Helgi Björnsson sem fylgdi þjóðinni í gegnum samkomubannið með þættinum “Heima með Helga”, ásamt Reiðmönnum vindanna, Vilborgu Halldórsdóttur og völdum gestum ætlar að snúa aftur, ásamt þessu fríða föruneyti um Verslunarmannahelgina í Sjónvarpi Símans
Sjónvarp Símans hefur sett tvær kvöldskemmtanir á dagskrá og ef veðrið spilar með, þá verður sent út úr garðinum hans Helga en annars verður söðlað um og farið inn í stofu en það gildir þó einu því stemmningin verður á sínum stað og eins og allir vita þá finnst Helga rigningin góð.
Helgi hefur farið um landið síðusta mánuð og skemmt landsmönnum augliti til auglitis og uppselt var á alla fjórtán tónleikanna þeirra. „Við fengum svo falleg viðbrögð við tónleikaferðinni, eins og þáttunum að maður fyllist auðmýkt. Nánast allstaðar þar sem ég fer fæ ég ítrekaðar óskir um að endurtaka leikinn. Þannig að núna þegar þessi Verslunarmanna-Helga hugmynd kom upp þá er ekki hægt annað en að segja já,“ segir Helgi brosandi. “Það verður sumarbragur á þessum þáttum, og gestakomur leyndó þangað til við teljum í”
Þættirnir verða í beinni útsendingu og opinni dagskrá laugardaginn 1. ágúst og sunnudaginn 2. ágúst. Partýið verður sýnt í beinni útsendingu og opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans, á Mbl.is og í útvarpinu á K100 en þar verður talið í hverja dægurperluna á fætur annarri auk þess sem valinkunnir gestir ljá söngveislunni rödd sína.