Snjallari bílar persónuverndarstefna

Snjallari Bílar er hugbúnaðarlausn sem Síminn hf., Ármúla 25, 108 Reykjavík (hér eftir „Síminn“) býður upp á í samstarfi við bandaríska fyrirtækið Modus Solutions, LLC, sem gerir notanda mögulegt að fylgjast rafrænt með staðsetningu og notkun bifreiðar. Hugbúnaðarlausnin er tengd tækjabúnaði (t.d. ökurita) sem komið er fyrir í bifreið notanda. Í tækjabúnaðinn er sett SIM kort frá Símanum og í gegnum Snjallari Bíla hugbúnaðarlausnina er veittur aðgangur að nánar tilteknum upplýsingum um bifreiðina og aksturslag hennar. Notandi getur bæði notast við vefviðmót lausnarinnar sem og smáforrit (App). Frekari leiðbeiningar um notkun og virkni Snjallra Bíla eru aðgengilegar á vefsíðu Símans, www.siminn.is.

Persónuverndarstefna þessi gildir um vinnslu Símans á þeim persónuupplýsingum notanda sem unnið er með í tengslum við notkun á lausninni Snjallari Bílar.

1.0

Vinnsla Símans

Við skráningu á aðgangi í hugbúnaðarlausninni og við notkun lausnarinnar er unnið með persónugreinanlegar upplýsingar notanda eins og nánar er kveðið á um í stefnu þessari.

Öll vinnsla á persónuupplýsingum lýtur lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, reglum nr. 837/2006 um rafræna vöktun og öðrum reglum sem settar hafa verið á grundvelli persónuverndarlaga („persónuverndarlög“).

Síminn gætir þess að þeir þættir vinnslunnar sem Síminn hefur með höndum í tengslum við notkun lausnarinnar séu í samræmi við slíka löggjöf. Í þeim tilvikum þar sem lausnin er notuð í vinnuréttarsambandi, eða í öðrum tilvikum þar sem um tengda aðganga er að ræða, kunna sérstök sjónarmið að gilda um ábyrgð á vinnslunni. Nánar er fjallað um þau tilvik í gr. 5 í stefnu þessari.

2.0

Persónuupplýsingar sem safnað er

Við stofnun aðgangs í hugbúnaðarlausninni þarf notandi að skrá upplýsingar um nafn, kennitölu og netfang. Þá getur notandi valið að skrá skráningarnúmer ökutækis í lausnina við stofnun aðgangs. Með því að skrá inn skráningarnúmer ökutækis kallar lausnin sjálfkrafa eftir upplýsingum úr ökutækjaskrá um gerð ökutækisins.

Í tilvikum aukanotenda kann notandi jafnframt að þurfa að skrá nafn og netföng annarra notenda til að veita þeim aðgang að lausninni og ber notandi í þeim tilvikum ábyrgð á því að hann hafi heimild til þess. Slíkir aðilar teljast vera aukanotendur.

Við notkun lausnarinnar safnast upplýsingar um notkun þeirra ökutækja sem tengd hafa verið lausninni í gegnum þar til gerðan tækjabúnað og geta slíkar upplýsingar eftir atvikum talist til persónuupplýsinga þar sem mögulegt kann að vera að rekja upplýsingarnar til tilgreindra ökumanna.

Vefviðmót; Eftir að hafa tengt tækjabúnað við ökutæki og virkjað aðgang í hugbúnaðarlausninni fær notandi aðgang að upplýsingum um staðsetningu ökutækisins, akstursleiðir (þ. á m. aksturssögu) og aksturslag ökutækis, svo sem ökuhraða og upplýsingar um harkalegar hömlur eða beygjur), auk þess sem sumir framleiðendur ökutækja gera einnig aðgengilegar nánari upplýsingar um ástand og eiginleika bílsins, svo sem hitastig vélar og fjölda ekinna km. Athugið að mismunandi upplýsingar eru aðgengilegar um OBD-II tengi eftir framleiðendum bifreiða.

Smáforrit; Notendur hafa einnig val um að hlaða niður smáforriti Símans (App), Síminn Snjallir Bílar, til að nálgast lausnina. Kjósi notandi það safnar smáforritið einnig eftirfarandi upplýsingum úr símtæki hans, t.d.:

hvort sími er opnaður og í hvaða tilgangi (til að hringja, opna SMS eða nota smáforrit),
gerð símtækis,
OS/App/Api Version (þar sem við á),
upphafs- og lokatími síðustu akstursleiðar (frá hvaða tæki, tími og dagsetning)
Wi-Fi/Bluetooth/Tracking/Location/Push notifications (hvort slík stilling virkjuð)
hvort símtæki var aflæst á meðan ökumaður ók hinu skráða ökutæki

Það skal tekið fram að smáforritið safnar aldrei upplýsingum um efni símtala, símanúmer eða texta smáskilaboða.

Ekki er unnið með neinar viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi laga við notkun á lausninni.

Nánari upplýsingar um upplýsingasöfnun vefviðmótsins og smáforritsins eru aðgengilegar á www.siminn.is.

3.0

Tilgangur vinnslu

Síminn aflar, skráir og vistar upplýsingarnar í þeim tilgangi að gera notanda kleift að nýta hugbúnaðarlausnina og veita réttum notanda upplýsingar um rétt ökutæki, á grundvelli samnings milli Símans og notanda. Þá eru upplýsingarnar notaðar til að tryggja gæði og virkni lausnarinnar og ef þörf krefur vegna stoðþjónustu og bilanagreiningu.

Hvað smáforritið varðar þá er tilgangur vinnslunnar jafnframt að staðfesta tengsl á milli síma og ökutækis.

Þá mun Síminn nota upplýsingarnar til að hafa samband við notanda í viðskiptalegum tilgangi, þ.á m. í þeim tilgangi að tilkynna notanda um breytingar á lausninni, þegar og ef þess gerist þörf og í því skyni að geta sent notanda reikninga til að gjaldfæra fyrir notkun á lausninni í samræmi við samning aðila.

4.0

Viðtakendur upplýsinga

Þær upplýsingar sem safnast við notkun lausnarinnar um tengd ökutæki í gegnum tækjabúnað og snjallforrit eru vistaðar hjá Modus Solutions LLC („Modus“) í Írlandi. Modus telst vinnsluaðili Símans í tengslum við þá vinnslu í skilningi persónuverndarlaga og hefur Síminn sannreynt að Modus getur framkvæmt viðeigandi öryggisráðstafanir við hýsingu upplýsinganna og hefur Síminn gert skriflegan vinnslusamning við Modus.

Vinnsla Modus á upplýsingunum felst í því að tryggja öryggi upplýsinganna, hýsa upplýsingarnar, tengja lausnina og upplýsingar sem safnast úr tækjabúnaði og eftir atvikum snjallsímum við upplýsingar frá framleiðendum ökutækja og eftir atvikum þriðju aðilum (t.d. Google Map) og sjá um að eyða upplýsingum á grundvelli fyrirmæla Símans þar um.

Þá kann Síminn eftir atvikum að þurfa veita notendum stoðþjónustu eða bilanagreiningu, sé um það samið, og í slíkum tilvikum kunna upplýsingar að verða sendar til Modus í Bandaríkjunum frá Símanum. Modus er hins vegar skráð hjá bandaríska viðskiptaráðuneytinu á grundvelli samkomulags Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um öryggisskjöld (e. Privacy Shield), og er flutningur upplýsinga þangað því heimill á grundvelli persónuverndarlaga.

Hvorki Síminn né Modus munu afhenda þriðja aðila, að lögreglu frátalinni, persónugreinanleg gögn úr kerfinu nema á grundvelli lagaheimildar, stjórnvaldsfyrirmæla eða dómsúrskurðar.

5.0

Notkun lausnarinnar í vinnuréttarsambandi

Þegar lausnin er notuð af fyrirtækjum, þ.á m. í vinnuréttarsambandi, skal slíkur notandi teljast ábyrgur fyrir þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram þegar hann eða einhver á hans vegum notar þjónustuna, þ. á m. aukanotendur. Ber notanda í slíkum tilvikum að gæta að því að sú vinnsla sem fer fram á hans vegum samrýmist lögum og reglum um persónuvernd. Skulu notendur í slíkum tilvikum vera ábyrgir fyrir því að upplýsa starfsmenn og aðra aðila sem aðgang kunna að hafa að lausninni um öll þau atriði sem lúta að vinnslu persónuupplýsinga.

Síminn telst almennt vinnsluaðili í skilningi persónuverndarlaga í tengslum við hvers konar vinnslu persónuupplýsinga notanda undir slíkum kringumstæðum og Modus undirvinnsluaðili. Skulu aðilar gera með sér skriflegan vinnslusamning um vinnslu Símans óski notandi þess.

Um notkun lausnarinnar í vinnuréttarsambandi, eða öðrum tilvikum þar sem notandi útvegar og/eða hefur aðgang að aðgöngum aukanotenda, fer að öðru leyti eftir samkomulagi þeirra sín á milli og eru slíkir samningar Símanum óviðkomandi.

6.0

Varðveislutími

Persónuupplýsingar notanda verða ekki varðveittar lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslunnar.

Upplýsingum sem safnast við notkun lausnarinnar verður eytt að uppsagnarfresti liðnum, hafi samningi notanda og Símans verið sagt upp, eða við riftun.

Upplýsingum er ekki eytt í þeim tilvikum er aðgangi notanda er lokað tímabundið.

Notandi getur hvenær sem er valið í vefviðmótinu eða smáforritinu að láta eyða upplýsingum um ferðir tengdrar bifreiðar innan 90 daga frá söfnun þeirra.

7.0

Áreiðanleiki upplýsinga

Síminn mun gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að persónuupplýsingar sem félagið safnar séu áreiðanlegar og, ef nauðsyn krefur, uppfærðar. Framangreint á ekki við um upplýsingar sem notandi eða aukanotandi skráir sjálfur í aðgang sinn að lausninni. Séu persónuupplýsingar óáreiðanlegar mun Síminn, með hliðsjón af tilgangi vinnslunnar, gera viðeigandi ráðstafanir til þess að þær verði leiðréttar eða þeim eytt.

8.0

Öryggi upplýsinga

Síminn mun gera viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir til að tryggja öryggi persónuupplýsinga, m.a. með það að markmiði að koma í veg fyrir mannleg mistök, þjófnað, svik og aðra misnotkun á upplýsingum. Síminn mun takmarka aðgang að upplýsingum við þá sem þurfa slíkan aðgang til að ná fram tilgangi vinnslunnar. Starfsmenn Símans eru upplýstir um skyldu þeirra til að viðhalda trúnaði og öryggi persónuupplýsinga.

9.0

Réttindi notanda

Notandi hefur rétt til andmæla söfnun Símans á persónuupplýsingum telji hann að slík söfnun sé ekki í samræmi við tilgang hennar, að meðalhófs sé ekki gætt eða ef hann telur að sama árangri væri hægt að ná með mildari aðferðum. Þá getur notandi óskað eftir því að fá upplýsingar um vinnslu sem á sér stað hjá Símanum um hann eða eftir atvikum aukanotendur sem hefur verið unnið með ef um notanda með aukinn aðgang er að ræða, enda standi hagsmunir annarra því ekki í vegi. Sé aðgangur veittur skal hann veittur eins fljótt og auðið er og eigi síðar en innan eins mánaðar frá móttöku slíkrar beiðni. Notandi kann jafnframt að eiga rétt til að krefjast þess að rangar, villandi eða ófullkomnar persónuupplýsingar um hann eða eftir atvikum aukanotendur séu leiðréttar og/eða að persónuupplýsingum sé eytt, þ.á m. ef upplýsingarnar teljast ekki lengur nauðsynlegar í þeim tilgangi sem lá að baki söfnun eða annarri vinnslu þeirra, ef ekki eru lengur til staðar lögmætar ástæður til að vinna upplýsingar, ef síðar kemur í ljós að vinnslan reynist ólögmæt eða ef Símanum eða notanda er skylt að eyða upplýsingunum á grundvelli lagaskyldu eða stjórnvaldsfyrirmæla.

Berist Símanum fyrirspurnir frá aukanotanda sem varða aðgang hans að lausninni, eyðingu upplýsinga um sig eða annað sem tengist vinnslu upplýsinga um hann við notkun lausnarinnar mun Síminn eftir fremsta megni beina slíkum beiðnum áfram til notanda, nema í þeim tilvikum sem Símanum telur að honum sé heimilt eða skylt að bregðast við fyrirspurninni án frekari aðkomu notanda.

10.0

Ópersónugreinanlegar upplýsingar

Síminn áskilur sér rétt til að vinna með ópersónugreinanlegar upplýsingar sem safnað er með hugbúnaðarlausninni til áframhaldandi vöruþróunar, til að bæta þjónustu og til að bæta virkni lausnarinnar.

11.0

Kvartanir og beiðnir

Kvartanir og beiðnir notanda vegna vinnslu Símans á persónuupplýsingum í tengslum við hugbúnaðarlausnina skal koma á framfæri við Símann með skriflegum hætti eða með því að hafa samband símleiðis við þjónustuver.

Aukanotandi skal beina kvörtunum og beiðnum til viðeigandi notanda með aukinn aðgang, eða eftir atvikum til Persónuverndar ef ágreiningur er til staðar.

12.0

13.0

14.0

15.0

Panta
Nafn á þjónustu
Undirtexti á
Þjónustuvefnum.

Nafn

Kennitala

Netfang

Símanúmer

Heimilisfang

Skilaboð

Texti undir formi
Texti2 undir formi
Texti falinn
Ertu hjá Símanum?
Færslu/útskriftargjald bætist á reikning skv. verðskrá.
0
kr./ mán.
Takk fyrir!
Við munum hafa samband eins fljótt og unnt er.
Úps!
Eitthvað hefur farið úrskeiðis. Vinsamlegast endurhlaða síðu og reyndu aftur.