iPhone 17, iPhone Air og allt hitt!

10. september 2025

Apple sviptu hulunni af öllu því sem er á leiðinni í gær. Fjöldi nýjunga og skemmtilegra eiginleika sem ættu að gleðja Apple-aðdáendur sem endranær. Þynnsti iPhone frá upphafi, gervigreind, uppfærðar myndavélar, já og forskautað ál!

imageHero

iPhone 17

iPhone 17 er nú með minnst 256 GB geymslupláss, sem er kærkomið, ásamt nýjum öflugum A19 örgjörva. ProMotion, sem áður hefur aðeins verið í Pro- og Pro Max-línunni, er nú komið í iPhone 17 sem þýðir að endurnýjunartíðni skjásins nær allt að 120 Hz. Á mannamáli þýðir það að allar hreyfingar á skjánum verða mýkri og skarpari og skroll niður vefsíður og tölvupósta silkimjúkt, ásamt því að rafhlaðan nýtur góðs af þessari tækni.

Skjárinn er 6,3” OLED-skjár, aðeins stærri en í fyrra, og getur náð allt að 3.000 nits birtu sem gerir hann læsilegri í glampandi sól.

Myndavélarnar eru uppfærðar í 48 MP „dual-fusion“ kerfi, á meðan myndavélin að framan er 18 MP og sérstaklega hönnuð fyrir sjálfumyndir.

iPhone 17 styður Wi-Fi 7, nýjustu og öflugustu útgáfu þráðlausra neta sem í boði er í dag. Nýjustu beinar sem Síminn býður upp á styðja einmitt Wi-Fi 7 og því um frábæra tvennu að ræða.


iPhone 17 Pro og iPhone 17 Pro Max

iPhone 17 Pro og Pro Max hafa verið hönnuð frá grunni og grindin öll er úr forskautuðu áli. Hér mætir stærsta rafhlaða sem komið hefur í snjallsíma frá Apple, ásamt endurhönnuðu hitastýringarkerfi sem tryggir að símarnir geti nýtt allt það afl sem A19 Pro örgjörvinn veitir þeim.

Skjárinn er 6,3” á iPhone 17 Pro en 6,9” á iPhone Pro Max. Bakhliðin er ekki lengur varin með hertu gleri heldur keramík-skildi sem þýðir að enn meira átak þarf til að rispa hana – sem er gott.

Myndavélarnar hafa verið færðar til og eru nú á eins konar „myndavélaeyju“. Þar bætist við ný 48 MP aðdráttarlinsa sem nær fullum gæðum í fjórföldum aðdrætti og 12 MP í allt að áttföldum aðdrætti. Tvær 48 MP víð- og ofurvíðlinsur eru einnig á bakhliðinni, ásamt 18 MP linsu að framan sem er sérstaklega hönnuð til að taka upp myndir og myndbönd af þér og því sem skiptir máli hverju sinni.


iPhone Air

Apple kynnti nýjan fjölskyldumeðlim í iPhone-línunni sem ber nafnið iPhone Air. Þetta er þynnsti snjallsími sem Apple hefur hannað, aðeins 5,6 mm að þykkt og smíðaður úr títanblöndu, sömu og notuð er í geimför. Keramík-skjöldur er bæði á bakhlið og á 6,5” skjánum að framan, sem styður ProMotion og nær upp í 3.000 nits birtu.

iPhone Air er knúinn áfram af A19 Pro örgjörvanum frá Apple ásamt N1 kubbi sem veitir Wi-Fi 7 og Bluetooth 6.

Myndavélin virðist vera stök, en það er hún ekki. Hún skartar 48 MP Fusion-linsu ásamt 12 MP aðdráttarlinsu. Rafhlaðan í þessum þynnsta iPhone hingað til er sögð endast allan daginn, og tækið lærir á notkun þína yfir daginn til að stilla sjálft af hvað þarf og hvað ekki, þannig að rafhlaðan nýtist sem best.

Vert er að taka fram að iPhone Air styður eingöngu eSIM og er ekki með SIM-korta rauf. Það þýðir að nota þarf Auðkennis-appið fyrir rafræn skilríki.


AirPods Pro 3

Sum okkar hafa beðið lengi eftir uppfærslu á AirPods Pro, enda liðin þrjú ár síðan síðasta útgáfa kom út. Þau líta kannski út eins og áður en fela í sér miklar nýjungar. Hljómgæðin eru að sjálfsögðu uppfærð og innvolsið hefur verið hannað upp á nýtt til að veita betri hljóm.

ANC-tæknin, sem dregur úr umhverfishljóðum, er orðin enn betri svo þú nýtur tónlistarinnar eða símtalanna enn betur. AirPods Pro 3 eru einnig frábær félagi í ræktina, með innbyggðum hjartsláttarnema þökk sé nýjum snjallnemum í þessum litlu heyrnartólum.

Gervigreindin er svo mætt: heyrnartólin geta þýtt talað mál í kringum þig á fjölda tungumála, ásamt því að þýða það sem þú segir til baka og sýna svarið á símanum þínum.


Apple Watch

Þrjú ný snjallúr voru kynnt til leiks á þessum yfir klukkustundar langa viðburði, og þar má finna eitthvað fyrir öll.

Apple Watch SE er grunnútgáfa snjallúrs frá Apple, gerir allt þetta helsta en ekki alveg allt eins og stóru systkini þess, nú með S10 örgjörva sem er kærkomið stökk, möguleiki á 5G, hraðari hleðsla og nokkrir nýir eiginleikar þegar kemur að heilsu og svefni.

Apple Watch Series 11 er svo þynnsta og endingarbesta snjallúr Apple hingað til ásamt því að 5G er mætt til leiks í fyrsta sinn. Innvolsið er endurhannað og á að skila betri nýtingu rafhlöðu sem þýðir allt að 24 tíma ending hennar sem er jákvætt stökk. Apple hefur beint sjónum sínum að heilsu enn frekar og kynnir til leiks blóðþrýstingsmælingar með bættum púlsmæli og algrímum.

Stóri bróðir Apple-snjallúranna er svo Apple Watch Ultra 3 sem kynnt var með stærri og betri skjá sem meira að segja getur hoppað á milli hertz-a og þannig stillt af endurnýjunartíðni skjásins eins og snjallsímar og þannig sparað rafhlöðuna þó að allt sé á fleygiferð á skjánum.

Úrið styður 5G sem og gervihnattatengingar sem hægt er að nýta á fáförnum slóðum og hægt er að kalla eftir aðstoð ef þarf á að halda. Rafhlaðan hefur einnig verið efld og eins og alltaf eru nýjungar er snúa að hreyfingu, almennri heilsu og svefni.

Sem fyrr er Apple Watch Ultra fyrir þau allra kröfuhörðustu sem nýta snjallúr við alls konar aðstæður þar sem veðrið spilar stórt hlutverk, það þolir meira og er hannað fyrir bras og brall.