Snjallari Bílar

Snjallari Bílar er hugbúnaðarlausn sem Síminn býður upp á í samstarfi við bandaríska fyrirtækið Modus Solutions, LLC, sem gerir notanda mögulegt að fylgjast rafrænt með staðsetningu og notkun bifreiðar. Hugbúnaðarlausnin er tengd tækjabúnaði (t.d. ökurita) sem komið er fyrir í bifreið notanda. Í tækjabúnaðinn er sett SIM kort frá Símanum og í gegnum hugbúnaðarlausnina er veittur aðgangur að upplýsingum um bifreiðina og aksturslag hennar. Notandi getur bæði notast við vefviðmót lausnarinnar sem og smáforrit (App). Frekari leiðbeiningar um notkun og virkni Snjallari Bíla eru aðgengilegar hér á vefnum. Skilmálar þessir gilda um Snjallari Bíla hugbúnaðarlausnina og eftir því sem við á þann tækjabúnað sem notandi hefur keypt af Símanum.

1.0

Almennt

1.1. Skráningarskilyrði

Snjallari Bílar hugbúnaðarlausnin er einungis ætluð einstaklingum eldri en 18 ára.

Til þess að notandi geti notað lausnina Snjallari Bílar þarf hann að hafa:

tækjabúnað sem komið er fyrir í bifreið, sbr. gr. 2.4,
SIM kort frá Símanum,
aðgang að tölvu og/eða snjalltæki þar sem notandi getur nálgast lausnina,
netfang, og
skráð farsímanúmer

Til þess að stofna aðgang þarf að hafa samband við Símann og gefa upp nafn sitt, kennitölu og netfang, svo Síminn geti útbúið aðgang fyrir réttan aðila og reikningsfært réttan aðila. Síminn sendir næst skilaboð til viðkomandi með leiðbeiningunum hvernig hægt er að virkja aðganginn að lausninni.

Um meðferð Símans á persónuupplýsingum gildir Persónuverndarstefna Snjallari Bíla sem aðgengileg er á vefsíðu Símans, www.siminn.is, sbr. gr. 6.

Notandi ábyrgist að upplýsingar sem skráðar eru séu alltaf réttar og varði hann sjálfan, eða hann hafi heimild til að skrá upplýsingar varði þær þriðja aðila. Það er alfarið á ábyrgð notanda að uppfæra umræddar upplýsingar þegar og ef þörf krefur.

Síminn áskilur sér rétt til að meina notanda skráningu í Snjallari Bílar ef Síminn hefur áður sagt upp eða rift samningi við notanda um Snjallari Bílar eða aðrar þjónustur Símans.

1.2. Aðgangur notanda

Aðgangur notanda að viðmóti lausnarinnar skal aðeins vera notaður af honum sjálfum og skal notandi varðveita vel notandanafn sitt og lykilorð, sbr. þó gr. 1.3.

Ákveði notandi að deila aðgangsupplýsingum með þriðja aðila, eða á annan hátt veita þriðja aðila aðgang að aðgangi sínum að Snjallari Bílum, skal það alfarið vera á ábyrgð notanda.

Telji notandi að óviðkomandi þriðji aðili hafi komist yfir aðgang hans skal hann tilkynna það tafarlaust til Símans, sbr. gr. 7.3.

1.3. Aukanotendur

Með lausninni geta notendur heimilað öðrum aðila aðgang að lausninni, s.k. aukanotanda. Notandi sem hefur aðgang að fleiri aðgöngum en sínum persónulega aðgangi telst hafa svokallaðan „aukinn aðgang“ eða „admin aðgang“.

Síminn gengur út frá því að notanda sé heimilt að bæta við viðkomandi sem aukanotanda lausnarinnar og að aukanotanda sé kunnugt um að allar upplýsingar sem safnast um notkun hans á lausninni séu aðgengilegar á reikningi notanda.

Notandinn getur sjálfur breytt aðgangi aukanotanda í vefviðmótinu og eytt út gögnum þeirra í þeim tilvikum sem hann óskar þess.

Berist Símanum fyrirspurnir frá aukanotanda sem varða aðgang hans að lausninni, eyðingu upplýsinga um hann eða annað sem tengist vinnslu upplýsinga um hann við notkun lausnarinnar mun Síminn eftir fremsta megni beina slíkum beiðnum áfram til notanda, nema í þeim tilvikum sem Símanum telur að félaginu sé heimilt eða skylt að bregðast við fyrirspurninni án frekari aðkomu notanda.

Skilmálar þessir gilda, eftir því sem við á, um notkun aukanotanda á lausninni þ.m.t., en þó ekki takmarkað við, gr. 2.5. og 5. Að öðru leyti fer um notkun aukanotanda á lausninni, þar á meðal hvað varðar aðgang notanda að lausninni, eftir samkomulagi þeirra sín á milli og eru slíkir samningar Símanum óviðkomandi.

1.4 Réttur notanda til að falla frá samningi

Notandi, sem neytandi í skilningi neytendalaga, hefur rétt til að falla frá samningi þessum innan 14 daga frá því að hann var staðfestur af hálfu notanda, sbr. gr. 1. Skal slík tilkynning berast Símanum, sbr. gr. 7.3. Notandi þarf ekki að tilgreina ástæðu fyrir þeirri ákvörðun sinni að falla frá samningnum.

Um leið og notandi byrjar að nota lausnina fyrirgerir notandi hins vegar rétti sínum til þess að falla frá samningnum.

2. Eiginleikar og notkun Snjallari Bíla


2.0

Eiginleikar og notkun Snjallari Bíla

2.1. Lausnin

Gegn greiðslu þóknunar, sbr. gr. 3, fær notandi leyfi til að nota hugbúnað (vefviðmót og smáforrit, einnig vísað til sem „kerfis“) sem gerir notanda kleift að fylgjast með notkun og staðsetningu bifreiða. Í lausninni felst jafnframt hýsing á þeim upplýsingum sem safnast við notkun á kerfinu sem gerir notanda kleift að skoða upplýsingar þær sem safnast aftur í tímann á aðgangi sínum. Nánari upplýsingar um hýsingu þessa er að finna í Persónuverndarstefnu Snjallari Bíla.

2.2. Lausn virkjuð

Til þess að virkja lausnina þarf notandi að tengja kerfið við tækjabúnað (t.d. ökurita). Frekari leiðbeiningar um tengingu búnaðar við lausnina má finna á www.siminn.is. Notandi getur tengt fleiri en eitt ökutæki við aðgang sinn í lausninni, að því gefnu að búnaður hafi verið virkjaður í hverju ökutæki.

Að öðru leyti fer um uppsetningu aðgangs skv. gr. 1.1. í skilmálum þessum.

2.3. Notkunarmöguleikar

Unnt er að nálgast lausnina í gegnum vefviðmót á https://bilar.siminn.is en notandi hefur einnig val um að hlaða niður smáforriti Símans (App), Síminn Snjallari Bílar, til að nálgast lausnina. Einungis er unnt að veita aukanotanda aðgang í gegnum vefviðmót lausnarinnar. Upplýsingar um aukanotendur eru aðgengilegar notanda með aukinn aðgang í gegnum vefviðmót og smáforrit (Appi) lausnarinnar. Nánari upplýsingar um upplýsingasöfnun vefviðmótsins annars vegar og smáforritsins (Appsins) hins vegar eru aðgengilegar á www.siminn.is.

2.4. Tækjabúnaður

Notanda er óheimilt að nota lausnina og tengja hana við annan tækjabúnað en þann sem Síminn hefur samþykkt, sem notandi hefur keypt af Símanum eða keypt af þriðja aðila í gegnum Símann. Kaupi notandi tækjabúnað frá Símanum skal notandi greiða Símanum endurgjald fyrir slíkan búnað eftir því sem mælt er fyrir um í verðskrá Símans á vefsíðu þess www.siminn.is. Notandi ber ábyrgð á uppsetningu á tækjabúnaði nema um annað sé samið og greitt fyrir á grundvelli gjaldskrár Símans. Í þeim tilvikum sem Síminn hefur útvegað leiðbeiningar og fyrirmæli um tengingu búnaðar við ökutæki skal notandi fylgja þeim í hvívetna.

Um ábyrgð á tækjabúnaði sem notandi hefur keypt af Símanum skal fara eftir því sem segir í gr. 4.2.

Sé tækjabúnaður tengdur bifreiðum í gegnum OBD-II tækni ber notanda að gæta þess að sú gerð bifreiðar sem búnaðurinn er tengdur við styðji við stöðluð OBD-II samskipti. Í þeim tilvikum er óheimilt er að nota búnaðinn í bifreiðar sem eru framleiddar fyrir 1996 þar sem slíkar bifreiðar styðja almennt ekki við stöðluð OBD-II samskipti.

2.5. Óheimil notkun

Notanda er með öllu óheimilt að:

afrita kerfið í heild eða hluta, eða breyta, endurþýða eða endurhanna, án þess að hafa aflað sér fyrirfram skriflegrar heimildar Símans, að því marki sem heimilt er að takmarka slíkt með samningi skv. lögum,
tengja annan búnað við lausnina en þann sem Síminn hefur samþykkt eða selt notanda, sbr. gr. 2.4.
setja búnað í ökutæki þriðja aðila án vitneskju eiganda eða ökumanns bifreiðar eða vakta aðra einstaklinga með rafrænum hætti með leynd eða öðrum óheimilum hætti, sbr. gr. 4.1.
Verði Síminn var við ofangreinda notkun á lausninni, eða ef notandi brýtur að öðru leyti gegn skilmálum þessum, áskilur Síminn sér rétt til að loka fyrirvaralaust aðgangi viðkomandi notanda að Snjallari Bílum og rifta um leið samningi þessum, sbr. gr. 4. og 8.

3. Þóknun

3.0

Þóknun

3.1. Verðskrá

Fyrir notkun á lausninni ber notanda að greiða Símanum þóknun í samræmi við verðskrá Símans sem aðgengileg er á www.siminn.is.

Verð er tilgreint í íslenskum krónum og með virðisaukaskatti, nema annað sé tekið fram. Komi til breytinga á verðskrá skulu þær tilkynntar notanda með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara.

3.2. Reikningar

Notandi er gjaldfærður mánaðarlega fyrirfram fyrir notkun lausnarinnar.

Reikningstímabil miðast við almanaksmánuð og er útgáfudagur reikninga í lok þess mánaðar. Gjalddagi reikninga er 20 dögum eftir lok reikningstímabils og eindagi að jafnaði 15 dögum eftir gjalddaga. Sé reikningur ekki greiddur á eindaga skal notandi greiða dráttarvexti, eins og þeir eru ákveðnir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá og með gjalddaga til greiðsludags. Hafi notandi ekki greitt reikninga tvo gjalddaga í röð áskilur Síminn sér rétt til að loka fyrir aðgang viðkomandi og eftir atvikum aukanotanda á hans vegum að lausninni og eftir atvikum rift samningi þessum við notanda og eyða aðgangi notanda og eftir atvikum aukanotanda að lausninni, sbr. gr. 8.4.

3.3. Annað

Notandi ber eftir sem áður ábyrgð á greiðslu gjalda vegna fjarskiptaþjónustu sem hann kaupir frá sínu fjarskiptafélagi vegna notkunar á snjalltæki sínu, t.d. notkun á gagnamagni.

Framangreint tekur ekki til greiðslu vegna þess búnaðar sem notandi kýs að tengja við lausnina, sbr. gr. 2.4.

4.0

Ábyrgð

4.1 Ábyrgð notanda

Hafi fleiri aðilar en notandi aðgang að bifreið sem tækjabúnaði hefur verið komið fyrir í, og hann tengdur kerfinu, ber notandi alfarið ábyrgð á því að upplýsa þá aðila um tilvist búnaðarins og söfnun þeirra upplýsinga sem fer fram með lausninni og tilganginn með söfnuninni/vöktuninni. Á þetta t.a.m. við í vinnusambandi og undir öllum öðrum kringumstæðum þar sem fleiri aðilar en notandi hafa aðgang að bifreið, þ.á m. maki eða aðrir fjölskyldumeðlimir.

Þá ábyrgist notandi í hverju tilviki fyrir sig að hann hafi rétt til þess að koma tækjabúnaði fyrir í þeirri bifreið sem hann gerir og að hann hafi rétt til að fylgjast með notkun þeirrar bifreiðar með tenginu við lausnina.

Skal notandi halda Símanum skaðlausu í tengslum við hvers konar kröfur þriðja aðila sem kunna að vera gerðar á hendur Símanum brjóti notandi gegn framangreindu.

4.2 Ábyrgð Símans

Komi í ljós innan árs frá afhendingu búnaðar (eða innan tveggja ára sé notandi neytandi í skilningi neytendalaga) að tækjabúnaðurinn er gallaður ber Símanum að gera við eða útvega notanda nýjan búnað í samræmi við meginreglur laga um lausafjárkaup. Það sama gildir um galla í kerfinu, komi í ljós galli í því ber Símanum að gera við það í samstarfi við Modus. Sé ekki fýsilegt að gera við galla skal Símanum jafnframt heimilt að endurgreiða notanda greidda þóknun fyrir viðkomandi tækjabúnað eða kerfið, eftir því sem við á.

Noti notandi tækjabúnaðinn eða kerfið með óeðlilegum hætti ber Síminn enga ábyrgð á búnaðnum og/eða kerfinu eða því tjóni sem notandi kann að verða fyrir. Með óeðlilegri notkun er t.a.m. átt við það ef notandi brýtur gegn gr. 2.4 eða 2.5, ef notandi breytir með einhverjum hætti búnaðnum eða kerfinu, ef notandi opnar búnaðinn eða fiktar í honum með öðrum hætti, eða ef gert er við búnaðinn með ófullnægjandi hætti. Þá ber Síminn ekki ábyrgð á mögulegu tjóni eða skemmdum sem kunna að verða á bifreið notanda við uppsetningu eða tengingu búnaðarins, nema um annað hafi verið samið sbr. gr. 2.4. Síminn ber ekki ábyrgð á að vinnsla í kerfinu stöðvist tímabundið, að aðgangur að gögnum notanda í kerfinu verði ekki mögulegur eða á tapi notanda á gögnum sem safnast hafa í kerfinu. Þá ber Síminn ekki ábyrgð á áreiðanleika þeirra gagna sem safnast í kerfinu.

Síminn ber í engu tilviki ábyrgð á rekstrartapi notanda og/eða þriðja aðila, né heldur afleiddu tjóni slíkra aðila, þ.m.t. glötuðum ágóða eða ráðgerðum sparnaði, hvort sem tjónið er rakið til galla, skemmda eða eyðileggingar á tækjabúnaði eða kerfinu eða til annarra ástæðna, jafnvel þó að Símanum hafi verið tilkynnt um möguleikann á slíku tjóni.

Í öllum tilvikum skal ábyrgð Símans, vegna hvers konar mistaka, villna, vanrækslu, truflana, tafa, tjóns eða galla á lausninni takmarkast við jafnvirði þeirrar þóknunar sem notandi hefur sannanlega greitt Símanum fyrir lausnina á síðustu 3 mánuðum fyrir það atvik sem orsakaði umrætt tjón, að því marki sem heimilt er á grundvelli ófrávíkjanlegra laga.

Ef aðili getur ekki uppfyllt skyldur sínar vegna neyðarréttarlegra, óviðráðanlegra atvika (force majeure) falla skuldbindingar hans, þ.m.t. möguleg bótaábyrgð, niður á meðan slíkt ástand varir.

5.0

Höfunda- og hugverkaréttur

5.1

Allur hugverkaréttur að kerfinu er annað hvort eign Símans eða þriðja aðila, þ.á m. Modus. Samningur þessi hefur ekki í för með sér neins konar yfirfærslu á höfunda- eða hugverkarétti frá Símanum eða Modus til notanda eða aukanotanda. Gegn greiðslu þóknunar fær notandi, og eftir atvikum aukanotandi á hans vegum, með samningi þessum hins vegar leyfi til notkunar á kerfinu á samningstíma, þ.á m. hugbúnaði Modus sem lausnin byggir á.

Allt innihald smáforritsins og vefsvæðis er í eigu Símans hf. eða Modus, þ.m.t. vörumerkið Snjallir Bílar, texti, hönnun, grafík, ljósmyndir, myndir og ritstýrt efni er varið höfundarétti. Dreifing, fjölföldun, endurútgáfa eða annars konar sambærileg notkun af höfundavörðu efni Símans eða Modus er með öllu óheimil.

6.0

Persónuvernd

6.1
Við notkun þjónustunnar verða til upplýsingar um notkun þeirra bifreiða sem tengdar hafa verið kerfinu, þ.á m. um staðsetningu, aksturslag, bilanir og/eða viðhaldsþörf bifreiðanna. Þessar upplýsingar kunna eftir atvikum að teljast til persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Í Persónuverndarstefnu Snjallari Bíla, sem aðgengileg er á vefsíðu www.siminn.is, er að finna nánari upplýsingar um hvernig unnið er með þær upplýsingar sem safnast við notkun á lausninni. Persónuverndarstefna þessi skal teljast hluti af samningi þessum og skal notandi því kynna sér hana vel.

7.0

Breytingar og samskipti

7.1 Tæknilegar breytingar eða uppfærslur

Síminn áskilur sér rétt til að gera tæknilegar breytingar eða uppfærslur á Snjallari Bílum þegar þörf krefur, þ.á m. til að bæta lausnina. Mun Síminn tilkynna notanda um slíkar breytingar í þeim tilvikum sem slíkar breytingar geta haft áhrif á notkun á Snjallari Bíla eftir því sem unnt er.

7.2 Breytingar á skilmálum Snjallari Bíla

Síminn áskilur sér rétt til að uppfæra skilmála þessa. Nýjasta útgáfa skilmála þessa er aðgengileg á vefsíðu Símans og í gegnum smáforritið Snjallari Bílar. Samþykki notandi ekki breytta skilmála Snjallari Bíla getur notandi ekki lengur nýtt sér lausnina eftir að breyttir skilmálar taka gildi og verður aðgangi hans, og eftir atvikum aukanotanda á hans vegum, þá sjálfkrafa lokað.

7.3 Samskipti milli Símans og notanda

Síminn áskilur sér rétt til að senda notanda og eftir atvikum aukanotanda skilaboð sem tengjast lausninni, þ.á m. tilkynningar um tæknilegar breytingar eða uppfærslur á lausninni eða breytingar á skilmálum, með því að senda SMS skilaboð, tölvupóst eða skilaboð í gegnum smáforritið. Síminn mun ávallt óska eftir samþykki fyrir að mega hafa samband við notanda og/eða aukanotanda í markaðslegum tilgangi, svo sem til að senda skilaboð um aðrar þjónustur og/eða vörur Símans. Unnt er að afturkalla slíkt samþykki hvenær sem er með því að senda tilkynningu þess efnis til Símans eða með því að hafa samband símleiðis við þjónustuver.

Hvers konar samskiptum til Símans, þ. á m. ábendingar og kvartanir, skulu fara fram með eftirfarandi hætti:

  • Í verslun Símans
  • í Þjónustuveri Símans 800-7000
  • Í Netspjalli Símans á siminn.is

Frekari upplýsingar um tilkynningaraðferð og/eða -form gætu verið birtar á vefsvæðinu www.siminn.is eða í skilaboðum frá Símanum til notanda og eftir atvikum aukanotanda.

8.0

Lokun aðgangs og uppsögn/riftun samnings

8.1 Lokun aðgangs

Síminn áskilur sér rétt til að loka tímabundið fyrir aðgang notanda og/eða aukanotanda ef eitthvert af skilyrðum í gr. 8.4. eru uppfyllt. Upplýsingum um notanda, og eftir atvikum aukanotanda, eða notkun hans á lausninni er ekki eytt þegar aðgangi er lokað tímabundið, heldur eru þær varðveittar þar til samningi þessum er sagt upp eða rift, sbr. gr. 8.-2.-8.4. og Persónuverndarstefnu Símans. Auk þess að loka tímabundið fyrir aðgang áskilur Síminn sér rétt til að loka tímabundið á fjarskiptaþjónustu og þar með söfnun upplýsinga með lausninni í tilviki vanskila notanda, eins og nánar er kveðið á um í almennum fjarskiptaskilmálum Símans á www.siminn.is.

8.2 Uppsögn af hálfu notanda

Notandi getur sagt upp samningi þessum með tilkynningu til Símans hvenær sem er, sbr. gr. 7.3. Við tilkynningu um uppsögn samnings þarf notandi að tilgreina kennitölu sína og nafn. Uppsögn notanda tekur gildi strax og lokast aðgangur notanda, og eftir atvikum aukanotanda, samtímis. Vakin er athygli á að eyðing smáforritsins Snjallari Bílar úr snjalltæki notanda felur ekki í sér uppsögn á samningi þessum eða á notkun Snjallari Bíla. Með sama hætti felur það ekki í sér uppsögn á samningi fjarlægi notandi tækjabúnað úr bifreið sinni eða aftengi hann kerfið með öðrum hætti.

8.3 Uppsögn af hálfu Símans

Síminn getur sagt upp samningi þessum við notanda hvenær sem er með tveggja mánaða fyrirvara. Skal slík uppsögn berast notanda skriflega, svo sem með tölvupósti. Síminn þarf ekki að tilgreina ástæðu uppsagnar. Að uppsagnarfresti liðnum lokast sjálfkrafa aðgangur notanda, og eftir atvikum aukanotanda, að Snjallari Bílum.

8.4 Riftun samnings

Síminn áskilur sér rétt til að rifta samningnum án fyrirvara og þar með eyða aðgangi notanda, og eftir atvikum aukanotanda, fyrirvaralaust ef eitthvert neðangreindra skilyrða á við:
notandi eða aukanotandi fer ekki eftir skilmálum þessum, lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum við notkun á Snjallari Bílum, sbr. einkum gr. 2.5.,
notandi eða aukanotandi hefur í frammi ógnandi hegðun gagnvart starfsfólki Símans,
ef notandi stendur ekki skil á þóknun vegna notkun lausnarinnar tvo gjalddaga í röð, sbr. gr. 3.2, eða
ef Símanum er það skylt skv. fyrirmælum frá stjórnvöldum eða dómstólum.

8.5 Áhrif uppsagnar/riftunar

Við uppsögn samnings þessa, hvort sem er af hálfu notanda eða Símans, eyðast öll gögn um notkun notanda og eftir atvikum aukanotanda á lausninni við lok uppsagnarfrests.

Skyldi Síminn rifta samningi við notanda áskilur Síminn sér rétt til að eyða aðgangi notanda, þ.m.t. öllum upplýsingum um notanda og notkun hans (og eftir atvikum aukanotanda). Hafi Síminn rift samningi við notanda vegna athæfis sem varðar við lög eða stjórnvaldsfyrirmæli áskilur Síminn sér rétt til að leita réttar síns eða kæra viðkomandi til lögreglu. Slíkur réttur skal einnig vera til staðar vakni grunur um saknæma háttsemi jafnvel þó svo að Síminn ákveði að rifta ekki samningi við notanda. Framangreint á einnig við um athæfi eða háttsemi aukanotanda.

9.0

Lögsaga og varnarþing

9.1

Um skilmála þessa gilda íslensk lög. Rísi ágreiningur milli notanda og Símans vegna lausnarinnar Snjallari Bílar, sem ekki reynist unnt að leysa með farsælum hætti milli aðila, skal reka málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

10.0

Gildistími

10.1

Skilmálar þessir eru gefnir út af Símanum og gilda frá 1. september 2018 og til þess tíma er nýir skilmálar taka gildi.

11.0

12.0

13.0

14.0

15.0

Panta
Nafn á þjónustu
Undirtexti á
Þjónustuvefnum.

Nafn

Kennitala

Netfang

Símanúmer

Heimilisfang

Skilaboð

Texti undir formi
Texti2 undir formi
Texti falinn
Ertu hjá Símanum?
Færslu/útskriftargjald bætist á reikning skv. verðskrá.
0
kr./ mán.
Takk fyrir!
Við munum hafa samband eins fljótt og unnt er.
Úps!
Eitthvað hefur farið úrskeiðis. Vinsamlegast endurhlaða síðu og reyndu aftur.