1.1
Skilmálar þessir gilda um ADSL- og Ljósnets-þjónustu Símans og taka til hvers og eins rétthafa, eða eftir atvikum notanda þjónustunnar (hér eftir nefndur notandi). Skilmálarnir gilda að því leyti sem ekki er kveðið öðruvísi á í samningum Símans og notenda.
1.2
Með tengingu um ADSL- eða Ljósnets-kerfið er notanda tryggð háhraðatenging við netið, enda liggi fyrir samningur um internetþjónustu við Símann eða annan aðila sem veitir slíka þjónustu.
1.3
Um gjald fyrir ADSL- og Ljósnets-þjónustu fer skv. gjaldskrám sem Síminn gefur út og birtir hér.
1.4
ADSL- og Ljósnets-þjónusta Símans er ætluð einstaklingum og heimilum. Þjónustan er ekki ætluð fyrirtækjum og notkun við rekstur þeirra. Síminn býður upp á sérsniðnar gagnalausnir fyrir rekstur fyrirtækja.
1.5
Virðisaukaskattur er innifalinn í þeim upphæðum sem nefndar eru í skilmálum þessum.
1.6
Skilmálar þessir gilda frá og með 10. júlí 2010
2.1
Síminn kappkostar að uppfylla væntingar viðskiptavina sinna til ADSL- og Ljósnets-þjónustunnar, tryggja stöðugleika hennar og gæði.
2.2
Síminn tryggir ekki að tengihraði notanda sé sá sami og áskrift hans segir til um. Hraði tengingar er ávallt háður gæðum línu þeirrar er liggur til notanda, fjarlægð notanda frá símstöð, álags á línu auk annarra þátta.
2.3
Sé önnur þjónusta en internetþjónusta flutt um ADSL- eða Ljósnets-tengingu viðskiptavinar kann það að hafa neikvæð áhrif á hraða internetþjónustunnar.
2.4
Innanhússlagnir eru á ábyrgð húseigenda. Síminn ábyrgist því einungis tengingu inn í símainntak hvers húss.
2.5
Síminn ber ekki ábyrgð á því þótt samband rofni um stund en mun þó leitast við að koma sambandi á að nýju án ástæðulauss dráttar. Ef notandi nær ekki sambandi í lengri tíma en í 7 virka daga og ástæðu þess er ekki að rekja til athafna af hans hálfu getur hann þó krafist niðurfellingar mánaðargjalds í réttu hlutfalli við þann tíma er sambandið var rofið.
2.6
Síminn ber ekki bótaábyrgð gagnvart notanda að öðru leyti en segir í grein 2.4. Síminn ber enga ábyrgð á nokkru tjóni sem rekja má til sambandsleysis, rofs á þjónustunni eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri ADSL- eða Ljósnetskerfisins, hvort sem slíkt má rekja til línubilana, bilana í sambandastöðvum eða annarra ástæðna.
2.7
Síminn ber ekki ábyrgð á tjóni sem þriðji aðili veldur.
2.8
Fari notkun viðskiptavinar yfir innifalið gagnamagn mánaðar, tvo mánuði í röð, áskilur Síminn sér rétt til þess að færa viðskiptavin í stærri áskriftarleið sem samræmist hans notkun. Sé farið yfir innifalið gagnamagn tvo mánuði í röð verður viðskiptavinur færður sjálfkrafa í stærri áskriftarleið, breytingin mun taka gildi um næstu mánaðarmót. Viðskiptavinur getur óskað eftir því að vera færður aftur í fyrri áskriftarleið, en áskriftarbreytingar í minni áskriftir taka ekki gildi fyrr en um næstu mánaðarmót á eftir.
3.1
Rétthafi þjónustunnar ber fulla ábyrgð á allri notkun henni tengdri og annarri þjónustu sem veitt er í tengslum við hana.
3.2
Óheimilt er að tengja annan notendabúnað við kerfi Símans en búnað sem uppfyllir kröfur 61. og 65. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 og ber CE-merkingu því til staðfestingar.
3.3
Notandi ber ábyrgð á búnaði sem er í eigu Símans, meðan hann hefur búnaðinn undir höndum. Notanda er skylt að fara vel og gætilega með slíkan búnað er hann hefur til afnota og er bótaskyldur vegna skemmda og viðgerða á búnaði sem ekki stafa af eðlilegu sliti, svo og ef búnaður glatast úr hans vörslu. Ábyrgð viðskiptavinar á búnaði lýkur er hann skilar honum á ný til Símans. Nú skilar notandi endabúnaði til Símans í ónothæfu ástandi eða í þannig ástandi að mati Símans að ekki er unnt að lána hann á ný til annarra notenda sökum illrar meðferðar og skal þá notandi greiða Símanum upphæð sem nemur verði búnaðarins á þeim tíma er hann var afhentur.
3.4
Óheimilt er að endurlána, selja eða veita þriðja aðila aðgang að búnaði í eigu Símans.
3.5
Notanda er óheimilt að taka búnað í eigu Símans í sundur eða stuðla að nokkrum breytingum á vél- eða hugbúnaði sem honum fylgir. Undanskildar eru hugbúnaðaruppfærslur sem sóttar eru til eða sendar af Símanum.
3.6
Að ósk Símans eða við uppsögn áskriftar er notanda skylt að skila inn endabúnaði sem hann hefur til afnota. Ef endabúnaði er ekki skilað verður áfram gjaldfært mánaðarlegt leigugjald samkvæmt gildandi verðskrá, þar til honum er skilað til Símans. Viðskiptavini er heimilt að segja upp samningi áður en hann rennur út, enda geri hann það skriflega með tveggja mánaða fyrirvara og greiði Símanum 8.000 krónur.
3.7
Þeir, sem af ásettu ráði eða vítaverðu gáleysi valda skemmdum á búnaði og fjarskiptanetum í eigu Símans, hafa fyrirgert rétti sínum til ADSL- og Ljósnetsþjónustunnar og kunna að sæta kæru vegna brota á 176. gr. og/eða 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, nema verknaðinum sé þannig farið, að þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Um málsmeðferð fer skv. lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
4.1
Óheimilt er að nota tengingu við ADSL- eða Ljósnetskerfið til að trufla eða skerða samskipti, tengingar annarra, valda álagi á fjarskiptakerfi Símans, eða að hafa á nokkurn hátt áhrif á notkun annarra viðskiptavina Símans.
4.2
Notanda er óheimilt að veita öðrum en heimilismönnum sínum aðgang að ADSL- og Ljósnetsþjónustunni, t.a.m. með því að samnýta aðgang að þjónustunni.
4.3
Síminn áskilur sér rétt til að tengja Internetaðgang notanda við ADSL- eða Ljósnetsnúmer hans, til auðkenningar og til að koma í veg fyrir misnotkun. Aðganginn að ADSL- og Ljósnetsþjónustunni má eingöngu nota við það símanúmer sem notandi ákveður þegar sótt er um þjónustuna í upphafi.
4.4
Ef í ljós kemur að notandi misnotar búnað eða þjónustu Símans, eða gerir öðrum aðilum það kleift með ásetningi eða gáleysi sínu, hefur Síminn fulla heimild til að synja honum um þjónustu um stundarsakir eða til frambúðar.
5.1
Síminn áskilur sér rétt til að senda notendum póst með tilkynningum er varða þjónustuna.
5.2
Síminn áskilur sér rétt til að tengjast endabúnaði notenda í þeim tilgangi að veita aðstoð og/eða til þess að stilla endabúnað notenda.5.3 Skráður rétthafi tengingar telst ábyrgur fyrir því að reglum þessum og landslögum sé fylgt. Ef skilmálar þessir, reglur eða landslög eru brotin getur það valdið tafarlausri og fyrirvaralausri lokun á þjónustunni.
5.3
Síminn áskilur sér rétt til að breyta skilmálum þessum. Breytingar verða kynntar notendum skriflega með eins mánaðar fyrirvara.
5.4
Síminn áskilur sér rétt til að ákvarða hvort tiltekin samskipti eða athafnir teljast brjóta í bága við þessar reglur.
5.5
Rísi ágreiningur um túlkun og skýringu á skilmálum þessum er heimilt að höfða mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
1.1
Skilmálar þessir gilda um netþjónustu yfir farsímanet (4G/3G/GPRS), hér eftir nefnd „netþjónustan“ sem veitt er af Símanum hf., hér eftir nefnt „Netfrelsi“.
1.2
Skilmálar þessir geta tekið breytingum. Tilkynnt verður um breytingar á skilmálum hér, eða eftir atvikum með sendingu tölvupósts eða SMS skilaboða.
2.1
Viðskiptavinur Netfrelsis Símans er sá aðili sem greiðir fyrir inneignir í Netfrelsi.
2.2
Viðskiptavinur ber ábyrgð á notkun símanúmersins og greiðslum vegna notkunar þess.
3.1
Síminn kappkostar að uppfylla væntingar notenda til Netfrelsis, tryggja stöðugleika þjónustunnar og gæði.
3.2
Síminn tryggir ekki að hraði nettengingar notanda sé ávallt sá sami og áskrift hans segir til um. Hraði tengingar hans er t.a.m. háður fjölda, staðsetningu og afkastagetu senda.
3.3
Síminn ber ekki ábyrgð á því þótt samband rofni um stund en mun þó leitast við að koma sambandi á að nýju án ástæðulauss dráttar.
3.4
Síminn ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til sambandsleysis, rofs á þjónustunni eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri Netfrelsis, af hvaða völdum sem er.
3.5
Síminn ber ekki ábyrgð á tjóni sem þriðji aðili veldur.
3.6
Um gjald fyrir aðgang að Netfrelsi fer eftir gjaldskrám Símans sem birtar eru hér.
3.7
Í þjónustuleiðum í Netfrelsi er allt gagnamagn mælt, bæði hvað varðar niðurhal og/eða upphal á innlendum og/eða erlendum gögnum.
4.1
Viðskiptavinur ber fulla ábyrgð á allri notkun sem tengist Netfrelsi og annarri þjónustu sem veitt er í tengslum við það.
4.2
Viðskiptavinur er ábyrgur fyrir greiðslum og allri notkun Netfrelsis sem fer fram með notkun símanúmers hans og/eða með þeim tækjabúnaði sem tengdur er farsímaneti Símans í nafni viðskiptavinar.
4.3
Viðskiptavinur skal gæta þess að lykilorð/aðgangsorð sem eru fengin honum og tengjast þjónustunni, t.a.m. PIN/PUK númer símkortsins og aðgangur að þjónustusíðum á netinu, komist ekki í hendur þriðja aðila.
4.4
Viðskiptavinur ber ábyrgð á greiðslum til Símans vegna notkunar sem á sér stað á Netfrelsi og/eða búnaði, hvort sem viðskiptavinur hefur heimilað slíka notkun eða ekki.
4.5
Ef viðskiptavinur glatar símkorti eða netlykli ber honum að tilkynna það án tafar til Símans. Hægt er að tilkynna um týnt eða glatað símkort hjá þjónustuveri Símans í síma 800-7000 allan sólarhringinn.
5.1
Gjald fyrir Netfrelsi, sem og aðra þjónustu Símans, fer samkvæmt verðskrá sem Síminn gefur út og er hér. Upplýsingar um verðskrá má einnig nálgast hjá þjónustuveri Símans í síma 800-7000.
5.2
Síminn áskilur sér rétt til að breyta þeim fjárhæðum sem tilgreindar eru í verðskrá. Breytingar á verðskrá eru auglýstar á vefsíðu Símans með 30 daga fyrirvara og/eða tilkynnt um slíkar breytingar með tölvupósti til viðskiptavinar.
5.3
Viðskiptavini ber að tryggja greiðslur vegna notkunar á Netfrelsi með debet- eða kreditkorti áður en hann hefur notkun þjónustunnar. Notkun viðskiptavinar er gjaldfærð sjálfkrafa af því debet- eða kreditkorti sem hann framvísar. Komi í ljós að viðskiptavinur er ekki rétthafi þeirra greiðslukorta sem hann hefur framvísað áskilur Síminn sér rétt til að synja viðskiptavini án fyrirvara um veitingu þjónustunnar. Hámarksupphæð áfyllinga á hvert debet- eða kreditkort í Netfrelsi Símans er 30 þúsund á sólarhring og/eða 60 þúsund á viku.
5.4
Einungis er hægt að kaupa netlykil með afborgunum ef greitt er fyrir með kreditkorti. Allir samningar um greiðsludreifingu eru framseldir í innheimtu til Borgunar hf.
5.5
Síminn áskilur sér rétt til að aftengja Netfrelsisnúmer að liðnum 15 mánuðum frá því að síðasta áfylling sem fór fram fyrir þjónustu og/eða símanúmer viðskiptavinar rennur út.
5.6
Gildistími inneigna í Netfrelsi er svohljóðandi:
Gildistími er til miðnættis 31 degi eftir að inneign er keypt. Að þeim tíma liðnum fyrnist hún og rennur út.
Við kaup á áfyllingu, þegar virk inneign er til staðar, er gildistími framlengdur um 31 dag frá síðasta áfyllingardegi.
5.7
Síminn leitast við að birta upplýsingar um sundurliðaða notkun á siminn.is. Síminn ábyrgist þó ekki að notkun verði birt jafnóðum og hún á sér stað. Markmið Símans er að birta notkunarupplýsingar innan tveggja klukkustunda frá því að notkun á sér stað. Þó er áskilinn réttur til þess að birta slíkar upplýsingar síðar ef þörf krefur
6.1
Ef viðskiptavinur stendur ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt samningi við Símann er Símanum heimilt að rjúfa nettengingu viðskiptavinar eða takmarka möguleika viðskiptavinar á annan hátt til að notfæra sér þjónustu Símans.
7.1
Síminn áskilur sér rétt til að senda viðskiptavini markpóst og fréttabréf með tölvupósti. Slíkar tilkynningar frá Símanum til viðskiptavinar, auk annarra, verða sendar með tölvupósti á það netfang sem viðskiptavinur hefur tilgreint. Viðskiptavinur getur þó afþakkað þá þjónustu, enda hafi hann samband við Símann vegna þess.
7.2
Að öðru leyti en kveðið er á um í skilmálum þessum gilda almennir fjarskiptaskilmálar Símans hf. um réttindi og skyldur viðskiptavinar og Símans.
Við stofnun aðgangs og notkun á smáforritinu „Síminn“( hér eftir „smáforritið“ eða „lausnin“)er unnið með persónugreinanlegar upplýsingar um notanda eins og nánar er kveðið á um í stefnu þessari.
Öll vinnsla á persónuupplýsingum, þ.m.t. öflun, skráning, vistun og meðferð þeirra á vegum Símans, lýtur lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og öðrum reglum sem settar hafa verið á grundvelli persónuverndarlaga („persónuverndarlög“).
Síminn gætir þess að þeir þættir vinnslunnar sem Síminn hefur með höndum, sem ábyrgðaraðili vinnslu, í tengslum við notkun lausnarinnar séu í samræmi við slíka löggjöf.
2.1 Innskráning
Við fyrstu innskráningu getur notandi valið hvort hann vilji nota Appið frítt til að nálgast sjónvarpsþjónustu Símans, eða hvort hann vilji skrá sig inn sem áskrifandi að sjónvarpsþjónustu Símans (s.k. Premium aðgangur). Við stofnun aðgangs að sjónvarpsþjónustu þarf notandi að skrá upplýsingar um farsímanúmer sitt og skrá inn auðkenningarkóða sem Síminn sendir viðkomandi með SMS, eða velja innskráningarauðkenningu í gegnum Facebook eða Google. Við innskráningu í gegnum Facebook eða Google safnar Síminn einungis upplýsingum um netfang notanda. Framangreindar upplýsingar eru einungis notaðar til að auðkenna notanda. Við stofnun Premium aðgangs þarf notandi einungis að skrá númer myndlykilsins sem tengdur er við sjónvarpsþjónustu Símans til að geta veitt notanda aðgang að myndefni í samræmi við sjónvarpsáskrift sína hjá Símanum.
2.2. Notkun
Við notkun á Sjónvarp Símans appinu safnast og vistast sjálfkrafa hjá Símanum upplýsingar um aðgerðir notanda í Appinu, n.t.t. upplýsingar um tíma- og dagsetningu áhorfs og myndefnið sem pantað var eða horft á í þeim tilgangi að veitt notanda þjónustuna (t.d. sýnt notanda hvaða efni hann hefur þegar horf á og hvenær) og halda utan um notkunarsögu notanda. Í þeim tilvikum sem notandi pantar efni gegn greiðslu safnar Síminn upplýsingunum jafnframt í þeim tilgangi að sannreyna pantanir notanda og til að geta gjaldfært fyrir slíka notkun.
2.3 Símtæki
Við notkun á Appinu safnast og vistast sjálfkrafa hjá Símanum eftirfarandi upplýsingar um símtæki notanda í þeim tilgangi að afla vitneskju um notkun á Appinu svo Síminn geti aðlagað Appið betur að þörfum notanda, ásamt því að hafa til staðar rekjanleika aðgerða sem notandi framkvæmir í Appinu:
- tegund og útgáfa stýrikerfis,
- IP-tölu notanda,
- einkvæmt auðkenni notanda (á bara við um Android-símtæki)
Síminn aflar, skráir og vistar upplýsingarnar í þeim tilgangi að geta veitt notanda aðgang að Appinu og þjónustunni sem felst í notkun þess, til að gera notanda kleift að nota Appið, til að geta haldið utan um notkunarsögu í Appinu, til að tryggja öryggi og veita notanda aðgang að myndefni í samræmi við sjónvarpsáskriftina sem skráð er á viðkomandi myndlykil sem gæti verið skráður í Appið. Þá eru upplýsingarnar notaðar til að tryggja gæði og virkni Appsins og ef þörf krefur vegna stoðþjónustu og bilanagreiningu. Þá mun Síminn nota upplýsingarnar til að geta sett sig í samband við notanda í viðskiptalegum tilgangi, þ.á m. í þeim tilgangi að tilkynna notanda um breytingar á Appinu, svo sem á virkni þess eða stillingum. Síminn mun ekki nota upplýsingarnar í öðrum tilgangi án þess að afla sérstaklega samþykkis notanda fyrir slíkri vinnslu, svo sem til að hafa samband við notanda í markaðslegum tilgangi.
Þær upplýsingar sem safnast við notkun lausnarinnar eru vistaðar hjá eða á vegum Símans á Íslandi. Síminn mun ekki nota upplýsingarnar í öðrum tilgangi eða afhenda þær þriðja aðila, að lögreglu frátalinni, nema á grundvelli lagaheimildar, stjórnvaldsfyrirmæla, dómsúrskurðar, skriflegs vinnslusamnings eða samþykkis notanda. Síminn áskilur sér þó rétt til að afhenda þriðja aðila ópersónugreinanlegar upplýsingar um notkun smáforritsins, sbr. gr. 9 neðar.
Síminn gætir þess að varðveita einungis persónugreinanleg gögn um notendur smáforritsins í samræmi við lög og málefnaleg ástæða er fyrir hendi.
Í þeim tilvikum sem notandi eyðir Sjónvarp Símans appinu í snjalltæki sínu eyðast sjálfkrafa þær upplýsingar sem voru notaðar til að klára innskráningarferli viðkomandi í Appinu. Þótt notandi hafi eytt Appinu úr snjalltæki sínu hefur það hins vegar ekki áhrif á gögn í kerfum Símans (t.d. áhorfssögu í sjónvarpi), sjónvarpsáskrift viðskiptavinar eða þjónustu Símans gagnvart viðskiptavini að öðru leyti.
Óski notandi þess að eyða tilteknum persónuupplýsingum sem tengjast Sjónvarp Símans appinu getur hann sent skriflega beiðni þar að lútandi til Símans.
Við uppsögn sjónvarpsþjónustu hjá Símanum eyðast sjálfkrafa upplýsingar um sjónvarpsnotkun þess myndlykils, þ.m.t. notkun í Sjónvarp Símans appinu sem kann að hafa verið tengt við viðkomandi myndlykil.
Við innskráningu í Appið ber notandi ábyrgð á réttleika og áreiðanleika þeirra upplýsinga sem hann sjálfur skráir, einkum símanúmer og/eða netfang ef valin er innskráning með Facebook eða Google.
Síminn gerir viðeigandi ráðstafanir til að tryggja áreiðanleika við notkun smáforritsins, t.d. varðandi réttleika og uppfærslu upplýsinga um áhorf myndefnis.
Séu persónuupplýsingar óáreiðanlegar mun Síminn, með hliðsjón af tilgangi vinnslunnar, gera viðeigandi ráðstafanir til þess að þær verði leiðréttar eða þeim eytt.
Síminn gætir öryggis Sjónvarp Símans appið með viðeigandi tæknilegum og skipulagslegum ráðstöfunum til að tryggja öryggi persónuupplýsinga, m.a. með það að markmiði að koma í veg fyrir mannleg mistök, þjófnað, svik eða aðra misnotkun á upplýsingum. Síminn takmarkar aðgang að upplýsingum við þá starfsmenn sem nauðsynlega þurfa slíkan aðgang til að ná fram tilgangi vinnslunnar.
Starfsmenn Símans eru upplýstir um skyldu þeirra til að viðhalda trúnaði og öryggi persónuupplýsinga.
Notandi hefur rétt til andmæla söfnun Símans á persónuupplýsingum telji hann að slík söfnun sé ekki í samræmi við tilgang hennar, að meðalhófs sé ekki gætt eða ef hann telur að sama árangri sé hægt að ná með mildari aðferðum. Þá getur notandi óskað eftir því að fá upplýsingar um þá vinnslu sem á sér stað hjá Símanum um hann, enda standi hagsmunir annarra því ekki í vegi. Sé beiðni samþykkt skal hún afgreidd eins fljótt og auðið er og eigi síðar en innan eins mánaðar frá móttöku slíkrar beiðni.
Notandi kann jafnframt að eiga rétt til að krefjast þess að röngum, villandi eða ófullkomnum persónuupplýsingum um sig verði leiðréttar og/eða þeim eytt.
Síminn áskilur sér rétt til að vinna með og greina ópersónugreinanlegar upplýsingar um notkun notanda á Sjónvarp Símans appinu, til áframhaldandi vöruþróunar og/eða til að bæta virkni smáforritsins.
Kvörtunum eða beiðnum frá notendum vegna vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við snjallforritið, t.d. í tengslum við gr. 8. í stefnu þessari, skal koma á framfæri við Símann með skriflegum hætti á siminn.is („Hafa samband“ eða „Netspjall“) eða með því að hringja í síma 800-7000.
Síminn skal bregðast við erindi notanda eins fljótt og auðið er með skriflegum hætti, nema notandi óski annars.
Ábendingum vegna öryggismála, t.d. vegna veikleika eða öryggisbrests í Appinu skal
tilkynna til Símans á netfangið security@siminn.is.
Persónuverndarstefna þessi er gefin út af Símanum hf. og gildir frá 27. febrúar 2018 og til þess tíma er ný Persónuverndarstefna tekur gildi.
útg. 1.0 – útg. 1. apríl 2020.
Skilmálar þessir varða vinnslu persónuupplýsinga Símans hf. í tengslum við fyrirtækjaþjónustu félagsins. Í tengslum við þá þjónustu Símans kann Síminn að vinna með persónuupplýsingar fyrir hönd viðskiptavinar. Í slíkum tilvikum kemur Síminn fram sem vinnsluaðili á vegum viðskiptavinar sem telst ábyrgðaraðili vinnslunnar í skilningi laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Útg. 3.0, 30. apríl 2021.
Skilmálar um talsímaþjónustu Símans um fastlínunet.
1.1
Skilmálar þessir gilda um talsímaþjónustu Símans um fastlínunet og taka til hvers og eins áskrifanda þjónustunnar og eftir atvikum annarra notenda hennar, hér eftir sameiginlega nefndir „notendur“ nema annað sé tekið fram.
1.2
Skilmálar þessir taka gildi þegar að áskrifandi í talsímaþjónustu stofnar til áskriftar eða hefur greitt af henni
2.1
Almennir skilmálar Símans um fjarskiptaþjónustu gilda þar sem ákvæðum þessara skilmála sleppir. Stangist ákvæði þeirra og ákvæði þessara skilmála á, skulu ákvæði þessara skilmála ganga framar.
2.2
Skilmálar þessir gilda frá og með 1. júní 2012.
2.3
Síminn áskilur sér rétt til að breyta skilmálum þessum vegna nýrra áskriftarleiða, án þess að tilkynna öllum áskrifendum um slíkt, enda hafi breytingarnar ekki áhrif á gildandi áskriftir.
3.1
Notandi þarf að hafa aðgang að heimtaug til að geta nýtt sér talsímaþjónustu Símans um fastlínunet.
3.2
Gæði þjónustunnar eru ávallt háð gæðum heimtaugar, fjarlægð notenda frá símstöð, búnaðar notenda og álags á línu.
3.3
Síminn getur tímabundið þurft að slökkva á þjónustu viðskiptavinar vegna uppfærslna, viðgerða og viðhalds, Síminn skal gæta þess að það raski þjónustu viðskiptavinar sem minnst.
3.4
Síminn ber ábyrgð á réttri virkni talsímaþjónustunnar. Síminn ber ekki ábyrgð á tæknilegum atriðum sem snúa eingöngu að búnaði notenda eða þriðja aðila.
4.1
Síminn gerir kröfu um að netbeinir notenda styðji sjálfvirkt SIP auðkenni, þar sem að auðkennisupplýsingar eru ekki aðgengilegar notendum, nema um Netsímaþjónustu sé að ræða.
4.2
Nettengd talsímaþjónusta getur innihaldið aðra sérþjónustumöguleika en almenn talsímaþjónustu.
4.3
Gæði þjónustunnar eru ávallt háð gæðum símalínu þeirrar er liggur til notanda, gæðum heimtaugar, fjarlægð notenda frá símstöð, búnaðar notenda og álags á línu og hraða nettengingar hans að öðru leyti.
4.4
Athygli notenda er vakin á því að eðli og virkni flökkunúmera er önnur en eðli og virkni almennrar talsímaþjónustu. Almennt er lokað fyrir símtöl í erlend símanúmer úr flökkunúmerum en notendur geta óskað eftir opnun á því.
5.1
Nema annað sé tekið fram eiga innifalin notkun og kjör einungis við um íslensk fjarskiptafélög.
5.2
Hringiflutningur, hvort sem er í fastlínu eða farsímakerfi, er alltaf gjaldfærður og aldrei hluti af innifalinni notkun eða kjörum.
5.3
Innifalin notkun og kjör eiga einungis við um hefðbundin símtöl en ekki, sem dæmi: símtöl í yfirgjaldsnúmer, fundasíma, internetnúmer, stutt númer o.s.frv.
5.4
Númerabirting er sett á við upphaf þjónustu og er rukkuð sérstaklega á símareikning. Hægt er að segja upp þjónustu vegna númerabirtinga hvenær sem er.
5.5
Síminn gjaldfærir upphafsgjöld af öllum símtölum, skv. gjaldskrá hverrar áskriftarleiðar, nema annað sé sérstaklega tekið fram.
5.6
Vinna sem getur stofnast til vegna uppsetningar á tengingu eða vegna endabúnaðar hjá notanda er ekki innifalin í áskriftarverði þjónustunnar nema slíkt sé sérstaklega tekið fram.
6.1
Línan/heimtaugin sem liggur frá símstöð til heimilis notenda er ekki hluti áskriftar vegna talsímaþjónustu hjá Símanum.
6.2
Síminn áskilur sér rétt til að breyta áskrift áskrifanda ef áskrift er tekin úr sölu eða ef notkun er óhófleg. Ekki skal framkvæma breytinguna fyrr en búið er að tilkynna hana til viðskiptavinar.
6.3
Heimasímaáskrift - Vinur:
6.4
50% afsláttur af símtölum í 1 útlandanúmer, hvort sem er heimasíma eða GSM.
6.5
heimasímavinur, óháð kerfi.
6.6
Tímamæling : 60/60
6.7
Önnur verð eru samkvæmt gjaldskrá
6.8
Heimaáskrift - Heimasímar
6.9
50% afsláttur af símtölum í 1 útlandanúmer, hvort sem er heimasíma eða GSM.
6.10
0 kr. mínútan í alla heimasíma, óháð kerfi. Að hámarki 1200 mín. Greitt er upphafsgjald af hverju símtali.
6.11
Tímamæling : 60/60
6.12
Önnur verð eru samkvæmt gjaldskrá
6.13
Heimasímaáskrift - 3 GSM númer
6.14
50% afsláttur af símtölum í 1 útlandanúmer, hvort sem er heimasíma eða GSM.
6.15
0 kr. mínútan í alla heimasíma, óháð kerfi. Að hámarki 1200 mín. Greitt er upphafsgjald af hverju símtali.
6.16
0 kr. mínútan í þau 3 GSM númer, óháð kerfi, sem oftast er hringt í. Greitt er upphafsgjald af hverju símtali.
6.17
Tímamæling : 60/60
6.18
Önnur verð eru samkvæmt gjaldskrá
6.19
Heimasímaáskrift - Allir
6.20
50% afsláttur af símtölum í 1 útlandanúmer, hvort sem er heimasíma eða GSM.
6.21
0 kr. mínútan í alla heimasíma, óháð kerfi. Að hámarki 1200 mín. Greitt er upphafsgjald af hverju símtali.
6.22
0 kr. mínútan í GSM númer, óháð kerfi. Að hámarki 600 mín. Greitt er upphafsgjald af hverju símtali.
6.23
Tímamæling : 60/60
6.24
Önnur verð eru samkvæmt gjaldskrá
6.25
Heimasímaáskrift – Netsíminn
Almennir viðskiptaskilmálar.
1.1
Sá, sem óskar að fá almenna fjarskiptaþjónustu, eða breytingar á þjónustu, sem hann hefur áður fengið (áskrifandi), skal senda um það skriflega eða rafræna umsókn eftir því sem við á. Þar til gerð eyðublöð eru á afgreiðslustöðum og á heimasíðu Símans hf. og skal umsækjandi tilgreina fullt nafn, kennitölu og heimilisfang. Sá sem nýtur þjónustu Símans skuldbindur sig til þess að hlíta þeim almennu skilmálum sem gilda um notkun þjónustu Símans á hverjum tíma.
1.2
Símasambandi er venjulega ekki komið á við nokkra húseign, nema húseigandi leyfi endurgjaldslaust að koma fyrir strengjum og öðrum símabúnaði í húsi og á lóð og ber þeim, er pantar sambandið, að sjá um, að slíkt leyfi húseiganda fáist.
1.3
Síminn ákveður, við hvaða stöð notendabúnaður skuli tengjast, númer hans og nánara fyrirkomulag og getur síðan breytt um númer, ef það telst nauðsynlegt.
1.4
Áskrifendum fjarskiptaþjónustu er skylt að fara vel og gætilega með allan búnað í eigu Símans er þeir hafa til afnota, og eru þeir bótaskyldir á öllu því, sem aflaga fer og ekki stafar af eðlilegu sliti, svo og öllu því, er glatast úr þeirra vörslu í þessum efnum. Óheimilt er að tengja annan notendabúnað við kerfi Símans en sem uppfyllir kröfur 61. og 65. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 og ber CE merkingu því til staðfestingar.
1.5
Verði rof eða truflun á fjarskiptaþjónustu ber áskrifanda að taka notendabúnaðinn úr sambandi til þess að forðast frekara tjón. Síminn ber ekki ábyrgð á því, þótt fjarskiptasamband rofni um stund, en mun þó leitast við að koma fjarskiptasambandi á að nýju án ástæðulauss dráttar. Verði óþarfur dráttur af hálfu Símans á viðgerð má krefjast endurgreiðslu á afnotagjaldinu í hlutfalli við þann tíma, er sambandið er rofið.
1.6
Síminn tekur ekki á sig neina ábyrgð á tjóni sem rekja má til sambandsleysis, rofa á fjarskiptaþjónustu eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri fjarskiptanetsins eða mistaka við afgreiðslu símskeyta, hvort sem slíkt má rekja til línubilana, bilana í sambandastöðvum eða annarra ástæðna.
1.7
Símanum er heimilt að synja þeim um fjarskiptaþjónustu og/eða notendabúnað eða útiloka frá fjarskiptum um stundarsakir eða að fullu, sem eftir athugun reynist hafa verulega slæm áhrif á afgreiðslu fjarskiptaneta, eða ef búnaður þeirra er misnotaður, svo sem með endurteknum gabbhringingum eða öðrum truflunum.
1.8
Sé samband einhvers áskrifanda oft upptekið þannig að fjarskiptanetið eða einstakir hlutar þess truflast að mati Símans, getur félagið krafist þess, að áskrifandi fallist á lagfæringar t.d. með því að fjölga línum.
1.9
Síminn miðar við að þjónustubeiðnum, þ.m.t. beiðnum um nýjar tengingar við fastlínukerfi, rétthafabreytingar, viðtökur númera og um aðra þjónustuþætti, svo sem beiðnum um viðgerðir, sé sinnt eigi síðar en 14 dögum eftir að beiðni kemur fram, nema að óviðráðanleg atvik banni.
1.10
Áskrifanda er kunnugt um að Síminn mun safna saman og vinna úr persónuupplýsingum í skilningi laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Síminn telst ábyrgðaraðili í skilningi laganna og er markmiðið með söfnun persónuupplýsinga einkum að tryggja að Síminn geti efnt skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavini og veitt honum þá þjónustu sem Símanum er að öðru leyti heimilt að veita, en einnig getur Síminn m.a. notað slíkar upplýsingar til:
Vakin er athygli viðskiptavinar á upplýsingarétti hans skv. 18. og 19. gr. laganna og rétti hans til að upplýsingar um hann verði leiðréttar eða þeim eytt við nánar tilgreind skilyrði. Á ákvæðið við hvort sem viðskiptavinur er einstaklingur og/eða fyrirtæki.
1.11
Þeir, sem af ásettu ráði eða vítaverðu gáleysi valda skemmdum á notendabúnaði og fjarskiptanetum í eigu félagsins hafa fyrirgert rétti sínum til þjónustunnar og kunna að sæta kæru vegna brota á 176. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, nema verknaðinum sé þannig farið, að þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Um málsmeðferð fer skv. lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
2.1
Um gjald fyrir fjarskiptaþjónustu, sem og aðra þjónustu Símans, fer skv. sérstökum gjaldskrám sem Síminn gefur út og eru aðgengilegar hér.
2.2
Áskrifandi ber fulla ábyrgð á greiðslum til Símans vegna notkunar á fjarskiptaþjónustu og búnaði, óháð því hvort notkunin hafi verið heimiluð eða ekki. Síminn leitast við að vara áskrifanda við ef notkun hans á fjarskiptaþjónustu breytist stórfellt á stuttum tíma án viðhlítandi skýringa og ef það kann að vekja grunsemdir. Glati áskrifandi fjarskiptabúnaði, eða honum er stolið, ber áskrifanda að tilkynna Símanum um það án tafar en áskrifandi er ábyrgur fyrir allri notkun búnaðarins, sem og þjónustu honum tengdum, þar til slík tilkynning hefur borist Símanum.
2.3
Athugasemdir skulu gerðar við útgefna reikninga án tafar og eigi síðar en á eindaga, ella telst reikningur samþykktur. Berist athugasemdir of seint eða eftir eindaga, en atvik réttlæta með ótvíræðum hætti tafir á því að athugasemdir bárust, skal Síminn eins og frekast er unnt taka afstöðu til þeirra athugasemda.
2.4
Reikninga ber að greiða á gjalddaga. Reikningar skulu sendir áskrifendum með góðum fyrirvara, eða birtir á vefsvæði þeirra áskrifenda sem þess hafa óskað. Útskriftargjald greiðist fyrir hvern heimsendan reikning. Einstaklingar skráðir í netreikning greiða færslugjald.
2.5
Reikningstímabil miðast við almanaksmánuð og er útgáfudagur reikninga í lok mánaðar. Gjalddagi reikninga er 20. næsta mánaðar eftir útgáfudag og eindagi er 2. næsta mánaðar eftir gjalddaga. Sé reikningur ekki greiddur á eindaga skal áskrifandi greiða dráttarvexti, eins og þeir eru ákveðnir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. Laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá og með gjalddaga til greiðsludags, auk þess sem gjald vegna innheimtuviðvörunar leggst á kröfu við útsendingu 2 dögum eftir eindaga.
2.6
Fyrir enduropnun á fjarskiptaþjónustu og samkomulag um uppgreiðslu vanskila greiðast sérstök gjöld.
3.1
Undir alþjónustu fellur:
i) almenn talsímaþjónusta
ii) aðstoð talsímavarðar (handvirk þjónusta)
iii) aðgangur að neyðarþjónustu og svörun neyðarsímtala
iv) aðgangur að upplýsingaþjónustu um símanúmer
v) almenningssímar
vi) almennur gagnaflutningur með allt að 128 kb/s bitahraða
3.2
Heimilt er að loka fyrir alþjónustu áskrifanda ef vanskil hafa staðið lengur en 30 daga frá eindaga útgefins reiknings fyrir alþjónustu, þó að undangenginni skriflegri aðvörun a.m.k. mánuði fyrir lokun. Lokun skal almennt ekki beitt, ef vanskil ná ekki kr. 5.000.
3.3
Fyrsta mánuð eftir lokun símasambands skal vera opið fyrir innhringingu fyrir áskrifanda. Jafnframt skal áskrifandi geta hringt í neyðarnúmerið 112.
3.4
Hafi Síminn fallist á niðurfellingu á réttmætri viðskiptakröfu sinni vegna alþjónustu á hendur áskrifanda, er heimilt að synja viðkomandi um frekari alþjónustu, nema að umrædd viðskiptaskuld sé gerð upp.
3.5
Ef gerð er tilraun til að komast hjá gjaldtöku á ólögmætan hátt eða reynt að koma gjaldskyldu yfir á óskyldan eða ógjaldfæran aðila er heimilt að loka á alþjónustu án viðvörunar.
3.6
Áskrifendum alþjónustu er heimilt að sækja fyrirfram um lokun fyrir aðrar þjónustutegundir, þ.m.t. þjónustu með yfirgjaldi.
4.1
Undir fjarskiptaþjónustu utan alþjónustu, og undir yfirgjaldsþjónustu, fellur:
i) þjónusta í 900 númerum
ii) GSM fjarskiptaþjónusta
iii) gagnaflutningur umfram 128 kb/s bitahraða
iv) þjónusta í númerum 1444, 1818
v) SMS áskrift
4.2
Heimilt er að loka á fjarskiptaþjónustu eftir eindaga reiknings, þar til skuld hefur verið að fullu greidd. Lokun skal almennt ekki beitt, ef vanskil ná ekki kr. 5.000.
4.3
Heimilt er að loka fyrir fjarskiptaþjónustu án fyrirvara ef svo stendur á sem hér er lýst:
i) Ef úttekt innan mánaðar vegna þjónustu sem fellur undir þennan kafla fer yfir 15.000 kr. hjá almennum áskrifendum.
ii) Ef Síminn hefur fallist á niðurfellingu á réttmætri viðskiptakröfu sinni á hendur viðkomandi.
iii) Ef gerð er tilraun til að komast hjá gjaldtöku á ólögmætan hátt er heimilt að loka án sérstakrar viðvörunar. Ef úttekt, strax eftir opnun sambands, telst vera óeðlileg eða getur bent til þess að komast eigi hjá greiðslu úttekta, er heimilt að loka á yfirgjaldsþjónustu án tafar.
iv) Ef reynt er að koma gjaldskyldu yfir á óskyldan eða ógjaldfæran aðila.
4.4
Heimilt er að synja aðila um fjarskiptaþjónustu ef slík synjun er reist á viðskiptalegum forsendum eða viðskiptin teljast óhagkvæm.
4.5
Heimilt er að synja aðila fyrirfram um viðskipti ef viðskiptavinur er á vanskilaskrám Símans, á almennum vanskilaskrám, s.s. ef gert hefur verið árangurslaust fjárnám hjá viðkomandi, hann misst forræði á búi sínu eða af sambærilegum ástæðum. Sama gildir um hvers konar félög og samtök ef svo háttar til um fyrirsvarsmann viðkomandi félags eða samtaka.
4.6
Síminn getur fyrirfram krafist sérstakra trygginga áður en stofnað er til fjarskipta.
4.7
Heimilt skal áskrifendum að sækja fyrirfram um lokun fyrir þjónustu sem fært er að loka á.
5.1
Segja má fjarskiptaþjónustu upp um mánaðamót með minnst eins mánaðar fyrirvara, nema þar sem önnur ákvæði gilda, og skal uppsögn vera skrifleg.
5.2
Áskrifendur á einstaklingsmarkaði eiga rétt á því að segja skilmálum fyrirvaralaust upp án greiðslu skaðabóta þegar þeir fá tilkynningu um fyrirhugaða breytingu á skilmálum. Áskrifendur á einstaklingsmarkaði hafa eins mánaðar uppsagnarfrest áður en breytingar taka gildi.
6.1
Óski áskrifandi eftir því að framselja þjónustusamning við Símann til þriðja aðila verður hann að óska eftir því skriflega við Símann. Framsal verður þó ekki heimilað af hálfu Símans nema áskrifandi hafi staðið skil á öllum ógreiddum gjöldum vegna þjónustunnar fram að þeim degi þegar framsalið er samþykkt.
7.1
Undir þennan kafla falla kaup aðila á vörum og annarri þjónustu en skv. öðrum köflum skilmála þessara.
7.2
Símanum er heimilt að synja aðila um reikningsviðskipti ef hann hefur ekki greitt útgefinn reikning vegna vörukaupa eða þjónustu þeim tengdum innan 15 daga frá gjalddaga reiknings.
7.3
Heimilt er að synja aðila fyrirfram um reikningsviðskipti ef viðskiptavinur er á vanskilaskrám Símans, á almennum vanskilaskrám, s.s. ef gert hefur verið árangurslaust fjárnám hjá viðkomandi, hann misst forræði á búi sínu eða af sambærilegum ástæðum. Sama gildir um hvers konar félög og samtök ef svo háttar til um fyrirsvarsmann viðkomandi félags eða samtaka.
7.4
Hafi Síminn fallist á niðurfellingu á réttmætri viðskiptakröfu sinni á hendur viðkomandi, eða félagi eða stofnun sem hann hefur verið í forsvari fyrir, er heimilt að synja viðkomandi um frekari reikningsviðskipti, nema að umrædd viðskiptaskuld sé gerð upp.
7.5
Heimilt er að synja aðila um reikningsviðskipti ef slík synjun er reist á viðskiptalegum forsendum eða viðskiptin teljast óhagkvæm.
7.6
Ef gerð er tilraun til að komast hjá gjaldtöku á ólögmætan hátt, er heimilt að loka á viðskipti, án sérstakrar viðvörunar. Ef úttekt er óeðlileg eða getur bent til þess að komast eigi hjá greiðslu úttekta, er heimilt að loka á viðskipti án tafar.
8.1
Þeim fjárhæðum sem tilgreindar eru í skilmálum þessum er Símanum heimilt að breyta í samræmi við þróun vísitölu.
8.2
Síminn áskilur sér rétt til þess að hafa samband við viðskiptavini sína í viðskiptalegum tilgangi, óháð skráningu þeirra í símaskrá. Viðskiptavinum er ávallt frjálst að afþakka slík samskipti af hálfu Símans.
8.3
Rísi ágreiningur um túlkun og skýringu á skilmálum þessum er heimilt að vísa þeim ágreiningi til úrskurðar Póst- og fjarskiptastofnunar. Skilmálar þessir gilda nema annað sé tekið fram í gildandi verðskrám og reglum fyrir hverja þjónustu sem Síminn hf. býður upp á.
Skilmálar um samsetta þjónustu sem inniheldur fleiri en eina tegund þjónustu og seld er undir heitinu Heimilispakki.
1.1
Almennir skilmálar fyrir fjarskipti og skilmálar hverrar þjónustu fyrir sig gilda nema ef þeir stangast á við skilmála Heimilispakka, gilda þá skilmálar Heimilispakka.
1.2
Óski viðskiptavinur eftir því að segja upp Heimilispakka en halda áskrift af stökum þjónustuþáttum áfram, þá er gjaldfært á grundvelli verðskrár vegna viðkomandi þjónustu og gilda skilmálar viðkomandi þjónustu eftir því sem við á hverju sinni.
1.3
Línugjald er ekki innifalið í áskrift.
1.4
Verð fyrir þjónustuna kemur fram í verðskrá eins og hún er á hverjum tíma.
2.1
Til þess að geta nýtt Endalausan heimasíma þarf viðskiptavinur að tengja símtæki sitt við netbeini.
2.2
Ef viðskiptavinur er ekki með rétta gerð af beini getur hann sótt slíkan í næstu verslun Símans eða til endursöluaðila.
2.3
Hafi viðskiptavinur ekki tengt símtækið sitt við netbeini innan 10 daga frá kaupum á Heimilispakka þá áskilur Síminn sér rétt til að flytja númerið í netbeininn, og þegar við á, að segja upp fyrri fastlínu talsímaþjónustunni.
2.4
Innifalið í áskriftinni eru öll símtöl og mínútur í íslenska heimasíma og íslenska farsíma. Notkun sem er ekki innifalin er meðal annars, en ekki einskorðað við, símtöl til útlanda og símtöl í yfirgjaldsþjónustur.
2.5
Við flutning af almenna talsímakerfinu og yfir í Endalausan heimasíma geta sérþjónustur heimasíma dottið út og mögulega ekki verið í boði að fá aftur. Það er á ábyrgð viðskiptavinar að kynna sér virkni þjónustu og að þjónustan virki með fullnægjandi hætti eftir flutning. Síminn bætir ekki upp mögulegan skaða sem þetta kann að valda.
3.1
Innifalið gagnamagn er 500 GB.
3.2
Fari viðskiptavinur umfram innifalið gagnamagn gilda sömu skilmálar og fyrir aðrar internetáskriftir.
4.1
Innifalið í Hemilispakka er áskrift að Sjónvarpi Símans, Sjónvarp Símans Premium, erlendar rásir og notkun á Sjónvarps Símans appi.
5.1
Farsímaþjónusta er innifalin í Heimilispakka með þeim hætti að áskrifandi að Heimilispakka getur fengið tífalda stækkun á gagnamagni tiltekinnar áskriftarleiðar. Gildir stækkunin eingöngu um eftirtaldar áskriftarleiðir:
Síminn getur fjölgað áskriftarleiðum sem falla undir þessa grein 5.1. eins og félagið telur nauðsynlegt hverju sinni og er það þá tekið fram í verðskrá viðkomandi áskriftarleiðar.
5.2
Áskrifandi, þ.e. einstaklingur en ekki lögaðili, að Heimilispakka getur tengt farsímaþjónustu fjölskyldumeðlima við Heimilispakka og njóta viðkomandi áskrifendur einnig tífaldrar stækkunar gagnamagns, að því gefnu að fjölskyldumeðlimur sé í framangreindum áskriftarleiðum sem tilgreindar eru í grein 5.1.
Áskrifandi getur tengt að hámarki sex farsímanúmer við Heimilispakka. Með fjölskyldumeðlim er átt við einstakling sem býr á sama heimili og áskrifandi Heimilispakka sem og börn áskrifenda Heimilispakka, þótt þau deili ekki sama heimili. Hver fjölskyldumeðlimur getur aftengt sitt númer sem og áskrifandi Heimilispakka getur aftengt númer fjölskyldumeðlima og gildir stækkunin út þann mánuð þegar aftenging er tilkynnt Símanum.
Með tengingunni fá áskrifendur farsímanúmera upplýsingar um nafn þess áskrifanda að Heimilispakka sem tengdi farsímanúmer hans við Heimilispakkann.
5.3
Ónýtt innifalið gagnamagn færist ekki á milli mánaða, nema annað sé skýrlega tekið fram í skilmálum eða verðskrá viðkomandi farsímaáskriftarleiðar.
5.4
Síminn áskilur sér rétt til þess að takmarka, draga úr eða loka farsímaþjónustu áskrifenda og/eða fjölskyldumeðlima, ef notkun á farsímaþjónustunni hefur neikvæð áhrif á upplifun og notkun annarra notenda á farsímakerfi Símans, eða rekstur og virkni kerfisins, hvort sem það er í hluta eða heild. Skal Síminn leitast við að tilkynna áskrifanda um slíkar takmarkanir fyrirfram nema takmörkun sé nauðsynleg af brýnum ástæðum og skal þá tilkynna notenda um lokun eins fljótt og kostur er.
5.5
Að öðru leyti gilda skilmálar og verðskrá viðkomandi áskriftarleiðar, þar með talið en ekki einskorðað við takmarkanir vegna sanngjarnar notkunar í útlöndum, gjaldskrá vegna umframgagnamagns og sviksamleg notkun þjónustunnar.
6.1
Ef áskrift Spotify er virkjuð þá gilda áskriftarskilmálar Spotify.
6.2
Niðurhal og streymi efnis telur af inniföldu gagnamagni internettengingar.
Skilmálar þessir gilda um Sjónvarpsþjónustu Símans (hér eftir „þjónustan“ eða „sjónvarpsþjónustan“). Sjónvarpsþjónustan felur í sér grunnáskrift að þjónustu, búnaði og viðmóti Símans sem áskrifandi greiðir ákveðið áskriftargjald fyrir.
Aðgangur að þjónustunni gerir áskrifanda einnig kleift að nálgast frekari sjónvarpsáskriftir eða myndefni sem Síminn eða þriðji aðili kann að bjóða upp á samkvæmt gildandi verðskrá á hverjum tíma. Einnig gerir þjónustan mögulegt að nota Sjónvarp Símans appið en um þá þjónustu gilda sérstakir skilmálar og persónuverndarstefna. Þjónustan er í boði í gegnum bæði sjónvarpsdreifikerfi Símans (IPTV) sem og óháð neti („OTT“).
2.1. Skilyrði þess að geta keypt þjónustuna er að áskrifandi hafi náð 18 ára aldri og sé með lögheimili á Íslandi. Áskrifandi ber ábyrgð á því að stilla aldurstakmörk í viðmóti, áskrifanda ber einnig að setja lykilnúmer (PIN) sem skilyrði fyrir kaupum á áskrift eða leigu myndefnis og til þess að takmarka aðgengi barna að myndefni sem er bannað börnum.
2.2. Skilyrði þess að áskrifandi geti notað þjónustuna er að hann hafi virka internettengingu, hvort sem hún er um farsímakerfi eða fastlínukerfi og hann hafi viðeigandi búnað sem Síminn leggur til í því skyni að horfa á þjónustuna sem er tengd við sjónvarp eða annað sambærilegt viðtæki. Búnaðinn er hægt að nota í gegnum þráð tengdan við beini, þráðlaust tengdan við beini eða tengdan beint við farsímakerfi. Sé þjónustan keypt í gegnum sjónvarpsdreifikerfi Símans verður áskrifandi að hafa virka internettengingu eða virkan gagnaflutning í gegnum fastlínukerfi sem Síminn hefur aðgang að. Internettenging eða gagnaflutningur þarf ekki að vera keyptur af Símanum. Almennt er mögulegt að nota myndlykil óháð neti og einnig um sjónvarpskerfi Símans, en ákveðinn eldri búnaður styður ekki lausnina óháð neti og þarf áskrifandi mögulega að skipta út búnaði.
2.3. Þjónustan er einungis ætluð til heimilis- og einkanota áskrifanda og þeirra aðila sem tilheyra heimili áskrifanda. Óheimilt er að nota þjónustuna í viðskiptalegum tilgangi.
2.4. Þjónustan er fyrst og fremst aðgengileg til notkunar á Íslandi en áskrifanda er heimilt að nota þjónustuna tímabundið utan Íslands en eingöngu innan Evrópska Efnahagssvæðisins (EES) vegna ferðalaga eða orlofsdvalar innan EES. Þó getur ákveðin þjónusta Símans eða þriðja aðila ekki verið aðgengileg utan Íslands vegna réttindamála. Síminn áskilur sér rétt til þess að loka fyrir þjónustuna ef hún er notuð með varanlegum hætti utan Íslands, með varanlegum hætti er átt við að þjónustan er notuð utan Íslands lengur en tvo mánuði á hverju 12 mánaða tímabili.
2.5. Áskrifanda stendur til boða að kaupa viðbótaráskriftir af Símanum (sem og þriðja aðila) eða leigja eða kaupa stakt myndefni í gegnum viðmót þjónustunnar. Það efni sem Síminn kann að bjóða upp á í gegnum viðbótaráskriftir getur verið uppfært eða breytt á hverjum tíma. Síminn áskilur sér rétt til þess að breyta því myndefni sem er aðgengilegt hverju sinni án tilkynningar, þ.m.t. bæta við nýju myndefni, fjarlægja myndefni eða breyta viðmóti eftir því sem Síminn telur rétt og eðlilegt á hverjum tíma, sem og vegna samninga við rétthafa. Áskrifanda er skylt að greiða fyrir allar áskriftir og leigt eða keypt efni í gegnum viðmót þjónustunnar, nema hann hafi sannanlega tilkynnt Símanum að búnaði hafi verið stolið eða hann glataður og viðkomandi efni var keypt eða leigt eftir þann tíma, og Síminn hefur vanrækt að loka fyrir þjónustuna eftir tilkynningu áskrifenda.
2.6. Gæði og virkni þjónustunnar getur verið mismunandi eftir því viðtæki sem notandi nýtir til áhorfs, og hafa margir mismunandi þættir áhrif á þjónustuna, s.s. staðsetning, aðgengileg bandvídd og/eða hraði internettengingar sem áskrifandi notar til þess að nálgast þjónustuna. Sjónvarpsþjónustan er háð viðkomandi internettengingu og hvort viðtæki styður viðeigandi gæðastaðal. Síminn leitast við að afhenda þjónustuna í samræmi við gæði internettengingar hverju sinni. Í gegnum sjónvarpsdreifikerfi Símans er sjónvarpsþjónustunni veittur forgangur um internetið þegar þjónustan er í notkun. Ef bandbreidd er mjög takmörkuð getur slíkur forgangur haft áhrif á aðra samtímanotkun á internetinu.
2.7. Hvort sem þjónustan er óháð neti eða um sjónvarpsdreifikerfi, er áskrifandi sjálfur ábyrgur fyrir því að tryggja og greiða fyrir virka internettengingu eða gagnaflutningstengingu. Sérstök athygli er vakin á því að notkun á þjónustunni óháð neti felur í sé notkun á gagnamagni hjá þeim fjarskiptafyrirtækjum sem innheimta gjöld fyrir niðurhal og er áskrifanda beint á að skoða verðskrár viðkomandi fyrirtækja vegna notkunar á gagnamagni um internettengingu.
2.8. Sé lokað fyrir internettengingu eða gagnaflutning áskrifanda, sem leiðir til þess að honum er ómögulegt að nota þjónustu skv. skilmálum þessum, hvort sem hann hefur sagt henni upp sjálfur eða tengingu lokað vegna vanskila, eða internettengingin virkar ekki með fullnægjandi hætti, hefur það engin áhrif á greiðsluskyldu áskrifenda vegna þjónustunnar á grundvelli skilmála þessara. Gæði fjarskiptatengingar, uppitíma og aðra virkni er á ábyrgð viðkomandi fjarskiptafyrirtækis og ber Síminn, í tengslum við veitingu þjónustunnar skv. þessum skilmálum, enga ábyrgð á þeirri fjarskiptaþjónustu eða rekstri fjarskiptaneta.
3.1. Síminn afhendir viðskiptavini búnað sem samanstendur af myndlykli, fjarstýringu og tengisnúrum. Búnaðurinn er eign Símans og ber að skila aftur til Símans þegar áskrifandi segir upp þjónustunni.
3.2. Áskrifendum stendur til boða að fá aukamyndlykla með þjónustunni. Heimilt er að leigja að hámarki fjóra aukamyndlykla og fyrir hvern lykil greiðist samkvæmt verðskrá hverju sinni. Aukamyndlykla má aðeins nota á heimili áskrifanda eða á þeim stöðum sem áskrifandi eða fjölskyldumeðlimir hans kunna að dvelja á til styttri eða lengri tíma. Verði Síminn þess var að áskrifandi hafi útdeilt aukamyndlyklum til annara aðila er Símanum heimilt að segja þjónustu áskrifanda upp.
3.3. Síminn getur án fyrirvara krafið áskrifanda um að fá búnaðinn til skoðunar, enda fái áskrifandi annan samsvarandi búnað á meðan á skoðun stendur.
3.4. Áskrifandi ber ábyrgð á öllu tjóni á þeim búnaði sem Síminn lætur honum í té. Áskrifandi skal greiða allan kostnað vegna viðgerða á búnaði sem stafar af rangri notkun eða slæmri meðferð á honum, í samræmi við verðskrá Símans. Eyðileggist eða glatist búnaður í vörslu viðskiptavinar ber honum að greiða Símanum kostnaðarverð nýs búnaðar eins og það er á hverjum tíma, skv. verðskrá. Greiðsla vegna ónýts eða glataðs búnaðar hefur ekki áhrif á eignarrétt Símans á búnaðinum og felur undir engum kringumstæðum í sér framsal á eignarétti búnaðar.
3.5. Áskrifanda er óheimilt að taka búnaðinn í sundur eða valda nokkrum breytingum á hugbúnaði sem honum tilheyrir.
3.6. Búnaðurinn er einungis ætlaður áskrifanda. Honum er óheimilt að leyfa öðrum afnot af honum með því að leigja hann út, selja eða láta af hendi með öðrum hætti.
3.7. Á meðan búnaðurinn er í vörslu áskrifanda ber honum að hlíta skilmálum þriðja aðila sem hann kaupir þjónustu af í gegnum viðmót Símans, skilmálum þessum og standa í skilum með greiðslur samkvæmt verðskrá Símans hverju sinni.
3.8. Við uppsögn á þjónustunni ber áskrifanda að skila öllum búnaði. Uppsögn tekur ekki gildi fyrr en myndlykil hefur verið skilað inn.
4.1. Uppsögn þjónustu skal berast fyrir mánaðarmót og tekur gildi frá og með 1. degi þess mánaðar sem kemur eftir að uppsögn berst Símanum. Uppsögn á þjónustunni felur í sér samhliða uppsögn á öllum sjónvarpsáskriftum sem áskrifandi er með hjá Símanum í gegnum viðmótið.
4.2. Síminn ber enga ábyrgð á innheimtu eða uppsögn þjónustu þriðja aðila sem áskrifandi kaupir í gegnum þjónustuna, nema í þeim tilvikum sem Síminn annast innheimtu. Uppsögn á þjónustu skv. skilmálum þessum hefur ekki áhrif á sjónvarpsáskriftir sem áskrifandi kaupir af þriðja aðila. Áskrifandi ber ábyrgð á því að senda uppsögn á þjónustu þriðja aðila beint til viðkomandi fjölmiðlaveitu, ef hann óskar eftir því að segja upp þjónustu viðkomandi aðila.
5.1. Athugasemdir skulu gerðar við útgefna reikninga án tafar og eigi síðar en á eindaga, ella telst reikningur samþykktur. Berist athugasemdir of seint eða eftir eindaga, en atvik réttlæta með ótvíræðum hætti tafir á því að athugasemdir bárust, skal Síminn eins og frekast er unnt taka afstöðu til þeirra athugasemda.
5.2. Reikninga ber að greiða á gjalddaga. Reikningar skulu sendir áskrifendum með góðum fyrirvara, eða birtir á vefsvæði þeirra áskrifenda sem þess hafa óskað. Útskriftargjald greiðist fyrir hvern heimsendan reikning. Einstaklingar skráðir í netreikning greiða færslugjald.
5.3. Reikningstímabil miðast við almanaksmánuð og er útgáfudagur reikninga í lok mánaðar. Gjalddagi reikninga er 20. næsta mánaðar eftir útgáfudag og eindagi er 2. næsta mánaðar eftir gjalddaga. Sé reikningur ekki greiddur á eindaga skal áskrifandi greiða dráttarvexti, eins og þeir eru ákveðnir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. Laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá og með gjalddaga til greiðsludags, auk þess sem gjald vegna innheimtuviðvörunar leggst á kröfu við útsendingu 2 dögum eftir eindaga.
5.4. Síminn sendir alla jafna ekki reikninga eða greiðsluseðla á pappír til áskrifenda. Óski áskrifandi eftir að fá greiðsluseðil á pappír getur hann beðið sérstaklega um það. Fyrir hvern greiðsluseðil á pappír sem sendur er áskrifanda greiðist seðilgjald samkvæmt gjaldskrá. Þessi gjöld kunna að taka breytingum í takt við almenna verðlagsþróun.
5.5. Fyrir enduropnun á þjónustu og samkomulag um uppgreiðslu vanskila greiðast sérstök gjöld.
6.1. Óski áskrifandi eftir því að framselja þjónustusamning við Símann til þriðja aðila verður hann að óska eftir því skriflega við Símann. Framsal verður þó ekki heimilað af hálfu Símans nema áskrifandi hafi staðið skil á öllum ógreiddum gjöldum vegna þjónustunnar fram að þeim degi þegar framsalið er samþykkt.
6.2. Heimilt er að synja aðila fyrirfram um reikningsviðskipti ef viðskiptavinur er á vanskilaskrám Símans, á almennum vanskilaskrám, s.s. ef gert hefur verið árangurslaust fjárnám hjá viðkomandi, hann misst forræði á búi sínu eða af sambærilegum ástæðum. Sama gildir um hvers konar félög og samtök ef svo háttar til um fyrirsvarsmann viðkomandi félags eða samtaka.
6.3. Skilmálar þessir gilda nema annað sé tekið fram í gildandi verðskrám og reglum fyrir hverja þjónustu sem Síminn hf. býður upp á. Sérskilmálar vegna þeirra sjónvarpsáskriftar eða myndefnis
6.4. Brjóti viðskiptavinur gegn skilmálum þessum er Símanum heimilt að stöðva þjónustuna til hans án fyrirvara og krefjast tafarlausra skila á búnaði og, eftir atvikum, greiðslu skaðabóta.
6.5. Um þjónustuna og skilmála þessa gilda íslensk lög og skal ágreiningi vísað til héraðsdóms Reykjavíkur. Neytendur geta einnig leitað til Neytendastofu eða kærunefndar lausafjár og þjónustukaupa rísi ágreiningur um viðskiptahætti og markaðssetningu Símans í tengslum við veitingu þjónustunnar.
6.6. Áskriftarskilmálar þessir gilda frá og með 1. apríl 2020. Með samþykki notkun á þjónustunni samþykkir áskrifandi skilmála þessa og þær breytingar sem gerðar verða á skilmálunum hverju sinni.
6.7. Síminn áskilur sér rétt til þess að breyta skilmálum eða verðlagningu vegna þjónustunnar í samræmi við gildandi fjarskiptalög. Munu slíkar breytingar tilkynntar áskrifanda með nægilegum fyrirvara og sannanlegum hætti.