Endurvinnsla

Endurnýting á farsímum

Gríðarlegur fjöldi farsíma er seldur hér á landi ár hvert en talið er að farsímanotendur skipti um farsíma að meðaltali á 18 mánaða fresti. Þrátt fyrir að fólk skipti um farsíma eru gömlu tækin í mörgum tilvikum enn heil og hægt að nýta á ýmsan hátt.

Síminn tekur við gömlum og ónýtum farsímum og kemur þeim í endurnýtingu erlendis þar sem þau geta öðlast nýtt líf. Síminn er fyrsta fjarskiptafélagið á Íslandi sem annast endurnýtingu á farsímum með reglubundnum hætti.

Hvað er endurnýting?

Endurnýting snýst um að gera við hluti eða taka virka parta til þess að gera annan hlut virkan. Með endurnýtingu á raftæki, til dæmis farsíma, er hægt að fá heilt raftæki með litlum kostnaði því það þarf ekki að búa til glænýtt tæki. Þeir farsímar sem eru að mestu leyti heilir er hægt að laga og nota aftur. Til dæmis er hægt að skipta um skjái eða setja nýja rafhlöðu í símtæki svo að það virki eins og áður.

Öll viðgerð á farsímum á sér stað hjá vottuðum fyrirtækjum í iðnríkjum þar sem tækin eru prófuð og seld, oft til þróunarlanda. Þar koma slík tæki oft að góðum notum þar sem uppbygging fjarskiptakerfisins er dýr og íbúar eiga í mörgum tilvikum ekki kost á því að kaupa glænýja farsíma. Slík tæki efla því framgang samfélagsins og treysta innviði þess.

Hvað er endurnýtt úr farsímum?

Þeir farsímar sem eru skemmdir og ekki er hægt að endurnýta nýtast engu að síður því í þeim er að finna margvísleg verðmæt efni sem hægt er að nota við framleiðslu á öðrum búnaði. Í farsímum er að finna lítið magn af hvítagulli, silfri, gulli og kopar sem hægt er að nýta í skartgripi eða jafnvel í aðra farsíma.

Í flestum rafhlöðum farsíma er að finna nikkel sem hægt er að nýta til þess að búa til ryðfrítt stál sem er meðal annars notað við framleiðslu á pottum. Þá er plast úr farsímum malað og endurnýtt. Einnig er hægt að endurnýta skjái og linsur úr farsímum svo dæmi séu tekin.

Er hægt að nýta allt úr farsímum?

Í raun er hægt að nýta mest allt úr farsímum jafnvel þó að þeir séu það skemmdir.
Úr slíkum símum er hægt að endurnýta nokkra hluti, til dæmis plast, annað er sent í endurvinnslu.

Eru spilliefni í farsímum?

Í öllum farsímum er að finna spilliefni, svo sem blý og arsenik. Þessi efni valda engum skaða þegar farsíminn er í notkun en þau geta valdið skaða á umhverfinu ef gömlum og ónýtum farsíma er ekki eytt með réttum hætti.

Hvernig getur gamli síminn minn öðlast nýtt líf?

Síminn tekur við gömlum og ónýtum farsímum í öllum verslunum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Fyrirtækið Græn framtíð annast flutning á símtækjunum til vottaðra endurnýtingarfyrirtækja víða um heim.

Græn framtíð leggur áherslu á að vinna með löggiltum aðilum í endurnýtingu og endurvinnslu á búnaði sem hafa umhverfisvottanir frá Evrópusambandinu, svo sem tilskipun Evrópusambandsins (Waste Electrical and Electronic Equipment) um rétta meðhöndlun á rafeindaúrgangi.

Láttu ekki þitt eftir liggja og leyfði þínu raftæki að eiga framhaldslíf. Það er synd að þurfa að henda þegar hægt er að endurnýta. Nánari upplýsingar er að finna á www.graenframtid.com.