Boltamömmur eru framleiddir af Atlavík, framleiðsluteyminu að baki Iceguys, en þættirnir eru hugarfóstur Lilju Nætur Þórarinsdóttur. Þeir segja frá nýfráskilinni konu sem hellir sér af lífi og sál í heim yngri flokka og lendir á skrautlegu sviði foreldrasamskipta, keppnisskaps og tilfinninga. Leikstjórar þáttaraðarinnar eru Hannes Þór Halldórsson og Hafsteinn Gunnar Sigurðsson.
„Hugmyndin kom til mín á hliðarlínunni í mínu eigin boltamömmulífi sem er svo ótrúlega spennandi og skemmtilegt. Þar er alltaf nóg af hasar og drama, jafnvel meira utan vallar en innan. Svo hafði mig lengi langað til að vinna með Hannesi Þór sem mér fannst augljóst val til að leikstýra þessu, ásamt Hadda Gunna sem var frábært að fá með í verkefnið!“ – Lilja Nótt Þórarinsdóttir,leikari og handritshöfundur.
Boltamömmur eru ein af tólf þáttaröðum á framleiðslustigi fyrir Sjónvarp Símans Premium, en dagskráin hefur aldrei verið eins metnaðarfull.
„Við erum sérstaklega stolt af þessu verkefni sem bætist í breiða sjónvarpsdagskrá Sjónvarps Símans Premium. Sjónvarpsstöðin framleiðir meira leikið efni en nokkur önnur stöð hér á landi og gerum við það með ástríðu og metnaði fyrir vönduðu innlendu efni og einlægri trú á að íslenskar sögur eigi skilið að fá að heyrast.“ segir Birkir Ágústsson, framkvæmdastjóri miðla hjá Símanum.
Landslið leikara og handritshöfunda
Þættirnir eru skrifaðir af Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur, Sólmundi Hólm, Hafsteini Gunnari Sigurðssyni, Lilju Nótt Þórarinsdóttur og Hannesi Þór Halldórssyni en það er einvalalið í öllum hornum þessarar framleiðslu. Aðalhlutverkin fara með þau Kristín Þóra Haraldsdóttir, Lilja Nótt Þórarinsdóttir, Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Hildur Vala Baldursdóttir, Anna Svava Knútsdóttir, Iðunn Ösp Hlynsdóttir, Ólafur Egilsson og Mikael Kaaber.
„Við erum með frábæran hóp fólks í teyminu, en hugmyndin um fótboltaforeldra og dramatíkina sem heltekur þá hefur vaxið, dafnað og orðið að skemmtilegum heimi sem iðar af lífi. Við hjá Atlavík höfum þróað verkefnið ásamt frábærum hópi undanfarin tvö ár og hefjum tökur 14. maí. Það verður virkilega gaman að sjá þetta allt taka á sig mynd.“ - Hannes Þór Halldórsson, Atlavík.