Þegar þjónusta Facebook, Instagram og WhatsApp fór niður í um sex klukkustundir á mánudaginn áttu margir erfitt með sig. Hvað átti fólk að skruna í gegnum og eyða tíma sínum í?
Mörg okkar snéru sér beint að sjónvarpsskjánum en sjónvarpskerfi Símans sáu ótrúlega aukningu á áhorfi á meðan bilunin varði hjá Facebook. Áhorfið var langtum meira en á hefðbundnu mánudagskvöldi og þannig jókst áhorfið um 43% miðað við önnur mánudagskvöld. Þannig varð áhorfið mest eins og ágætt sunnudagskvöld, en það er sá dagur vikunnar þegar að þjóðin horfir hvað mest á sjónvarp.
„Áhorfið dreifðist jafnt á milli helstu sjónvarpsstöðva og efnis í Sjónvarpi Símans Premium. Þessi mikla aukning kom okkur aðeins á óvart og hefði eflaust verið enn meiri ef t.d. miðill eins og YouTube hefði legið niðri í þetta langan tíma“ segir Bryndís Þóra Þórðardóttir vörustjóri sjónvarpsþjónustu Símans.