Stella Blómkvist snýr aftur í Sjónvarp Símans Premium
Fyrsta þáttaröðin af Stellu Blómkvist fékk gríðarlega góðar viðtökur í Sjónvarpi Símans Premium haustið 2016 og var þá fyrsta leikna íslenska þáttaröðin til að vera aðgengileg í heilu lagi á streymisveitu á Íslandi. Stella Blómkvist snýr nú aftur á skjáinn í glænýrri þáttaröð þar sem við fylgjum sem fyrr eftir andhetjunni, tálkvendinu og lögfræðingnum Stellu Blómkvist, sem fetar sínar eigin slóðir. Í starfi sínu sem lögfræðingur vílar hún ekki fyrir sér að beita brögðum til að fá sínu framgengt og tekur að sér snúin mál þar sem hún sér möguleika á að uppræta spillingu og glæpi hjá einstaklingum í valdastöðum.
Nú, tveimur árum eftir örlagaríku atburðina í Stjórnarráðinu úr fyrstu þáttaröðinni er Stella Blómkvist enn að harka sem lögfræðingur. Dagbjört er forsætisráðherra eftir afgerandi kosningasigur og við blasir gjörbreytt Ísland. Líkt og í fyrri þáttaröð þarf Stella að leysa þrjú ólík mál með aðstoð vina sinna Gunnu og Ragga en fyrr en varir sogast hún aftur inn í siðspillta hringiðu glæpa og stjórnmála, þar sem hún neyðist til að takast á við hættulegri og samviskulausari andstæðinga en hún hefur áður kynnst.
Þættirnir eru sex talsins og eru þeir byggðir á samnefndum glæpasögum eftir höfund sem skrifar undir dulnefninu Stella Blómkvist.