Skilmálar

Síminn Ský

Skilmálar fyrir Síminn Ský, hýsing gagna í tölvuskýi. Með aðgangi að Síminn Ský getur notandi stofnað sitt eigið svæði og vistað t.d. myndir, myndbönd, hljóðskrár, tengiliði og önnur skjöl og skrár.

1.0

Almennt

Síminn Ský er hugbúnaðarlausn fyrir hýsingu gagna í tölvuskýi sem Síminn hf., kt. 4260207-0880, býður upp á í samstarfi við bandaríska fyrirtækið Funambol Inc. Með aðgangi að Síminn Ský getur notandi stofnað sitt eigið svæði og vistað t.d. myndir, myndbönd, hljóðskrár, tengiliði og önnur skjöl og skrár. Notandi getur nálgast svæðið sitt í gegnum vefviðmót, tölvuforrit og smáforrit (App).

Skilmálar þessir gilda um Síminn Ský hugbúnaðarlausnina og notkun þess. Notandi skal kynna sér skilmálana vel og staðfesta svo unnt sé að virkja lausnina. Með staðfestingu skilmálanna hefur viðkomandi undirgengist skilmála Símans eins og þeir eru á hverjum tíma sem jafngildir samning milli Símans og notanda um notkun á Síminn Ský.

Notandi, sem neytandi í skilningi neytendalaga, hefur rétt til að falla frá samningi þessum innan 14 daga frá því að aðgangur hans var stofnaður og virkjaður. Skal slík tilkynning berast Símanum með fullnægjandi hætti. Um leið og notandi byrjar að nota lausnina fyrirgerir notandi hins vegar framangreindum rétti sínum til þess að falla frá samningnum.

Nánari upplýsingar um þá vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram við notkun lausnarinnar Síminn Ský er einnig að finna í Persónuverndarstefnu Síminn Ský.

Skilmálar og Persónuverndarstefna Síminn Ský, eins og þeir eru hverju sinni eru aðgengilegir á www.siminn.is, í vefviðmóti Síminn Ský og í appinu Síminn Ský. Frekari leiðbeiningar um notkun og virkni Síminn Ský eru einnig aðgengilegar á www.siminn.is.

Í skilmálum þessum er einnig vísað til Síminn Ský sem „lausnin“ eða „þjónustan“.

Skilmálar þessi eru gefnir út af Símanum hf. og gilda frá 25 maí 2020 og til þess tíma er nýir skilmálar taka gildi.


2.0

Þjónustuleiðir og verðskrá

Notendum stendur til boða að nota lausnina án endurgjalds í gegnum svokallaða fríáskrift. Slík fríáskrift er bundin við tiltekið geymslurými og eftir atvikum í afmarkaðan tíma. Fari notandi yfir skilgreint hámark geymslurýmis fríáskriftar hefur notandi ekki tök á að bæta við frekari gögnum/skrám í lausnina nema með því að auka við geymslurými sitt og skrá sig í viðeigandi áskriftarleið gegn gjaldi. Nánari upplýsingar um geymslurými hverrar áskriftarleiðar og eftir atvikum önnur skilyrði áskriftarleiða eru að finna í verðskrá lausnarinnar á www.siminn.is. Síminn áskilur sér rétt til að hætta að bjóða fríáskrift hvenær sem er til nýrra notenda.

Sé fríáskrift bundin við tiltekið tímabil fær notandi boð um að skrá sig í áskrift að lausninni gegn gjaldi áður en tímabil fríáskriftar rennur út. Kjósi notandi ekki að skrá sig í áskrift að lausninni verður á síðasta degi tímabils fríáskriftar sjálfkrafa lokað fyrir aðgang notanda að lausninni. Gögn sem kunna að vera hýst í lausninni á vegum notanda verða eydd sjálfkrafa 30 dögum frá lokum fríáskriftartímabils.

Kjósi notandi að skrá sig í áskrift að lausninni gegn gjaldi fær notandi aukið geymslurými í samræmi við valda þjónustuleið. Notandi greiðir þóknun og er gjaldfærður mánaðarlega fyrir notkun á lausninni í samræmi við verðskrá hverju sinni. Komi til breytinga á verðskrá skulu þær tilkynntar notanda með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara.

3.0

Ábyrgð notanda, eiginleikar og notkun

Öll notkun Síminn Ský er alfarið á ábyrgð notanda, þ.m.t. öll gögn eða annað efni sem notandi kann að setja inn og hýsa í lausninni, t.d. skjöl, tónlist, myndir og myndbönd.

Síminn Ský hugbúnaðarlausnin er einungis ætlað einstaklingum frá 13 ára aldri. Til þess að gerast notandi að lausninni þarf viðkomandi að hafa rafræn skilríki, símanúmer tengt rafrænu skilríkjunum og netfang.

Við stofnun aðgangs fær notandi leyfi til að nota hugbúnaðinn Síminn Ský (vefviðmót, tölvuforrit og smáforrit) sem gerir notanda kleift að stofna sitt eigið svæði til að vista gögn. Notandi getur nálgast sitt svæði og sín gögn í gegnum vefviðmót á sky.siminn.is en notandi hefur einnig val um að hlaða niður tölvuforriti í tölvu, og/eða smáforriti (App).

Notandi ber ábyrgð á að koma í veg fyrir að óviðkomandi aðili komist yfir tölvu eða snjalltæki hans sem tengt er Síminn Ský og þar með aðgang hans að Síminn Ský, svo sem með því að veita aldrei þriðja aðila aðgang að snjalltæki sínu þar sem Síminn Ský er aðgengilegt eða með því að læsa snjalltæki með kóða eða takkalæsingu. Notandi á ekki að upplýsa aðra um slíka aðgangskóða. Notandi getur ávallt skráð sig inn á sitt svæði á sky.siminn.is og aftengt öll tengd tæki, þ.e. tölvur, spjaldtölvur og síma sem notuð hafa verið til að nálgast og vista gögn í Síminn Ský.  

Verði notandi var við veikleika eða bresti sem tengist öryggiseiginleikum lausnarinnar ber honum að tilkynna Símanum um það án tafar.

Síminn Ský smáforritið (Appið) býður upp á virkni þar sem ljósmyndir og myndbönd sem tekin eru á símtækið vistast sjálfkrafa í Síminn Ský lausninni. Sjálfkrafa vistun getur eingöngu verið virk á meðan appið er virkt í símtækinu, þ.e. opið eða keyrir í bakgrunni. Ef slökknar á sjálfvirkri vistun, til dæmis eftir að slökknað hefur á símtæki, þarf notandi að gæta þess að kveikja á Síminn Ský appinu. Komi til þess að notandi glati efni eða gögnum sem ekki voru sjálfkrafa vistuð í lausnina ber Síminn enga ábyrgð á slíku tapi eða mögulegu afleiddu tjóni vegna þess.

Síminn Ský býður upp á myndgreiningartól sem notanda stendur til boða að nota þegar notandi vistar myndir í lausninni. Tólið er notað í þeim tilgangi að gera notanda kleift að flokka myndir sínar út frá andlitum/hlutum á myndum eða auðvelda leit að myndum. Með því að samþykkja skilmála þessa veitir notandi samþykki fyrir þeirri myndgreiningu sem á sér stað ef notandi velur að nota tæknina.

Notanda er með öllu óheimilt að;

 • afrita lausnina í heild eða hluta, eða breyta, endurþýða eða endurhanna, án þess að hafa aflað sér fyrirfram skriflegrar heimildar Símans, að því marki sem heimilt er að takmarka slíkt með samningi skv. lögum,
 • framselja aðgang sinn til þriðja aðila,
 • hlaða niður eða deila gögnum sem eru stolin, ólögleg eða brjóta almennt gegn lögum (svo sem höfundavörðu efni), reglum eða almennu velsæmi,
 • hlaða niður eða deila gögnum sem innihalda vírus eða aðra eiginleika sem getur valdið tjóni á gögnum, búnaði eða lausninni,
 • falsa, brjóta, skemma, trufla eða með einhverjum hætti hafa áhrif á öryggiseiginleika lausnarinnar,
 • brjóta gegn höfunda- eða hugverkarétti Símans eða Funambol Inc.,
 • viðhafast eitthvað sem brýtur gegn skilmálum þessum, lögum og/eða reglum,
 • áreita aðra notendur lausnarinnar.

Verði Síminn var við ofangreinda notkun á lausninni, eða ef notandi brýtur að öðru leyti gegn skilmálum þessum, áskilur Síminn sér rétt til að læsa fyrirvaralaust aðgangi viðkomandi notanda að Síminn Ský og/eða rifta um leið samningi þessum.

4.0

Uppsögn af hálfu notanda

Notandi getur sagt upp þjónustunni hvenær sem er. Við uppsögn þarf notandi að tilgreina kennitölu sína og nafn. Með uppsögn er átt við að lokað er fyrir aðgengi notanda að geymsluplássi og öllum gögnum hans er eytt úr geymsluplássinu.

Við móttöku uppsagnar hefst 30 daga lokunartímabil. Á lokunartímabili getur notandi áfram:

 • skráð sig inn í lausnina,
 • hlaðið niður í tölvu öllum gögnum sem vistuð hafa verið í lausninni,  
 • séð skilaboð í gegnum smáforritið („push-notification“) sem gefa til kynna hve margir dagar eru eftir af lokunartímabili

Síminn vekur því athygli á að notanda ber sjálfum að gera ráðstafanir til að vista gögn sín í lausninni áður en lokunartímabili lýkur. Hafi notandi sjálfur gert slíkar ráðstafanir áður en lokunartímabili lýkur er honum óhætt að eyða smáforritinu úr snjalltæki sínu og/eða forritinu úr tölvubúnaði.

Að lokunartímabili liðnu er gögnum notanda í lausninni sjálfkrafa eytt ásamt aðgangi hans að lausninni. Notandi getur þá hvorki skráð sig inn í lausnina né nálgast gögn þar.

Vakin er athygli á að eyðing á smáforritinu (Appinu) úr síma notanda felur ekki í sér uppsögn á samningi þessum eða eyðingu á aðgangi notanda. Uppsögn á fjarskiptaþjónustu eða annarri þjónustu hjá Símanum hefur ekki í för með sér uppsögn á Síminn Ský.

5.0

Ábyrgð Símans

Komi í ljós galli í lausninni, sem hefur veruleg áhrif á virkni hennar, ber Símanum að lagfæra gallann sé slíkt mögulegt. Sé ekki fýsilegt að gera við galla skal Símanum jafnframt heimilt að endurgreiða notanda greidda þóknun fyrir notkun lausnarinnar, eftir því sem við á.

Noti notandi lausnina með óeðlilegum hætti ber Síminn enga ábyrgð á lausninni eða því tjóni sem notandi kann að verða fyrir. Með óeðlilegri notkun er t.a.m. átt við það ef notandi notar lausnina með óheimilum hætti eða skilmálum þessum að öðru leyti. Það sama á við hafi notandi notað lausnina með saknæmum eða ólögmætum hætti.

Síminn ber ekki ábyrgð á að vinnsla í lausninni stöðvist tímabundið, að aðgangur að gögnum notanda í lausninni verði ekki mögulegur eða á tapi notanda á gögnum sem hafa verið vistuð í lausninni. Það sama á við um ábyrgð á tjóni sem rekja má til sambandsleysis eða rofa á fjarskiptum. Þá ber Síminn ekki ábyrgð á áreiðanleika þeirra gagna sem notandi kann að vista í lausninni.

Sé lausnin notuð án endurgjalds ber Síminn í engu tilviki ábyrgð á mögulegu beinu tjóni notandans og/eða þriðja aðila, svo sem gagnatapi, né heldur afleiddu tjóni slíkra aðila, hvort sem tjónið er rekið til galla, skemmda eða eyðileggingar á lausninni eða til annara ástæðna, jafnvel þó að Símanum hafi verið tilkynnt um möguleikann á slíku tjóni.

Í þeim tilvikum sem notandi greiðir fyrir notkun lausnarinnar í formi áskriftar skal ábyrgð Símans, þ. á m. vegna hvers konar mistaka, villna, vanrækslu (svo sem í tengslum við öryggisráðstafanir), truflana, tafa, tjóns eða galla á lausninni, takmarkast við jafnvirði þeirrar þóknunar sem notandi hefur sannanlegt greitt Símanum fyrir notkun lausnarinnar á síðustu 3 mánuðum fyrir það atvik sem orsakaði umrætt tjón en þó aldrei meir en kr. 100.000, að því marki sem heimilt er á grundvelli ófrávíkjanlegra laga.

Ef Síminn getur ekki uppfyllt skyldur sínar vegna neyðarréttarlegra eða óviðráðanlegra atvika (force majeure) falla skuldbindingar hans, þ.m.t. möguleg bótaábyrgð, niður á meðan slíkt ástand varir.

6.0

Uppsögn af hálfu Símans

Uppsögn ef reikningur notanda er óvirkur

Síminn áskilur sér rétt til að segja upp samningi þessum við notanda hafi reikningur notanda verið óvirkur samfleytt í tólf mánuði. Með óvirkum reikningi er átt við að notandi hafi hvorki skráð sig inn í lausnina, deilt eða vistað gögn í lausninni, né breytt fyrirliggjandi gögnum í lausninni í samfleytt tólf mánuði.

Skal slík uppsögn berast notanda skriflega, svo sem með tölvupósti. Við uppsögn Símans í slíkum tilvikum tekur við 30 daga lokunartímabil. Að lokunartímabili liðnu er gögnum notanda sjálfkrafa eytt.

Uppsögn við brot á skilmálum

Síminn áskilur sér rétt til að rifta samningnum án fyrirvara ef eitthvert neðangreindra skilyrða á við:

 • notandi fer ekki eftir skilmálum þessum, lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum við notkun á Síminn Ský,
 • notandi hefur í frammi ógnandi hegðun gagnvart starfsfólki Símans eða öðrum notendum lausnarinnar,
 • notandi stofnar öryggi lausnarinnar í hættu
 • notandi notar lausnina með óheimilum hætti eða aðstoðar aðra við slíkt,
 • grunur er uppi um að aðgangur notanda sé notaður með saknæmum hætti, hvort sem það er af óviðkomandi aðila eða notanda sjálfum,
 • aðrar ótilgreindar ástæður eru fyrir hendi sem Síminn telur nægjanlegar til að læsa eða loka aðgangi í þeim tilgangi að vernda öryggi notanda, annarra notenda og/eða lausnarinnar,
 • Símanum sé það skylt samkvæmt lögum eða fyrirmælum stjórnvalda eða dómstóla.

Skyldi Síminn rifta samningi við notanda áskilur Síminn sér rétt til að læsa eða eyða aðgangi notanda. Við læsingu getur notandi ekki skoðað, bætt við gögnum né náð í gögn. Ef aðgangi er eytt er öllum upplýsingum um notanda, notkun hans og gögnum hans sem kunna að vera í lausninni eytt.

Hafi Síminn rift samningi við notanda vegna athæfis sem varðar við lög eða stjórnvaldsfyrirmæli áskilur sér Síminn rétt til að leita réttar síns eða kæra viðkomandi til lögreglu. Slíkur réttur skal einnig vera til staðar vakni grunur um saknæma háttsemi jafnvel þó svo að Síminn ákveði að rifta ekki samningi við notanda.

7.0

Höfunda- og hugverkaréttur

Allur hugverkaréttur að lausninni er annað hvort eign Símans eða þriðja aðila, þ.á.m. Funambol Inc. Samningur þessi hefur ekki í för með sér neins konar yfirfærslu á höfunda- eða hugverkarétti frá Símanum eða Funambol Inc. til notanda. Við virkjun lausnarinnar og þar með samþykki skilmála þessara, og eftir atvikum greiðslu þóknunar til Símans, fær notandi hins vegar leyfi til notkunar á lausninni á samningstíma, þ.á m. hugbúnaði Funambol Inc. sem lausnin byggir á.

Allt innihald smáforritsins og vefsvæðis er í eigu Símans eða þriðja aðila, þ.á.m. Funambol Inc., þ.m.t. vörumerkið Síminn Ský, texti, hönnun, grafík, ljósmyndir, myndir og ritstýrt efni er höfundavarið. Dreifing, fjölföldun, endurútgáfa eða annars konar sambærileg notkun af höfundavörðu efni Símans eða þriðja aðila, þ.m.t. Funambol Inc., er með öllu óheimil.

Notanda er einungis heimilt að nýta sér Síminn Ský til persónulegra nota í samræmi við skilmála þessa. Notanda er með öllu óheimilt að framselja aðgang sinn að lausninni til þriðja aðila.

8.0

Persónuvernd

Í Persónuverndarstefnu Síminn Ský, sem aðgengileg er í lausninni og á www.siminn.is, er að finna nánari upplýsingar um hvernig unnið er með þær persónuupplýsingar sem safnast við stofnun aðgangs og notkun lausnarinnar. Persónuverndarstefna þessi skal teljast hluti af skilmálum þessum og skal notandi því kynna sér hana vel.

Vakin er athygli á því að öll gögn sem eru hýst í lausninni eru einungis hýst innan Evrópu.

9.0

Breytingar á Síminn Ský

Síminn áskilur sér rétt til að gera tæknilegar breytingar eða uppfærslur á Síminn Ský þegar þörf krefur, þ.á m. til að bæta lausnina. Mun Síminn tilkynna notendum um slíkar breytingar í þeim tilvikum sem þær gætu haft áhrif á notkun á Síminn Ský eftir því sem unnt er. Munu tilkynningar birtast á vefsíðu Símans.

Síminn áskilur sér rétt til að uppfæra skilmála þessa. Nýjasta útgáfa skilmála þessa er aðgengileg á vefsvæði og í smáforriti Síminn Ský og á www.siminn.is.

Breytingar á skilmálum Síminn Ský verða kynntar notendum með skriflegum hætti, svo sem með skilaboðum í gegnum smáforritið eða tölvupósti. Samþykki notandi ekki breytta skilmála getur notandi ekki lengur nýtt sér lausnina eftir að breyttir skilmálar taka gildi og verður aðgangi hans þá sjálfkrafa læst og aðgangi hans lokað og gögnum eytt að einum mánuði liðnum. 

Síminn áskilur sér rétt til að hætta að bjóða lausnina Síminn Ský hvenær sem er án sérstakra skýringa. Komi til þess verður notendum tilkynnt um það með tveggja mánaða fyrirvara og gefst þeim þá kostur á að taka afrit af þeim gögnum sem eru geymd á lausninni. Þegar tveir mánuðir eru liðnir frá því að Síminn tilkynnti að lausninni yrði lokað áskilur Síminn sér rétt til að eyða öllum gögnum notanda sem kunna að vera ennþá hýst í lausninni.

10.0

Samskipti milli Símans og notanda

Síminn áskilur sér rétt til að senda notanda skilaboð sem tengjast notkun eða virkni Síminn Ský, þ. á m. tilkynningar um tæknilegar breytingar eða uppfærslur á lausninni eða breytingar á skilmálum, svo sem með því að senda tölvupóst, SMS eða skilaboð í gegnum smáforritið.  

Hvers konar samskiptum til Símans, þ.á.m. ábendingar, kvartanir og tilkynning um uppsögn þjónustunnar, skulu fara fram með eftirfarandi hætti:

 • Í verslun Símans
 • Í Þjónustuveri Símans s. 800-7000
 • Í Netspjalli Símans á www.siminn.is

Frekari upplýsingar um tilkynningaraðferð og/eða -form gætu verið birtar á vefsvæðinu www.siminn.is eða í skilaboðum frá Símanum til notanda.

11.0

Framsal, Lögsaga og varnarþing

Símanum er heimilt að framselja, að hluta eða öllu leyti, réttindi sín og skyldur samkvæmt samningi þessum með tilkynningu til notanda en notanda er það óheimilt án samþykkis Símans. Þá er Símanum heimilt að útvista verkefnum í tengslum við samning þennan, að hluta eða öllu leyti, til þriðja aðila, í samræmi við heimildir laga.

Um skilmála þess og lausnina Síminn Ský gilda íslensk lög. Rísi ágreiningur milli notanda og Símans vegna lausnarinnar, sem ekki reynist unnt að leysa með farsælum hætti milli aðila, skal reka málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

12.0

13.0

14.0

15.0