undanförnum tveimur árum, mælum við aukna ánægju viðskiptavina okkar.“ Orri segir að fjárfest hafi verið fyrir 4,8 milljarða í fyrra, en fjárfestingaþörfin verði minni fram á við. „Það hefur auk þess borið á tví- og offjárfestingu á höfuðborgarsvæðinu, þar sem borgarfyrirtækið Gagnaveita Reykjavíkur hefur reynt að koma í veg fyrir samvinnu um grunninnviði og lokar á hráan aðgang að ljósheimtaugum, sem önnur sveitarfélaganet veita með bros á vör. Fljótlega munu stefnumörkun stjórnvalda, ný löggjöf og önnur reglustýring vinda ofan af þessari óþörfu sóun á vegum opinbers fyrirtækis og skapa til lengri tíma betri nýtingu fjarskiptainnviða um allt land.
 
„Við munum áfram skapa ný tækifæri í rekstri samstæðunnar. Má nefna nýlegan samning við Verne Global sem gerir búnaðarrekstur samstæðunnar mun hagkvæmari en fyrr. Aðalmarkmiðið með þessari breytingu er hins vegar að Sensa og Síminn fá þarna frábært tækifæri til að bjóða hýsingu og stórvirkan tölvurekstur á innlendum og erlendum vettvangi“, segir Orri og bætir við: „Stefna Símans og dótturfélaga er að veita framúrskarandi þjónustu. Eigendur okkar vilji góða ávöxtun af fjárfestingu sinni. Ánægðir viðskiptavinir, sem vilja vera áfram og mæla með þjónustu okkar við aðra, er aðferð okkar til að skapa virði hjá fjárfestum félagsins.“

22,7%

Velta Símans var 23 milljarðar króna og EBITDA var 5,2 milljarðar króna eða 22,7% af veltu.

1.758 m.kr.

Fjárfestingar Símans námu 1.758 milljónum króna eða 7,6% af veltu.

98,2%

4G þjónusta Símans nær nú til rúmlega 98% landsmanna og er stöðugt unnið að því að efla þjónustuna.

-20%

Með bættum ferlum, skilvirkari þjónustu og stöðugri kerfum tókst að fækka símtölum í þjónustuver Símans um 20% á árinu.

Skipurit Símans
Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri

Sjónvarp Símans Premium slær í gegn

Árið sem leið er minnisstætt fyrir margra hluta sakir. Farsímakerfið okkar fékk staðfesta yfirburði sína með hraðamælingum Ookla Speedtest og Þrenna, eina áskriftarleiðin á markaðnum þar sem innifalið gagnamagn safnast upp á milli mánaða, margfaldaði fjölda áskrifenda. Sjónvarp Símans Premium átti sitt stærsta ár frá upphafi. Fjöldi áskrifenda í efnisveitunni sem og pantanir á efni hafa aldrei verið fleiri. Í lok árs frumsýndum við Stellu Blómkvist en það er í fyrsta sinn sem leikin íslensk þáttaröð er sýnd í heilu lagi í íslenskri sjónvarpssögu.

Tvær nýjar vörur litu svo dagsins ljós á árinu. Snjallari bílar gefur einfalt yfirlit yfir notkun og ástand bifreiða og með Síminn Pay er hægt er að greiða með snjallsímanum hjá yfir 300 verslunum.

Eric Figueras, framkvæmdastjóri

Meiri hraði, útbreiðsla og upplifun

Í lok árs náði 4G kerfi Símans til 98,2% landsmanna og við stigum stórt skref til frekari vaxtar með nýrri langdrægri tíðni sem mun bæta enn útbreiðslu, hraða og upplifun.

Sjónvarp Símans átti sitt stærsta ár frá upphafi, með tæplega 2 milljónir spilana í desember ásamt því að við settum í loftið nýja virkni sem gerir öllum kleift að taka Sjónvarp Símans með í fríið. Við stigum svo okkar fyrstu skref til aukinnar sjálfvirknivæðingar með notkun vinnuþjarka (róbóta).

Síminn

Síminn í góðum félagsskap

Síminn rekur eigið farsímakerfi sem hann byggir upp með Ericsson, á sjónvarpsstöðina Sjónvarp Símans og eitt framsæknasta gagnvirka sjónvarpskerfi landsins. Hann á eigin efnisveitu með yfir 7.000 klukkustundum af sjónvarpsefni, framleiðir eigið sjónvarpsefni og er í samstarfi við helstu framleiðendur í Hollywood. Þar á meðal eru Disney, CBS, Twentieth Century Fox, NBC og Showtime.

Þá er Síminn eina fjarskiptafélagið hér á landi í samstarfi við Spotify og hóf á árinu 2017 samstarf við Telefónica, eitt stærsta fjarskiptafyrirtæki í heimi sem eflir þekkingu og stuðlar að hagkvæmari innkaupum.