Ferilskrá og kynningarbréf

Góð ráð fyrir umsækjendur

Umsókn og ferilskrá eru fyrstu kynni okkar af þér og því mikilvægt að vanda vel til verka. Oft sækja margir um auglýst störf en góð ferilskrá mun auka möguleika þína á viðtali til muna. Við mælum með að þú fyllir umsóknareyðublöðin vandlega út og látir ferilskrá, prófskírteini og kynningarbréf fylgja með í viðhengi.

Nokkur góð ráð við gerð ferilskrár

  • Greindu vel frá eftirfarandi þáttum; starfsferli, menntun, námskeiðum, tölvukunnáttu, tungumálaþekkingu og umsagnaraðilum.
  • Gættu samræmis í uppsetningu út í gegnum alla ferilskrána.
  • Raðaðu upplýsingum í rétta tímaröð, með það nýjasta fremst.
  • Skrifaðu skiljanlegan og skýran texta – varastu að vera of fræðileg/ur eða formleg/ur.
  • Hafðu ferilskránna viðeigandi fyrir það starf sem þú ert að sækja um – leggðu mesta áherslu á að skýra frá þeirri reynslu sem skiptir máli og minni á það sem skiptir síður máli.
  • Við mælum með að hafa mynd í ferilskránni en það gerir hana persónulegri og oft hjálpar það þeim sem les yfir að tengja umsókn við andlit.
  • Gættu þess að láta umsagnaraðila vita, æskilegast er að hafa farsímanúmer viðkomandi svo auðvelt sé að ná í hann/hana.

Kynningarbréf

Þegar þú sækir um auglýst starf mælum við með að þú sendir kynningarbréf með ferilskránni þinni. Meginmarkmið með bréfinu er að gefa viðbótarupplýsingar við það sem fram kemur í ferilskránni. Eftir lestur kynningarbréfs á fólk að vera komið með betri mynd af þínum áherslum og hvað þú stendur fyrir sem starfsmaður. Þá skiptir líka máli að tilgreina ástæðu umsóknar og hvers vegna þú hefur áhuga á að starfa hjá fyrirtækinu. Æskileg lengd á kynningarbréfi er hálf til ein blaðsíða.