Síminn og Rafíþróttasamband Íslands (RÍSÍ) hafa tekið höndum saman og ætla sér að breyta landslagi rafíþrótta á Íslandi í sameiningu.
RÍSÍ mun þannig nýta sér sjónvarpsdreifikerfi Símans til að koma sinni dagskrárgerð beint heim í stofu eða snjalltæki alls áhugafólks um rafíþróttir. Síminn mun auk þess styðja við markaðssetningu og kynningarstarfsemi RÍSÍ og auðvelda aðgengi að rafíþróttum.
Rafíþróttasamband Íslands er samband rafíþrótta- og íþróttafélaga á Íslandi. Sambandið hefur frá 2018 verið stærsti mótshaldari landsins á sviði rafíþrótta.
„Rafíþróttir hafa verið í miklum vexti á heimsvísu. Það er ánægjulegt að taka þetta skref núna með Símanum og hlakkar okkur til samstarfsins. Munum við fara með nokkuð stærri sjónvarsdagskrá í loftið í haust sem inniheldur meðal annars Skák sem mun fela í sér útsláttarkeppni í hraðskák og tölvuleiknum Fortnite sem er í miklum vexti á Íslandi” segir Jökull Jóhannsson framkvæmdastjóri RÍSÍ og fyrrum atvinnumaður í rafíþróttum.
„Rafíþróttir hafa skotist upp á stjörnuhimininn síðan Síminn hélt fyrsta rafíþróttamót landsins, Skjálfa árið 1998. Með þessu nýja samstarfi við RÍSÍ tökum við saman næstu skref og styðjum áframhaldandi vöxt rafíþrótta á Íslandi. Rafíþróttir eru stór og mikilvægur hluti af íþrótta- og tómstundalífi Íslendinga og útsendingar frá þeim eru ekki bara vinsælt sjónvarpsefni heldur líka frábær afþreying.“ segir Birkir Ágústsson dagskrárstjóri innlendrar dagskrárgerðar hjá Símanum og fyrrum keppandi í Quake.