Opið er fyrir umsóknir í Samfélagssjóð Símans fyrir konur og kvár sem hefja nám í tæknigreinum við HR í haust. Þetta er í þriðja sinn sem Síminn greiðir skólagjöld fimm nemenda og þannig viljum við auka fjölbreytileikann í tæknigreinum í samstarfi við HR.
Upplýsingatækni snertir flest störf og geira í samfélaginu og með tilkomu gervigreindar mun notkun hennar eflaust stökkbreytast. Við hönnun og þróun allra þeirra ótal tæknilausna sem íslenskt atvinnulíf mun notast við er mikilvægt að fjölbreyttur hópur standi þar að baki svo að þær nýtist öllum. Nýliðun kvenna og kvára í fjölbreyttu tækninámi við HR er því mikilvægt fyrir íslenskt samfélag til framtíðar.
Við val á styrkhöfum er meðal annars tekið mið af námsárangri í framhaldsskóla auk þátttöku nemenda á öðrum sviðum, t.d. íþróttum, tómstundastarfi og sjálfboðavinnu.