Jón Jónsson og Olla Sigga með fótboltaskóla í Sjónvarpi Símans.
Nú geta allir fótboltakrakkar og stuðboltar komið í æfingabúðir með Jóni Jónssyni og Ollu Siggu landsliðskonu en Fótbolta-Akademían Spark var að koma í Sjónvarp Símans.
Í þáttunum er farið yfir allar undirstöður í knattspyrnu með skemmtilegum hætti, hvort sem það er boltameðferð, móttaka, sendingar, trix, skot og mörk. Hannes Þór Halldórsson er einnig gestur í sérstökum þætti um markmenn og markvörslu.
„Það er alltaf ánægjulegt að fá efni sem eflir áhuga barna á íþróttum. Við vitum hvað áhorfendur okkar eru þakklátir fyrir íslenska dagskrárgerð og vonum við að Fótbolta-Akademían eigi eftir að slá í gegn í sumar hjá ungum og upprennnandi knattspyrnustjörnum,,“ segir Eyrún Huld Harðardóttir markaðsstjóri Símans.
Gunnar Jarl Jónsson er sérstakur ráðgjafi þáttarins, þjálfari með áratuga reynslu í barna- og unglingastarfi í knattspyrnu og sér hann til þess að æfingar séu með besta móti.
Þáttaröð fyrir krakka sem vilja verða betri í fótbolta. Þættir sem gefa þeim tólin sem þau þurfa til að æfa sig heima.
Í hverjum þætti eru fræðslumolar þar sem lögð er á jákvæðar hliðar íþróttaiðkunnar sem snýr þá að næringu, svefni, andlegu hliðinni, foreldrum, ástundun og aga.
Fótbolta Akademían Spark er komin í Sjónvarp Símans.