Skilmálar fyrir Síminn Pay

Persónuverndarstefna og skilmálar fyrir SíminnPay. SíminnPay er greiðslulausn sem Síminn býður í formi Apps (snjallforrits) á Google Play og í Apple App Store. 

 

Skilmálar

1. Almennt

Með því að skrá sig sem notanda í SíminnPay og staðfesta að viðkomandi hafi kynnt sér, skilið og samþykkt neðangreinda skilmála hefur viðkomandi undirgengist skilmála Símans hf., kt. 460207-0880, Ármúla 25, 108 Reykjavík, (hér eftir „Síminn“), eins og þeir eru á hverjum tíma, og fela þeir í sér heildarsamning milli Símans og notanda um notkun SíminnPay (einnig vísað til sem „samningsins“). 

Lausnin SíminnPay hefur verið hönnuð og þróuð í samstarfi við Advania Mobile Pay ehf. (hér eftir „AMP“).

Í skilmálum þessum er einnig vísað til lausnarinnar Síminn Pay sem „lausnarinnar“, „SíminnPay“ og/eða „Appsins“. 

Notandi skal kynna sér vandlega skilmála þessa áður en stofnaður er aðgangur í SíminnPay og er samþykki skilmálanna forsenda þess að notandi megi og geti notað lausnina. Óski notandi eftir hliðræðu afriti af skilmálum þessum skal notandi koma slíkri beiðni á framfæri við Símann. Notandi er jafnframt hvattur til að vista afrit af þeim skilmálum sem hann samþykkir áður en hann byrjar að nota SíminnPay. 

Skilmálar SíminnPay, eins og þeir eru hverju sinni, eru birtir á www.siminn.is og einnig aðgengilegir í gegnum Appið SíminnPay. Leiðbeiningar um notkunarmöguleika lausnarinnar eru að finna á www.siminn.is/pay, m.a. um hvernig notandi getur nálgast greiðslukvittun eða greiðslusögu sína. 

Almennir fjarskiptaskilmálar Símans á www.siminn.is teljast einnig hluti þessa samnings. Ef misræmi er á milli þeirra skilmála og samnings þessa skal samningur þessi ganga framar. 

Skilmálar þessir hafa ekki áhrif á þau gjöld og/eða kostnað sem notandi kann að þurfa greiða fjarskiptafélagi sínu, viðskiptabanka, kortaútgefanda sínum eða öðrum þriðju aðilum í tengslum við þjónustu umræddra aðila sem byggja á lausninni. 

1.1. Skilyrði fyrir notkun SíminnPay

SíminnPay er einungis ætluð fyrirtækjum og einstaklingum eldri en 18 ára. 

Til þess að notandi geti notað lausnina SíminnPay þarf hann að hafa:
- snjalltæki (snjallsíma eða lófatölvu) þar sem hann hefur hlaðið niður SíminnPay úr App Store, eða Google Play, 
- greiðslukort (debet- og/eða kreditkort) útgefið til handa notanda á Íslandi,
- farsímanúmer, og
- netfang

Við stofnun aðgangs í Appinu þarf notandi að skrá framangreindar upplýsingar í nýskráningarferli SíminnPay, ásamt nafni sínu og kennitölu. 
Notandi ábyrgist að upplýsingar sem skráðar eru í Appið séu alltaf réttar og varði hann sjálfan. Það er því alfarið á ábyrgð notanda að uppfæra upplýsingar um sig í Appinu þegar og ef þörf krefur. 

Sérstök athygli er vakin á því að notanda er einungis heimilt að tengja eigin greiðslukort við lausnina. Notandi lausnarinnar og korthafi viðkomandi greiðslukorts/a skal því ávallt vera sami aðili. 

Þrátt fyrir ofangreint getur annað átt við þegar um fyrirtækjakort er að ræða. Í þeim tilvikum getur notandi tengt greiðslukort lögaðila við lausnina. Það er hins vegar forsenda fyrir notkun á fyrirtækjakorti að forsvarsmaður lögaðila hafi sérstaklega samþykkt notkun á kortinu með virkjunarkóða. Hugtakið „notandi“ í skilmálum þessum skjal jafnframt eiga við um lögaðila þann sem er rétthafi fyrirtækjakortsins auk hins eiginlega notanda, eftir því sem við á.

Síminn áskilur sér rétt til að meina aðilum skráningu sem notanda í SíminnPay ef
Síminn telur slíka skráningu ekki þjóna viðskiptalegum hagsmunum Símans. 

1.2. Aðgangur notanda 

Aðgangur notanda að SíminnPay skal aðeins vera notaður af honum sjálfum og er notanda óheimilt að deila aðgangsupplýsingum með þriðja aðila eða á annan hátt veita þriðja aðila aðgang að persónulegum aðgangi sínum að SíminnPay. Notandi skal tryggja leynd aðgangsupplýsinga sinna og ber ábyrgð á hvers kyns tjóni sem kann að hljótast af því að aðgangsupplýsingar rati til þriðja aðila, hvort sem það er með vitneskju notanda eður ei.

Notandi sem auðkennir sig með réttu lykilorði, sbr. gr. 1.3., er álitinn réttur eigandi viðkomandi notendaaðgangs að SíminnPay og hefur einungis sá aðili heimild til að framkvæma aðgerðir á þeim notendaaðgangi í SíminnPay. Notandi ber ávallt fulla ábyrgð á öllum aðgerðum sem staðfestar hafa verið með framangreindum hætti í SíminnPay.

1.3. Nýskráning 

Við nýskráningu ber notanda að auðkenna sig, annað hvort með rafrænum skilríkjum í lausninni eða með notkun kóða sem notandi fær sendan í netbanka sinn. 

Að innskráningu lokinni skal notandi velja staðfestingarkóða (hér eftir „PIN-númer“) sem notandi skal nota til auðkenningar í hvert sinn sem hann greiðir með SíminnPay. 

Vegna öryggisástæðna skal notandi ekki hafa sama PIN-númer fyrir SíminnPay og hann notar sem aðgangskóða til þess að aflæsa snjallsíma sinn. PIN-númerið skal heldur ekki vera það sama og fyrir skráð greiðslukort notanda í SíminnPay. 

Notandi getur jafnframt valið á eigin ábyrgð að auðkenna greiðslur í SíminnPay með fingrafari, styðji snjalltæki notanda slíka auðkenningarleið. Notandi skal tryggja að aðeins hans fingrafar sé skráð í símtækinu vegna öryggisástæðna. Sé slík auðkenningarleið notuð er hún á ábyrgð notanda. Við notkun á fingrafari sem auðkenningarleið berast engar upplýsingar um fingrafarið til Símans.

Í þeim tilvikum sem Síminn telur þörf á, til eflingar öryggis lausnarinnar, kann notanda að vera skylt að auðkenna sig í fleiri tilvikum við notkun lausnarinnar.

1.4. Persónuvernd

Við skráningu í lausnina og notkun hennar verða til upplýsingar sem Síminn safnar og tengjast notanda, þ. á m. greiðslusaga notanda og greiðslukvittanir, sem og upplýsingar sem notandi skráir í lausnina, sbr. gr. 1.1. og 1.3. Þessar upplýsingar teljast til persónugreinanlegra upplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga („persónuverndarlög“). Áréttað er að greiðslukortaupplýsingar eru aldrei aðgengilegar Símanum.

Í Persónuverndarstefnu SíminnPay, sem aðgengileg er á vefsíðu www.siminn.is/pay og í Appinu, er að finna nánari upplýsingar um hvernig unnið er með þær upplýsingar sem safnast við skráningu í lausnina og notkun hennar. Persónuverndarstefna þessi skal teljast hluti af samningi þessum og skal notandi því kynna sér hana vel áður en hann hefur notkun á lausninni.

Nánari upplýsingar um þær öryggisráðstafanir sem Síminn notar til að vernda persónuupplýsingar notenda SíminnPay eru að finna í gr. 6.

1.5. Kvittanir söluaðila

Í hvert sinn sem notandi greiðir fyrir vörur eða þjónustu með lausninni mun Síminn óska eftir afriti af greiðslukvittun frá viðkomandi söluaðila í þeim tilgangi að geta birt notanda kvittunina í SíminnPay. 

Hafi notandi samþykkt það sérstaklega í Appinu getur hann einnig fengið greiðslukvittanir sínar birtar í SíminnPay þótt hann hafi ekki notað SíminnPay við framkvæmd greiðslu, svo lengi sem hann greiddi með greiðslukorti sem skráð er í SíminnPay. Slíkt er einungis mögulegt þegar um greiðslu hjá söluaðila er að ræða sem býður upp á greiðsluúrræði SíminnPay.

2. Notkun lausnarinnar

2.1. Notkunarmöguleikar

Með SíminnPay getur notandi greitt fyrir vöru og/eða þjónustu á sölustað sem býður upp á greiðslur með SíminnPay.

Hafi notandi skráð fleiri greiðslukort í SíminnPay er það alfarið á ábyrgð notanda að gæta þess að velja rétt greiðslukort við hverja notkun á SíminnPay.

Þegar notandi velur að greiða með SíminnPay (t.d. til að greiða fyrir vöru eða þjónustu) er leitað eftir úttektarheimild fyrir upphæðinni hjá kortaútgefanda viðkomandi korts sem notandi hefur valið. Á framangreint bæði við um debet- og kreditkort. Kortaútgefandi metur hvort umbeðin úttekt sé heimiluð af greiðslukortinu. Hafni kortaútgefandi umbeðinni úttekt af greiðslukortinu er færslunni hafnað í SíminnPay.

Þegar notandi hefur auðkennt og samþykkt greiðslu með SíminnPay getur hann ekki afturkallað greiðsluna. 

Upplýsingar um greiðslusögu í SíminnPay eru aðgengilegar notanda í Appinu meðan hann hefur virkan notendaaðgang.

2.2. Óheimil notkun


Notanda er með öllu óheimilt að nota SíminnPay:

- til að áreita aðra notendur SíminnPay eða þriðju aðila;
- til að ná í fjármuni af öðru greiðslukorti en sínu eigin, eða fyrirtækjakorti sem notandi hefur fengið rétt til að nota, eða til að ná í fjármuni eða færa fjármuni með óheiðarlegum eða saknæmum hætti (eða aðstoða aðra við að gera slíkt);
- til að framkvæma aðgerðir sem brjóta gegn skilmálum þessum, lögum og/eða stjórnsýslufyrirmælum;
- til að eiga frumkvæði að, eða hafa milligöngu um, óumbeðin samskipti við einn eða fleiri notendur SíminnPay (s.k. „spam“);
- til að falsa, brjóta, breyta, skemma, trufla eða á nokkurn annan hátt, að hafa áhrif á öryggi og öryggisþætti lausnarinnar í þeim tilgangi að skoða eða misnota upplýsingar sem eru notanda óviðkomandi. Verði notandi var við veikleika í öryggisþáttum ber honum að tilkynna Símanum um það án tafar; og/eða
- til að brjóta gegn höfunda- eða hugverkarétti Símans og/eða AMP; 
Verði Síminn var við ofangreinda notkun á lausninni áskilur Síminn sér rétt til að læsa fyrirvaralaust aðgangi viðkomandi notanda að SíminnPay og rifta um leið samningi þessum, sbr. gr. 3. og 4.2. í skilmálum þessum.

2.3. Vildar- og meðlimakort söluaðila 

Í gegnum SíminnPay getur notandi sótt um og/eða virkjað vildar- og meðlimakort frá samstarfsaðilum Símans, og notið afsláttarkjara með notkun á lausninni. 
Notkun á vildar- og meðlimakortunum er háð samþykki á skilmálum samstarfsaðila Símans sem eftir atvikum eru birtir, fyrir hönd samstarfsaðila, í lausninni. 

Þegar notandi hefur skráð vildar- og/eða meðlimakort í lausnina getur hann notið þeirra afsláttarkjara sem viðkomandi söluaðilar veita með notkun á greiðslukortum þeim sem notandi hefur jafnframt skráð í lausnina.

Síminn hefur enga aðkomu að því sambandi sem stofnast milli notanda og viðkomandi söluaðila hvað varðar notkun á vildar- eða meðlimakorti þess síðarnefnda, að öðru leyti en að hafa milligöngu hvað varðar umsókn um skráningu og/eða virkjun á kortinu.

Söluaðili hefur þannig t.a.m. ákvörðunarvald yfir því hvort/hvaða afsláttarkjör skuli veita notanda á grundvelli kortsins, hvernig nota má kortið o.s.frv. Þá ber söluaðili alfarið ábyrgð gagnvart notanda komi upp ágreiningur um afsláttarkjör og virkjun á slíkum kjörum, þ.á m. hjá söluaðila og eftir atvikum þriðju aðilum. 

Um vinnslu Símans á persónuupplýsingum notanda fyrir hönd söluaðila vísast í Persónuverndarstefnu SíminnPay.

3. Læsing aðgangs

Síminn áskilur sér rétt til að læsa aðgangi notanda að SíminnPay án fyrirvara í eftirfarandi tilvikum, ef:
- notandi óskar eftir því símleiðis í síma 800-7000 (t.d. ef snjalltæki notanda hefur týnst eða ef grunur eru uppi um að þriðji aðili hafi komist yfir aðgangsupplýsingar notanda), 
- greiðslukorti notanda, sem skráð eru í SíminnPay, hefur verið lokað,
- notandi notar SíminnPay með óheimilum hætti, sbr. gr. 2.2., eða aðstoðar aðra við að gera slíkt,
- grunur er uppi, að mati Símans, um að aðgangur notanda sé notaður með saknæmum hætti, hvort sem það er af óviðkomandi aðila eða notanda sjálfum,
- aðrar ótilgreindar ástæður eru fyrir hendi sem Síminn telur nægjanlegar til að læsa aðgangi í þeim tilgangi að vernda öryggi notanda, annarra notenda og/eða Appsins, 
- Símanum er það skylt samkvæmt lögum eða fyrirmælum stjórnvalda eða dómstóla.

Við læsingu á aðgangi reynir Síminn að tilkynna notanda um læsinguna við fyrsta tækifæri, annað hvort áður eða strax eftir að aðgangur hefur verið læstur. Í tilkynningu frá Símanum er upplýst um ástæðu og tímasetningu læsingar, nema óheimilt sé skv. lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum að veita slíkar upplýsingar. Síminn áskilur sér þó rétt til að tilkynna ekki um ástæður læsingar ef Síminn telur slíkar upplýsingar geta stefnt öryggi SíminnPay eða aðgangi notandans eða annarra notenda í hættu. 

Læsing aðgangs felur ekki í sér uppsögn/riftun samnings af hálfu Símans, sbr. gr. 4, nema slíkt sé sérstaklega tekið fram. 

Upplýsingar um notanda, þ. á m. greiðslusagahans og greiðslukvittanir, varðveitast áfram í Appinu þrátt fyrir að aðgangi hans hafi verið læst, þar til samningi er sagt upp eða rift, sbr. gr. 4 og Persónuverndarstefnu SíminnPay.

4. Uppsögn samnings og lokun aðgangs

Aðgangi notanda að SíminnPay verður ekki lokað nema með uppsögn eða riftun þessa samnings. Vakin er athygli á því að læsing aðgangs, sbr. gr. 3, hefur ekki í för með sér uppsögn samnings og lokun aðgangs. 

4.1. Uppsögn af hálfu notanda

Notandi getur lokað aðgangi sínum að SíminnPay hvenær sem er, með því að eyða aðgangi sínum í Appinu (undir flipanum „Eyða aðgangi“). Með því að eyða aðgangi í Appinu er notandi um leið að segja upp samningi þessum.  Uppsögn notanda tekur gildi strax. 

Hafi snjalltæki notanda týnst eða verið stolið getur notandi tilkynnt Símanum um uppsögn í Netspjalli Símans á siminn.is eða haft samband í síma 800-7000. 

Hafi notandi sagt upp fjarskiptaþjónustu hjá sínu fjarskiptafyrirtæki hefur það ekki í för með sér uppsögn á SíminnPay. 

Vakin er athygli á að eyðing Appsins SíminnPay úr snjalltæki notanda felur ekki í sér uppsögn á samningi þessum eða eyðingu á aðgangi notandans.

Ef notandi eyðir aðgangi sínum í Appinu og segir þar með upp samningi þessum mun hann ekki lengur geta nýtt sér lausnina SíminnPay.

4.2. Uppsögn af hálfu Símans

Síminn getur sagt upp samningi þessum við notanda hvenær sem er með eins mánaðar fyrirvara. Skal slík uppsögn berast notanda skriflega, svo sem með tölvupósti. Síminn þarf ekki að tilgreina ástæðu uppsagnar, en einkum gæti uppsögn átt sér stað ef notandi brýtur gegn skilmálum SíminnPay eða öðrum viðeigandi skilmálum Símans, stofnar öryggi SíminnPay í hættu eða fylgir ekki fyrirmælum Símans. 
Að uppsagnarfresti liðnum lokast sjálfkrafa aðgangur notanda að SíminnPay. 

4.3. Riftun samnings

Síminn áskilur sér rétt til að rifta samningnum án fyrirvara og þar með eyða aðgangi notanda fyrirvaralaust, ef eitthvert neðangreindra skilyrða á við:
- notandi fer ekki eftir skilmálum þessum, lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum við notkun á SíminnPay,
- notandi fer ekki að fyrirmælum Símans við notkun SíminnPay,
- notandi hefur í frammi ógnandi hegðun gagnvart starfsfólki Símans eða öðrum notendum SíminnPay, 
- ef Símanum er það skylt skv. fyrirmælum frá stjórnvöldum eða dómstólum.

4.4. Áhrif uppsagnar/riftunar

Um varðveislu upplýsinga um notanda og greiðslusögu hans fer skv. gr. 5 í Persónuverndarstefnu SíminnPay. Ópersónugreinanleg gögn um notkun notanda á lausninni varðveitast áfram ótímabundið.

Hafi Síminn rift samningi við notanda vegna athæfis sem varðar við lög eða stjórnvaldsfyrirmæli áskilur Síminn sér rétt til að leita réttar síns eða kæra viðkomandi til lögreglu. Slíkur réttur skal einnig vera til staðar vakni grunur um saknæma háttsemi jafnvel þó svo að Síminn ákveði að rifta ekki samningi við notanda. 

5. Ábyrgð 

5.1. Ábyrgð notanda

Öll notkun SíminnPay er á ábyrgð notanda. 

Notandi ber ábyrgð á aðgangsupplýsingum sínum að SíminnPay og öryggi þeirra, sbr. gr. 6. Hið sama á við um greiðslukortaupplýsingar sem hann skráir í SíminnPay. Ber honum að koma í veg fyrir að óviðkomandi aðili komist yfir snjalltæki hans (sem tengt er SíminnPay) og aðgangsupplýsingar hans.

Hafi snjalltæki notanda týnst eða verið stolið ber notandi ábyrgð á því að biðja Símann um að læsa aðgangi sínum, sbr. gr. 3. 

Notandi ber ábyrgð á því að næg heimild/innistæða sé á greiðslukorti þegar hann framkvæmir greiðslu með SíminnPay. 

Notandi viðurkennir og samþykkir með skilmálum þessum að allar greiðslur eru óafturkræfar ef auðkenni notanda hefur verið notað til staðfestingar í SíminnPay. 

Notandi ber ábyrgð á að fylgjast með greiðslusögu sinni á SíminnPay í Appinu. Telji notandi að greiðsla hafi átt sér stað án hans heimildar og/eða án auðkenningar í SíminnPay ber honum að tilkynna Símann slíkt án tafar. Það sama á við verði notandi var við aðrar óeðlilegar hreyfingar á aðgangi sínum. Tilkynning skal senda Símanum í Netspjalli Símans á siminn.is.

5.2. Ábyrgð Símans

Komi í ljós galli í lausninni, sem veruleg áhrif hefur á virkni lausnarinnar, ber Símanum að lagfæra hann sé slíkt mögulegt. 

Verði notandi fyrir tjóni í tengslum við notkun lausnarinnar ber Síminn enga ábyrgð á slíku tjóni megi rekja það til vanrækslu notanda eða brota hans á skilmálum þessum. Það sama á við hafi notandi notað lausnina með saknæmum eða ólögmætum hætti eða hafi notandi veitt þriðja aðila aðgang að SíminnPay. 

Síminn ber ekki ábyrgð á að vinnsla í lausninni stöðvist tímabundið. Þá ber Síminn enga ábyrgð á þeim vörum/þjónustu sem notandi greiðir fyrir með SíminnPay, þeirri færsluhirðingu sem á sér stað í tengslum við notkun SíminnPay, réttleika þeirra gagna sem berast frá söluaðila, eða annarra atvika sem tengjast þjónustu þriðju aðila eða atriðum sem notandi lausnarinnar ber sjálfur ábyrgð á samkvæmt skilmálum þessum. Það sama á við um ábyrgð á tjóni sem rekja má til sambandsleysis eða rofa á fjarskiptum. 

Síminn ber í engu tilviki ábyrgð á öðru en beinu tjóni notanda. Þannig ber Síminn ekki ábyrgð á rekstrartapi notanda og/eða þriðja aðila, né heldur afleiddu tjóni slíkra aðila, þ.m.t. glötuðum ágóða eða ráðgerðum sparnaði, hvort sem tjónið er rakið til galla, skemmda eða eyðileggingar á lausninni eða til annarra ástæðna, jafnvel þó að Símanum hafi verið tilkynnt um möguleikann á slíku tjóni. 

Í öllum tilvikum skal ábyrgð Símans, þ.á m. vegna hvers konar mistaka, villna, vanrækslu (svo sem í tengslum við öryggisráðstafanir), truflana, tafa, tjóns eða galla á lausninni, takmarkast við kr. 200.000, að því marki sem heimilt er á grundvelli ófrávíkjanlegra laga.

Ef Síminn getur ekki uppfyllt skyldur sínar vegna neyðarréttarlegra eða óviðráðanlegra atvika (force majeure) falla skuldbindingar hans, þ.m.t. möguleg bótaábyrgð, niður á meðan slíkt ástand varir.

6. Öryggi SíminnPay 


6.1. Öryggisráðstafanir á ábyrgð notanda

Notandi ber ábyrgð á að gæta öryggis aðgangsupplýsinga sinna að SíminnPay, svo sem PIN-númeri sínu. Notandi skal eftir fremsta megni reyna koma í veg fyrir misnotkun á aðgangi hans að SíminnPay, t.d. með því að veita aldrei þriðja aðila aðgang að snjalltæki sínu þar sem SíminnPay er aðgengilegt eða með því að læsa snjalltæki með kóða eða takkalæsingu. Notandi á ekki að upplýsa aðra um slíka aðgangskóða. 

Gruni notanda að aðgangsupplýsingum hans, t.d. PIN-númeri, hafi verið stolið eða þær notaðar í leyfisleysi af þriðja aðila, ber notanda að breyta PIN-númeri sínu án tafar og hafa samband við Símann. 

Ef símtækið, sem notandi hefur til umráða til að nýta SíminnPay, tapast eða er stolið ber notanda að læsa aðgangi sínum með því að tilkynna atvikið til Símans um leið, sbr. gr. 3.

Greiðsla, sem framkvæmd hefur verið með SíminnPay og sem hefur verið auðkennd með réttum upplýsingum frá notanda, telst gild og samþykkt af notanda. Ef annar aðili hefur aðgang að þessum upplýsingum og tekst að komast í gegnum auðkennis- og öryggisathugun að aðgangi notanda, áskilur Síminn sér rétt til að líta svo á að greiðslur sem kunna að vera framkvæmdar með SíminnPay séu samþykktar af notanda og ábyrgist félagið ekki tjón sem af þeim hlýst.

6.2. Öryggisráðstafanir Símans

Telji Síminn að gögn og upplýsingar bendi til þess að greiðsla, sem notandi hefur tilkynnt sem ranga, hafi í raun verið samþykkt og staðfest af notanda eða með réttum öryggisupplýsingum notanda, áskilur Síminn sér rétt til að bakfæra leiðréttingu sem kann að hafa farið fram á grundvelli tilkynningar notanda um meinta óheimila greiðslu.
Einnig kann aðgangi notanda að SíminnPay að verða læst tímabundið, ef Síminn telur ástæðu til, svo sem ef Síminn telur vafa leika á auðkenningu notanda. Hið sama á við um notkunarmöguleika notanda í Appinu.

Síminn gætir öryggis SíminnPay með m.a. eftirfarandi ráðstöfunum:
- ekki eru vistaðar eða aðgengilegar greiðslukortaupplýsingar notanda hjá Símanum, 
- öll samskipti í SíminnPay eru dulkóðuð,
- allar upplýsingar um notendur SíminnPay og notkun þeirra í Appinu eru varðveittar í öruggu hýsingarumhverfi hjá Símanum á Íslandi sem vottað er skv. upplýsingaöryggisstaðlinum ISO 27001, og
- upplýsingar um notanda verða ekki afhentar eða unnar af þriðja aðila nema skv. skýrri lagaheimild, ákvörðun stjórnvalda eða dómstóla, á grundvelli undirritaðs vinnslusamnings eða með samþykki notanda, sbr. einnig Persónuverndarstefnu SíminnPay.

7. Kostnaður

Lausnin er veitt notendum SíminnPay að kostnaðarlausu og er ekkert skráningargjald, mánaðar- eða árgjald gjaldfært vegna notkunar á SíminnPay Appinu. Engin þóknun er gjaldfærð þegar greiðsla er framkvæmd með SíminnPay.

Notandi ber eftir sem áður ábyrgð á greiðslu gjalda vegna fjarskiptaþjónustu sem hann kaupir frá sínu fjarskiptafélagi vegna notkunar á snjalltæki sínu, t.d. notkun á gagnamagni. Hið sama á við um gjöld sem viðskiptabanki, kortaútgefandi eða færsluhirðir notanda kann að gjaldfæra notanda um vegna þjónustu sem þessir aðilar veita honum, t.d. vegna notkunar á greiðslukorti notanda sem skráð er í SíminnPay.

8. Höfunda- og hugverkaréttur

Samningur þessi hefur ekki í för með sér neins konar yfirfærslu á höfunda- eða hugverkarétti frá Símanum eða AMP til notanda.

Allt innihald Appsins og vefsvæðis er í eigu Símans eða AMP, þar með talið vörumerkið SíminnPay, texti, hönnun, grafík, ljósmyndir, myndir og ritstýrt efni er varið höfundarétti.

Notanda er einungis heimilt að nýta sér upplýsingar eða efni af vefsíðu Símans eða Appinu SíminnPay til persónulegra nota í samræmi við skilmála þessa.
Dreifing, fjölföldun eða endurútgáfa af höfundavörðu efni Símans eða AMP er með öllu óheimil.

9. Breytingar

9.1. Tæknilegar breytingar eða uppfærslur

Síminn áskilur sér rétt til að gera tæknilegar breytingar eða uppfærslur á SíminnPay þegar þörf krefur, þ.á m. til að bæta lausnina. Mun Síminn tilkynna notendum um slíkar breytingar í þeim tilvikum sem þær gætu haft áhrif á notkun á SíminnPay eftir því sem unnt er. Munu tilkynningar birtast á vefsíðu Símans.

9.2. Breytingar á skilmálum SíminnPay

Síminn áskilur sér rétt til að uppfæra skilmála þessa. Nýjasta útgáfa skilmála þessa er aðgengileg á vefsíðu Símans og í gegnum Appið SíminnPay. 

Breytingar á skilmálum SíminnPay verða kynntar notendum með skriflegum hætti, svo sem með skilaboðum í gegnum Appið eða tölvupósti. Samþykki notandi ekki breytta skilmála SíminnPay getur notandi ekki lengur nýtt sér lausnina eftir að breyttir skilmálar taka gildi og verður aðgangi hans þá sjálfkrafa læst og aðgangi hans eytt að einum mánuði liðnum. 

10. Framsal

Símanum er heimilt að framselja, að hluta eða öllu leyti, réttindi sín og skyldur samkvæmt samningi þessum með tilkynningu til notanda en notanda er það óheimilt án samþykkis Símans. Þá er Símanum heimilt að útvista verkefnum í tengslum við samning þennan, að hluta eða öllu leyti, til þriðja aðila, í samræmi við heimildir laga.

11. Samskipti við notanda

Síminn áskilur sér rétt til að senda notanda skilaboð sem tengjast notkun eða virkni SíminnPay, svo sem með því að senda tölvupóst, SMS eða skilaboð í gegnum Appið. 
Síminn mun ávallt óska eftir sérstöku samþykki fyrir að mega hafa samband við notanda í markaðslegum tilgangi, svo sem til að senda skilaboð um aðrar þjónustur og/eða vörur Símans. Unnt er að afturkalla slíkt samþykki hvenær sem er.

12. Ábendingar og kvartanir

Óski notandi þess að koma á framfæri ábendingu eða kvörtun vegna SíminnPay er unnt að hafa samband í Netspjallið á siminn.is eða með því að hafa samband í síma 800-7000.

12.1. Ágreiningsmál milli notenda

Komi upp ágreiningur milli notenda SíminnPay, hvort sem er í samskiptum milli þeirra eða viðskiptum sem tengjast notkun á SíminnPay, ber notendum að reyna ná sátt sín á milli. 

Síminn ber enga ábyrgð á ágreiningi milli notenda SíminnPay og verður ekki milligönguaðili vegna slíks ágreinings.

12.2. Ágreiningur milli notanda og söluaðila/færsluhirðis/kortaútgefanda

Síminn ber ekki ábyrgð á ágreiningi milli notanda og söluaðila og/eða þess færsluhirðis sem þjónustar viðkomandi söluaðila, sbr. einnig gr. 5.2. 

Jafnframt ber Síminn ekki ábyrgð á virkni, útgáfu eða greiðsluheimild þess greiðslukorts sem notandi SíminnPay skráir í lausnina. Ágreining um slík atriði þarf að bera undir kortaútgefanda greiðslukortsins.

13. Annað 

Síminn áskilur sér rétt til að hætta að bjóða lausnina SíminnPay hvenær sem er án sérstakra skýringa. Komi til þess verður notendum tilkynnt um það með hæfilegum fyrirvara.

14. Lögsaga og varnarþing

Um skilmála þessa og lausnina SíminnPay gilda íslensk lög.
Rísi ágreiningur milli notanda og Símans vegna lausnarinnar SíminnPay, sem ekki reynist unnt að leysa með farsælum hætti milli aðila, skal reka málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. 

15. Gildistími
Skilmálar þessir eru gefnir út af Símanum hf. og gilda frá 22. febrúar 2018 og til þess tíma er nýir skilmálar taka gildi.

 

Persónuverndarstefna

1. Vinnsla Símans 

Við stofnun aðgangs í smáforriti SíminnPay („Appið“) og við notkun lausnarinnar er unnið með persónugreinanlegar upplýsingar notanda eins og nánar er kveðið á um í stefnu þessari. 

Öll vinnsla á persónuupplýsingum, þ.m.t. öflun, skráning, vistun og meðferð þeirra á vegum Símans, lýtur lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og öðrum reglum sem settar hafa verið á grundvelli persónuverndarlaga („persónuverndarlög“). 

Síminn gætir þess að þeir þættir vinnslunnar sem Síminn hefur með höndum, sem ábyrgðaraðili vinnslu, í tengslum við notkun lausnarinnar séu í samræmi við slíka löggjöf. 

Síminn kemur fram sem vinnsluaðili í tengslum við þá vinnslu persónuupplýsinga sem tengist vildar- og meðlimakortum samstarfsaðila Símans, en um þá vinnslu er kveðið á um í 9. gr. í stefnu þessarar. 

2. Persónuupplýsingar sem safnað er

Við stofnun aðgangs í Appinu þarf notandi að skrá upplýsingar um nafn, kennitölu, símanúmer og netfang sitt. Notandi hefur val um hvort hann skrái greiðslukortanúmer (debet- og/eða kreditkort) í lausnina, en nauðsynlegt er að skrá slíkar upplýsingar til þess að geta greitt með lausninni. Notandi ber ábyrgð á réttleika þeirra upplýsinga sem hann skráir í Appið hverju sinni. Greiðslukortaupplýsingar sem notandi skráir eftir atvikum í Appið eru ekki aðgengilegar eða vistaðar hjá Símanum. 

Við notkun lausnarinnar eru allar aðgerðir notanda í Appinu skráðar og vistaðar hjá Símanum í þeim tilgangi að geta stofnað aðgang fyrir notanda, til að geta veitt honum lausnina á grundvelli samnings milli notanda og Símans, til að geta sannreynt og staðfest þær aðgerðir sem notandi nýtir sér með SíminnPay, til að halda utan um greiðslusögu notanda og til að tryggja öryggi, þ.m.t. rekstrarlegt öryggi, lausnarinnar. 

Við framkvæmd greiðslu með lausninni eru vistaðar hjá Símanum upplýsingar um dagsetningu, tímasetningu og upphæð greiðslu og heiti söluaðila. Þá safnast einnig afrit af greiðslukvittunum notanda frá söluaðila í Appið. Hafi notandi samþykkt það sérstaklega verða jafnframt aðgengilegar greiðslukvittanir söluaðila án þess að hann hafi notað SíminnPay við framkvæmd greiðslunnar, svo lengi sem hann greiddi með greiðslukorti sem skráð er í SíminnPay. 

Við notkun á Appinu safnast og vistast sjálfkrafa hjá Símanum eftirfarandi upplýsingar um símtæki notanda í þeim tilgangi að afla vitneskju um notkun á lausninni svo Síminn geti aðlagað lausnina betur að þörfum notanda hennar, ásamt því að hafa til staðar rekjanleika aðgerða sem notandi grípur til með notkun á lausninni: 
- tegund og útgáfa stýrikerfis,
- IP-tölu notanda, 
- einkvæmt auðkenni notanda og símanúmer, og
- upplýsingar um hvort kveikt sé á Bluetooth í símtæki notanda.

Í því skyni að geta haldið utan um tölfræðiupplýsingar um notendur lausnarinnar safnar Síminn upplýsingar um kyn, fjölskyldustærð og hjúskaparstöðu notenda. Þessar upplýsingar eru fengnar frá Þjóðskrá, en upplýsingarnar eru gerðar ópersónugreinanlegar um leið og þeirra hefur verið aflað. Síminn vinnur þannig ekki með upplýsingarnar í persónugreinanlegu formi í öðrum tilgangi en að geta safnað tölfræðiupplýsingum um notendur, til notkunar í skýrslugerð og í þeim tilgangi að greina markhópa. Vinnslan byggist á lögmætum hagsmunum Símans. 

Nánari upplýsingar um upplýsingasöfnun Appsins eru aðgengilegar hérna.

Með sérstöku samþykki frá notanda kann Símanum jafnframt að vera heimilt að greina upplýsingar um notkun notanda á lausninni með nánari hætti, þ.m.t. greiðslukvittanir sem aðgengilegar eru notanda í Appinu, svo sem til að veita notanda einstaklingsmiðaða þjónustu og/eða tilboð á grundvelli notkunar á lausninni.  

3. Tilgangur vinnslu 

Síminn aflar, skráir og vistar upplýsingarnar í þeim tilgangi að stofna aðgang fyrir notanda, til að gera notanda kleift að nýta hugbúnaðarlausnina á grundvelli skilmála SíminnPay, til að geta haldið utan um notkunarsögu notanda á lausninni, til að tryggja öryggi hennar og veita réttum notanda upplýsingar um rétta notkun, t.d. til að sannreyna hvort tiltekin greiðsla hafi átt sér stað á vegum notanda. Þá eru upplýsingarnar notaðar til að tryggja gæði og virkni lausnarinnar og ef þörf krefur vegna stoðþjónustu og bilanagreiningu. 

Þá mun Síminn nota upplýsingarnar til að geta sett sig í samband við notanda í viðskiptalegum tilgangi, þ.á m. í þeim tilgangi að tilkynna notanda um breytingar á lausninni, svo sem á virkni hennar eða stillingum. 

Síminn mun ekki nota upplýsingarnar í öðrum tilgangi án þess að afla sérstaklega samþykkis notanda fyrir slíkri vinnslu, svo sem til að hafa samband við notanda í markaðslegum tilgangi. 

4. Viðtakendur upplýsinga

Þær upplýsingar sem safnast við notkun lausnarinnar eru vistaðar hjá eða á vegum Símans á Íslandi. 

Advania MobilePay ehf. („AMP“) telst vinnsluaðili Símans í tengslum við þá vinnslu sem fer fram í lausninni í skilningi persónuverndarlaga og hefur Síminn sannreynt að AMP geti framkvæmt viðeigandi öryggisráðstafanir við hýsingu upplýsinganna og hefur Síminn gert skriflegan vinnslusamning við AMP. 

Vinnsla AMP á upplýsingunum felst í því að tryggja virkni lausnarinnar, öryggi upplýsinganna, hýsa upplýsingarnar, tengja lausn og upplýsingar sem safnast úr snjallsímum við greiðslukvittanir frá söluaðilum og eftir atvikum þriðju aðilum (t.d. færsluhirðum) og sjá um að eyða upplýsingum á grundvelli fyrirmæla Símans þar um.

Þá kann Síminn eftir atvikum að þurfa veita notendum stoðþjónustu eða bilanagreiningu, sé um það samið, og í slíkum tilvikum kann Síminn að leita aðstoðar frá AMP.  

Hvorki Síminn né AMP munu nota upplýsingarnar í öðrum tilgangi eða afhenda þær þriðja aðila (t.d. söluaðila), að lögreglu frátalinni, nema á grundvelli lagaheimildar, stjórnvaldsfyrirmæla, dómsúrskurðar eða samþykkis notanda. Síminn áskilur sér þó rétt til að afhenda þriðja aðila ópersónugreinanlegar upplýsingar um notkun lausnarinnar, sbr. gr. 9 neðar.

Í þeim tilvikum þegar notandi óskar eftir að skrá fyrirtækjakort í lausnina mun Síminn senda skilaboð á reikningshafa með upplýsingum um að notandi hafi óskað eftir að virkja kortið. Heimili reikningshafi slíka notkun getur hann sent virkjunarkóða á notanda.

5. Varðveislutími

Allar upplýsingar eru vistaðar á meðan notandi telst enn vera notandi SíminnPay. 

Í kjölfar uppsagnar/riftunar á samningi notanda og Símans er greiðslusaga notanda og greiðslukvittanir varðveittar í 90 daga frá lokun notandaaðgangs notanda, einkum í þeim tilgangi að tryggja réttleika og rekjanleika gagna, nema lög, stjórnvaldsfyrirmæli eða dómstólar krefjist annars. Notandi getur óskað eftir eyðingu upplýsinga fyrir það tímamark með skriflegri beiðni til Símans. 

6. Nákvæmni og áreiðanleiki upplýsinga

Síminn mun gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að persónuupplýsingar sem félagið safnar við notkun notanda á lausninni séu áreiðanlegar og uppfærðar þegar þörf krefur. Séu persónuupplýsingar óáreiðanlegar mun Síminn, með hliðsjón af tilgangi vinnslunnar, gera viðeigandi ráðstafanir til þess að þær verði leiðréttar eða þeim eytt. 

7. Öryggi upplýsinga 

Síminn mun gera viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir til að tryggja öryggi persónuupplýsinga, m.a. með það að markmiði að koma í veg fyrir mannleg mistök, þjófnað, svik eða aðra misnotkun á upplýsingum, sbr. einnig gr. 6. í skilmálum SíminnPay. Síminn mun takmarka aðgang að upplýsingum við þá starfsmenn sem nauðsynlega þurfa slíkan aðgang til að ná fram tilgangi vinnslunnar. 

Starfsmenn Símans eru upplýstir um skyldu þeirra til að viðhalda trúnaði og öryggi persónuupplýsinga. 

8. Réttindi notanda 

Notandi hefur rétt til andmæla söfnun Símans á persónuupplýsingum telji hann að slík söfnun sé ekki í samræmi við tilgang hennar, að meðalhófs sé ekki gætt eða ef hann telur að sama árangri sé hægt að ná með mildari aðferðum. Þá getur notandi óskað eftir því að fá upplýsingar um þá vinnslu sem á sér stað hjá Símanum um hann, enda standi hagsmunir annarra því ekki í vegi. Sé aðgangur veittur skal hann veittur eins fljótt og auðið er og eigi síðar en innan eins mánaðar frá móttöku slíkrar beiðni. 

Notandi kann jafnframt að eiga rétt til að krefjast þess að röngum, villandi eða ófullkomnum persónuupplýsingum um sig verði leiðréttar og/eða þeim eytt. 

9. Vildar- og meðlimakort samstarfsaðila 

Í gegnum SíminnPay getur notandi sótt um og/eða virkjað vildar- og meðlimakort frá samstarfsaðilum Símans, og notið afsláttarkjara þeirra með notkun á lausninni. Samband það sem stofnast milli notanda og söluaðila hvað varðar notkun á vildar- og/eða meðlimakortinu er Símanum alfarið óviðkomandi, að öðru leyti en því að Síminn tekur að sér milligöngu hvað varðar viðtöku á umsókn notanda um útgáfu eða virkjun á korti og sér til þess að notandi njóti viðeigandi afsláttarkjara sem samstarfsaðili hefur ákveðið. 

Í tengslum við þessa milligöngu Símans mun félagið vinna ákveðnar persónuupplýsingar fyrir hönd viðkomandi samstarfsaðila. Síminn er þannig í hlutverk vinnsluaðila hvað varðar þá vinnslu og samstarfsaðilar þeir sem gefa út viðkomandi kort í hlutverki ábyrgðaraðila. Síminn mun eingöngu vinna með persónuupplýsingar notanda hvað varðar vildar- og meðlimakort á grundvelli fyrirmæla samstarfsaðila. Um vinnslu samstarfsaðilanna á persónuupplýsingum notanda gilda skilmálar og persónuverndarstefnur viðkomandi samstarfsaðila og eru notendur hvattir til þess að kynna sér þær.

10. Ópersónugreinanlegar upplýsingar

Síminn áskilur sér rétt til að vinna með og greina ópersónugreinanlegar upplýsingar um notkun notanda á lausninni og færslur (eins og þær birtast á greiðslukvittunum söluaðila), til áframhaldandi vöruþróunar og/eða til að bæta virkni lausnarinnar. Skal Símanum vera heimilt að miðla slíkum ópersónugreinalegum upplýsingum um lausnina, t.d. tölfræðilegar samantektir, til þriðja aðila, svo sem söluaðila sem býður SíminnPay sem greiðsluaðferð. 

11. Kvartanir og beiðnir

Kvörtunum eða beiðnum frá notendum SíminnPay vegna vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við hugbúnaðarlausnina, t.d. í tengslum við gr. 8. í stefnu þessari, skal koma á framfæri við Símann með skriflegum hætti á www.siminn.is („Hafa samband“ eða „Netspjall“) eða með því að hringja í síma 800-7000. 

Síminn skal bregðast við erindi notanda eins fljótt og auðið er með skriflegum hætti, nema notandi óski annars.

12. Tilkynning til Persónuverndar

Vinnsla persónuupplýsinga með hugbúnaðarlausninni SíminnPay á vegum Símans hefur verið tilkynnt til Persónuverndar í samræmi við ákvæði reglna nr. 712/2008 um tilkynningarskylda og leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga.