Símaappið persónuverndarstefna

„Síminn“ er smáforrit (e. App)Símans hf. sem aðgengilegt er á Google Play og í Apple App Store.

Með smáforritinu geta viðskiptavinir Símans nálgast á einum stað yfirlit yfir notkun sína á tilgreindum þjónustum hjá Símanum, gjöld vegna þjónustu og jafnframt gert breytingar á tilgreindum þjónustum Símans sem notandi er skráður rétthafi að og/eða er greiðandi fyrir.

Frekari upplýsingar um notkun og virkni smáforritsins eru aðgengilegar hér.

1.0

Vinnsla Símans

Við stofnun aðgangs og notkun á smáforritinu „Síminn“ ( hér eftir „smáforritið“ eða „lausnin“) er unnið með persónugreinanlegar upplýsingar um notanda eins og nánar er kveðið á um í stefnu þessari.

Öll vinnsla á persónuupplýsingum, þ.m.t. öflun, skráning, vistun og meðferð þeirra á vegum Símans, lýtur lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og öðrum reglum sem settar hafa verið á grundvelli persónuverndarlaga („persónuverndarlög“).

Síminn gætir þess að þeir þættir vinnslunnar sem Síminn hefur með höndum, sem ábyrgðaraðili vinnslu, í tengslum við notkun lausnarinnar séu í samræmi við slíka löggjöf.

2.0

Persónuupplýsingar sem safnað er

Við stofnun aðgangs í smáforritinu þarf notandi ýmist að auðkenna sig með notkun rafrænna skilríkja eða með því að skrá upplýsingar um símanúmer sitt og skrái inn auðkenningarkóða sem Síminn sendir viðkomandi með smáskilaboðum. Í tengslum við auðkenninguna vinnur Síminn þannig ýmist með upplýsingar um kennitölu notanda eða símanúmer notanda. Notandi getur svo valið að nota fjögurra (4) stafa leyninúmer („pin“) til að auðkenna sig í framhaldinu, eins og nánar er mælt fyrir um í skilmálum smáforritsins og í þeim tilvikum vinnur Síminn með slík leyninúmer. Velji notandi aðra auðkenningu, s.s. notkun lífkennaupplýsinga (s.s. fingrafar eða andlitsskanna), skal tekið fram að Síminn fær slíkar upplýsingar ekki afhentar og vinnur því ekki úr þeim.

Aðgangur notanda er tengdur við nafn hans, heimilisfang, farsímanúmer og netfang.

Í gegnum smáforritið geta notendur nálgast yfirlit yfir þær þjónustur sem viðkomandi er með hjá Símanum. Þá geta notendur nálgast upplýsingar um kostnað fyrir þær þjónustur sem og upplýsingar um sundurliðaða notkun á þjónustunum. Val notanda á auðkenningarleið hefur þó áhrif á það hverjar af þessum upplýsingum eru aðgengilegar notanda í smáforritinu, eins og nánar er kveðið áum í grein 3 í skilmálum smáforritsins. Þá hafa rétthafar og greiðendur ólíkan aðgang að upplýsingum í gegnum smáforritið og vísast til áðurnefnds ákvæðis í skilmálum smáforritsins varðandi nánari upplýsingar.

Framkvæmi notandi breytingar á þjónustum sínum í gegnum smáforritið er jafnframt unnið með upplýsingar um slíkar breytingar, þ.e. upplýsingar um hvernig þjónustunni er breytt og tímasetningu.

Í þeim tilvikum sem notandi kýs að kaupa frelsis áfyllingu eða greiðir fjarskiptareikning í gegnum smáforritið þarf viðkomandi að skrá greiðslukortanúmer sitt í hvert sinn sem slík kaup eru gerð, nema notandi hafi skráð og vistað greiðslukortanúmer á Þjónustuvef Símans sem „skráð kort“. Í þeim tilvikum er fullnægjandi fyrir notanda að auðkenna sig með leyniorðinu eða annarri auðkenningarleið (s.s. fingrafari eða andlitsskanna) sem notandi hefur valið.  Við kaup á frelsisáfyllingu eða greiðslu fjarskiptareiknings eru vistaðar upplýsingar hjá Símanum um dagsetningu,tímasetningu og upphæð greiðslu. Upplýsingar um greiðslukortanúmerið sjálft vistast hins vegar ekki hjá Símanum þar sem greiðslukortanúmerið breytist strax í sýndarkortanúmer í greiðslugátt hjá færsluhirði og er því aldrei vistað í smáforritinu eða hjá Símanum. Þegar notandi greiðir fjarskiptareikning í gegnum smáforritið er greiðslukvittun send á netfang notanda.

Við notkun á smáforritinu safnast auk ofangreinds og vistast sjálfkrafa hjá Símanum eftirfarandi upplýsingar um snjalltæki notanda í þeim tilgangi að afla vitneskju um notkun á smáforritinu svo Síminn geti aðlagað smáforritið betur að þörfum notanda, ásamt því að hafa til staðar rekjanleika aðgerða sem notandi framkvæmir í smáforritinu:

  • tegund og útgáfa stýrikerfis.
  • IP-tölu notanda.
  • einkvæmt auðkenni notanda og símanúmer. 

3.0

Tilgangur og lögmæti vinnslu

Síminn aflar, skráir og vistar upplýsingarnar í þeim tilgangi að geta veitt notanda aðgang að smáforritinu, til að gera notanda kleift að nota smáforritið, til að geta haldið utan um notkunarsögu í smáforritinu, til að tryggja öryggi, til að senda greiðslukvittun til notanda og veita réttum notanda upplýsingar um rétta notkun. Sú vinnsla byggir þannig á samningi milli Símans og notanda.

Þá eru nánar tilgreindar upplýsingarnar notaðar til að tryggja gæði og virkni smáforritsins og ef þörf krefur vegna stoðþjónustu og bilanagreiningu. Slík vinnsla byggir á lögmætum hagsmunum Símans að geta tryggt gæði og rétta virkni.

Þá mun Síminn nota samskiptaupplýsingar notanda til að geta sett sig í samband við notanda í viðskiptalegum tilgangi, þ.á m. í þeim tilgangi að tilkynna notanda um breytingar á smáforritinu, svo sem á virkni þess eða stillingum. Slík vinnsla byggir jafnframt á samningi við notanda svo Síminn geti tryggt notanda fullnægjandi þjónustu.

Síminn mun ekki nota þær upplýsingar sem safnast með notkun smáforritsins í öðrum tilgangi án þess að afla sérstaklega samþykkis notanda fyrir slíkri vinnslu, svo sem til að hafa samband við notanda í markaðslegum tilgangi.

4.0

Viðtakendur upplýsinga

Þær upplýsingar sem safnast við notkun lausnarinnar eru vistaðar hjá eða á vegum Símans á Íslandi.

Síminn mun ekki nota upplýsingarnar í öðrum tilgangi eða afhenda þær þriðja aðila, að lögreglu frátalinni, nema á grundvelli lagaheimildar, stjórnvaldsfyrirmæla, dómsúrskurðar, skriflegs vinnslusamnings eða samþykkis notanda. Síminn áskilur sér þó rétt til að afhenda þriðja aðila ópersónugreinanlegar upplýsingar um notkun smáforritsins, sbr. gr. 8 neðar.

5.0

Varðveislutími

Allar upplýsingar um notkun og kostnað við þjónustu Símans sem birtar eru í smáforritinu eru ekki vistaðar í smáforritinu sjálfu, heldur birtast þær þar úr öðrum kerfum Símans. Upplýsingarnar sem notandi sér í smáforritinu ná sex mánuði aftur í tímann.

Um varðveislutíma hinna undirliggjandi upplýsinga, í kerfum Símans, vísast í almenna persónuverndarstefnu Símans sem aðgengileg er á heimasíðu félagsins.

Í þeim tilvikum sem notandi eyðir Símaappinu í snjalltæki sínu eyðast sjálfkrafa þær upplýsingar sem voru notaðar til að klára innskráningarferli viðkomandi í smáforritinu. Þótt notandi hafi eytt smáforritinu úr snjalltæki sínu hefur það hins vegar ekki áhrif á varðveislu persónuupplýsinga í kerfum Símans.

Óski notandi þess að eyða tilteknum persónuupplýsingum sem tengjast smáforritinu og/eða aðgangi sínum að smáforritinu getur hann sent skriflega beiðni þar að lútandi til Símans og vísast í þeim efnum í almennu persónuverndarstefnu Símans.

6.0

Nákvæmni og áreiðanleiki upplýsinga

Síminn gerir viðeigandi ráðstafanir til að tryggja áreiðanleika og nákvæmni þeirra gagna sem birtast í smáforritinu. Gögn um farsímanotkun eru uppfærð á nokkurra klukkustunda fresti.

Séu persónuupplýsingar óáreiðanlegar mun Síminn, með hliðsjón af tilgangi vinnslunnar, gera viðeigandi ráðstafanir til þess að þær verði leiðréttar eða þeim eytt.

Aðrar upplýsingar sem notandi hefur sjálfur skráð í smáforritið, svo sem upplýsingar um netfang notanda, eru ekki á ábyrgð Símans og ber notanda að gæta þess að slíkar upplýsingar séu nákvæmar og áreiðanlegar.

7.0

Öryggi upplýsinga

Síminn gætir að öryggi smáforritsins með viðeigandi tæknilegum og skipulagslegum ráðstöfunum til að tryggja öryggi persónuupplýsinga, m.a. með það að markmiði að koma í veg fyrir mannleg mistök, þjófnað, svik eða aðra misnotkun á upplýsingum. Síminn mun takmarka aðgang að upplýsingum við þá starfsmenn sem nauðsynlega þurfa slíkan aðgang til að ná fram tilgangi vinnslunnar.

Öll samskipti í smáforritinu eru dulkóðuð, þ. á m. greiðslukortaupplýsingar sem notandi kann að skrá, en greiðslukortaupplýsingar eru aldrei vistaðar í smáforritinu.

Starfsmenn Símans eru upplýstir um skyldu þeirra til að viðhalda trúnaði og öryggi persónuupplýsinga.

8.0

Ópersónugreinanlegar upplýsingar

Síminn áskilur sér rétt til að vinna með og greina ópersónugreinanlegar upplýsingar um notkun notanda á smáforritinu, til áframhaldandi vöruþróunar og/eða til að bæta virkni Appsins.

9.0

Kvartanir, beiðnir og réttindi notanda

Notendur eiga rétt til að fá aðgang og í ákveðnum tilvikum afrit af þeim persónuupplýsingum sem Síminn vinnur um notendur í tengslum við smáforritið sem og upplýsingar um vinnsluna. Við ákveðnar aðstæður kunna notendur jafnframt að hafa heimild til að óska eftir því að persónuupplýsingum um þá sé eytt eða að vinnsla þeirra verði takmörkuð. Þá geta notendur átt rétt á að fá persónuupplýsingar leiðréttar, séu þær rangar eða óáreiðanlegar. Auk þess kunna notendur að eiga rétt á afriti af þeim upplýsingum sem notendur hafa afhent Símanum  á tölvutæku formi, eða að Síminn sendi þær beint til þriðja aðila. Í þeim tilvikum er persónuupplýsingar eru unnar á grundvelli lögmætra hagsmuna Símans eiga notendur einnig rétt til að andmæla þeirri vinnslu.

Nánar er kveðið á um réttindi þessi, og þær takmarkanir sem kunna að vera á umræddum réttindum, í almennu persónuverndarstefnu Símans og vísast til hennar á heimasíðu Símans. Þá vísast til almennu persónuverndarstefnunnar varðandi upplýsingar um hvernig notendur geta nýtt umrædd réttindi sín.

Sé notandi ósáttur við það hvernig Síminn vinnur með persónuupplýsingar viðkomandi á notandi rétt til þess að senda kvörtun til Persónuverndar.

10.0

Gildistími

Persónuverndarstefna þessi er gefin út af Símanum hf. og gildir frá 1. júlí 2020 og til þess tíma er ný persónuverndarstefna tekur gildi eða þar til Síminn ákveður að hætta að bjóða notendum upp á lausnina.

11.0

12.0

13.0

14.0

15.0

Panta
Nafn á þjónustu
Undirtexti á
Þjónustuvefnum.

Nafn

Kennitala

Netfang

Símanúmer

Heimilisfang

Skilaboð

Texti undir formi
Texti2 undir formi
Texti falinn
Ertu hjá Símanum?
Færslu/útskriftargjald bætist á reikning skv. verðskrá.
0
kr./ mán.
Takk fyrir!
Við munum hafa samband eins fljótt og unnt er.
Úps!
Eitthvað hefur farið úrskeiðis. Vinsamlegast endurhlaða síðu og reyndu aftur.