Tilnefningar til stjórnar Símans hf.

Síminn hf. setti á laggirnar tilnefningarnefnd í samræmi við ákvörðun hluthafafundar félagsins þann 28. nóvember 2018, sbr. einnig ályktun aðalfundar þann 15. mars 2018. Tilgangur tilnefningarnefndar Símans hf. er að huga að hagsmunum allra hluthafa og tilnefna frambjóðendur í stjórn félagsins. 

Tilgangur tilnefningarnefndar

 

Síminn hf. setti á laggirnar tilnefningarnefnd í samræmi við ákvörðun hluthafafundar félagsins þann 28. nóvember 2018, sbr. einnig ályktun aðalfundar þann 15. mars 2018. Tilgangur tilnefningarnefndar Símans hf. er að huga að hagsmunum allra hluthafa og tilnefna frambjóðendur í stjórn félagsins. Tilnefningarnefnd fer yfir þekkingu og reynslu stjórnar sem heild og í framhaldi metur frambjóðendur út frá þekkingu og reynslu og hvort þeir geti sinnt skyldum sínum samkvæmt samþykktum félagsins, lögum um hlutafélög nr. 2/1995, auk annarra laga og reglugerða sem gilda um félagið.

Ekki er sjálfgefið að breyta þurfi samsetningu stjórnar á hverjum tíma en slíkt er háð aðstæðum hverju sinni, virkni núverandi stjórnar og vilja núverandi stjórnarmanna til áframhaldandi stjórnarsetu.

Nefndin auglýsir hér með eftir tilnefningum eða framboðum til stjórnar Símans vegna aðalfundar félagsins sem haldinn verður 21. mars næstkomandi.

Nefndin metur frambjóðendur með tilliti til reynslu, þekkingar og viðeigandi hæfni til að starfa sem stjórnarmenn hjá félaginu samkvæmt hæfnisviðmiðum félagsins.  Á grundvelli niðurstaðna mun nefndin leggja fram tillögur sínar um framboð til stjórnar fyrir hvern aðalfund.

Óskað er eftir að tilnefningar eða framboð séu send á netfang nefndarinnar, tilnefningarnefnd@siminn.is ásamt framboðseyðublaði, stuttu kynningarbréfi og ferilskrá fyrir 10. febrúar 2019. Fresturinn er settur til þess að tilnefningarnefnd geti sinnt skyldum sínum og fjallað um tilnefningar og framboð og skilað rökstuddu áliti áður stjórn boðar til aðalfundar. Starfsemi tilnefningarnefndar takmarkar ekki heimild frambjóðanda til þess að skila inn framboðum til stjórnar allt fram að fimm dögum fyrir aðalfund.  

 

Tilnefningarnefnd

Nefndin skal skipuð af þremur nefndarmönnum. Meirihluti nefndarinnar skal vera óháður félaginu og framkvæmdastjórn þess.  Tveir nefndarmenn skulu kjörnir af aðalfundi á hverju ári og einn fulltrúi skal kjörinn af stjórn á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.

Í tilnefningarnefnd Símans eru:

  • Jensína Kristín Böðvarsdóttir, formaður nefndarinnar
  • Steinunn Kristín Þórðardóttir
  • Bertrand B. Kan

Jensína og Steinunn voru kjörnar á hluthafafundi þann 28. nóvember 2018 og Bertrand var valinn af stjórn.

Starfsreglur tilnefninganefnda má nálgast hér.