Þriðja ísöldin nálgast
07. ágúst 2025
Föstudaginn 15. ágúst fer í loftið þriðja þáttaröðin af hinni geysivinsælu þáttaröð IceGuys en það var ljóst í lokaþætti annarrar þáttaraðar að meira væri á leiðinni en alveg óljóst hvað.
„Það er eitthvað svo sérstakt við það þegar næsta IceGuys-ævintýri nálgast enda er þetta ein af okkar allra vinsælustu seríum frá upphafi. Það sést svart á hvítu þegar við horfum á áhorfsmetin sem hafa fallið hvert á fætur öðru á milli seríu 1 og 2. Núna er komið að því að strákasveitin og umboðsmaðurinn leiti á vit nýrra ævintýra og við getum alveg lofað því að þetta verði eitthvað sem áhorfendur eiga ekki von á“ segir Birkir Ágústsson, framkvæmdastjóri Miðla hjá Símanum
Nú er komið að næsta kafla þar sem nýjar áskoranir og ný ævintýri bíða, þar sem meðlimir sveitarinnar landa stórum kvikmyndasamningi. Það er þó ekki alveg allt sem sýnist og áskoranirnar allt aðrar en búist var við í upphafi. Þættirnir eru sem fyrr úr smiðju Atlavíkur og fer Sólmundur Hólm Sólmundsson, oftast kallaður Sóli Hólm, með handritsskrifin í þessari þriðju og hugsanlega seinustu þáttaröð IceGuys.
„Það er komið að næsta kafla Iceguys-sögunnar og í þetta sinn tökum við óvæntan snúning þegar strákarnir fá risastóran kvikmyndasamning og takast á við nýjar áskoranir. Það var gríðarlega mikið lagt í þættina og við hlökkum mikið til að frumsýna nýju seríuna,“ segir Hannes Þór Halldórsson, leikstjóri.