Síminn hf. hefur undirritað kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í Noona Iceland ehf., sem heldur utan um innlendan rekstur Noona Labs ehf. Í framhaldinu mun dótturfyrirtæki Símans, Síminn Pay, stýra sameiginlegum rekstri fyrirtækjanna ásamt því að þróa nýjar lausnir Símans Pay inni í vistkerfi Noona, viðskiptavinum til hagsbóta.
„Með kaupum Símans á einu öflugasta markaðstorgi Íslands, Noona, teljum við Símasamstæðuna styrkja sig enn frekar sem eitt öflugasta þjónustufyrirtæki landsins. Við munum reka Símann Pay og Noona á Íslandi saman til að bjóða viðskiptavinum beggja fyrirtækja upp á enn betri þjónustu og upplifun” segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.
Noona var valin vinsælasta vefþjónusta landsins í árlegri mælingu Maskínu og var valið app ársins 2023. Lausnir Noona og SalesCloud voru nýlega samþættar og bjóða nú upp á bókunarkerfi fyrir þjónustuaðila og veitingastaði, sölukerfi, gjafabréfalausnir, sjálfsafgreiðslulausnir, netsölulausnir, vefsíður, lagerkerfi, viðskiptamannakerfi, stimpilklukku, markaðssetningarkerfi og fleira.
„Markmiðin með kaupunum eru einföld”, segir Gunnar Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Símans Pay. „Í fyrsta lagi ætlum við að auka enn frekar úrval þeirra fyrirtækja sem hægt er að stunda viðskipti við í gegnum Noona appið sjálft og halda þannig áfram frábærri vinnu Noona undanfarin ár. Í öðru lagi munu þessi viðskipti koma til með að bæta enn frekar þjónustu við viðskiptavini Noona og SalesCloud í heild, sem munu fljótt finna fyrir því að vera komin inn til þessarar sterku stafrænu þjónustusamstæðu sem Síminn og dótturfélög mynda. App Noona heldur áfram í óbreyttri mynd og við munum reka Noona og SalesCloud áfram undir eigin vörumerkjum. Sama öfluga teymið og stofnaði Noona heldur áfram að vinna með okkur, bæði að vöruþróun og við að þjónusta viðskiptavini”, segir Gunnar, en hann verður samhliða framkvæmdastjórastöðu sinni í Símanum Pay jafnframt nýr framkvæmdastjóri Noona Iceland ehf.
Á komandi misserum mun samþætting við lausnir Símans Pay leiða af sér nýjar vörur og þjónustu sem hafa það að markmiði að létta viðskiptavinum Noona og SalesCloud reksturinn.
Noona Iceland veitir um 1.300 fyrirtækjum á Íslandi þjónustu í dag og fjölgar þeim ört. Viðskiptavinir SalesCloud voru um 300 talsins við sameiningu félagsins við Noona fyrir nokkrum vikum. Yfir 120.000 Íslendingar hafa sótt Noona appið og yfir 200.000 bókanir eiga sér stað á hverjum mánuði í gegnum kerfi Noona á Íslandi. Samanlagt voru Noona og SalesCloud með ríflega 300 milljónir króna í árstekjur árið 2023 á Íslandi.
Seljandi Noona Iceland er Noona Labs, sem mun áfram eiga hugverkin að baki Noona og SalesCloud og heldur áfram þróun þess á Íslandi og heimsvísu þar sem stefnt er á áframhaldandi vöxt. Til viðbótar við Ísland eru lausnir Noona notaðar af viðskiptavinum í 18 löndum.
„Þrátt fyrir að Noona Labs horfi nú út fyrir landsteinana mun Noona Iceland áfram vinna náið með stofnendunum, þeim Kjartani Þórissyni og Jóni Hilmari Karlssyni, og öllu því öfluga fólki sem vinnur hjá Noona Labs, við að þróa og bæta vörur fyrirtækisins“, segir Gunnar Hafsteinsson, framkvæmdarstjóri Síminn Pay.
„Við fögnum þessu öfluga samstarfi við Símann. Í þessum nýja búningi verður hægt að taka næstu stóru skref við uppbyggingu Noona, sem leikur orðið lykilhlutverk í fjölbreyttum viðskiptum landsmanna. Við erum hrikalega spennt fyrir framhaldinu og hlökkum til að halda áfram að þjónusta íslensk fyrirtæki í samstarfi við Símann. Við trúum því að þetta samstarf muni leiða til þess að markaðstorg Noona og vöruframboðið okkar í heild muni styrkjast enn frekar,“ segir
Kjartan Þórisson, framkvæmdarstjóri Noona Labs.
Viðskiptin eru háð hefðbundnum fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.