Nú ári síðar er önnur staða komin upp og vísindamenn tala um að mögulega gæti orðið hraungos í nágrenni fjallsins Keilis. Engir fjarskiptainnviðir eru á þessu svæði svo ekki er hægt að segja að truflanir verði miklar í upphafi goss kynni það að hefjast.
Verði aftur á móti um töluvert hraunrennsli að ræða og það nái langleiðina að sjó við Reykjanesbraut eða Suðurstrandarveg gætu ljósleiðarar í jörðu skemmst vegna hita frá glóandi hrauni. Ólíklegt er að hraun renni til allra átta og skemmi þannig öfluga hringtengingu Símans á Reykjanesi, hringtengingin tryggir að þó rof verði á einum stað geti fjarskiptaumferð farið óhindruð aðra leið.
Komi til rafmagns- truflana eða leysis samfara mögulegum eldsumbrotum hefur Síminn aðgang að öflugum tækjum sem tryggja varaafl svo auðvelt verður að bregðast við og halda búnaði virkum. Einnig eru tilbúnir sérstakir farsímavagnar sem hægt er að virkja á skömmum tíma og þannig koma upp farsímasambandi verði sendar fyrir skemmdum.
Síminn er í virku samtali við yfirvöld og er hluti af fjarskiptahópi Almannavarna þar sem öllum er haldið vel upplýstum og reglulega farið yfir mögulegar sviðsmyndir. Komi til náttúruhamfara er hlutverk okkar skýrt, að tryggja fjarskipti fyrir viðbragðsaðila, vísindamenn og öll þau heimili og fyrirtæki sem verða fyrir áhrifum af þeim.