IceGuys sló ekki aðeins rækilega í gegn á vinsældalistum með tónlist sinni á árinu sem leið heldur sló sveitin einnig öll met í Sjónvarpi Símans viku eftir viku og gera enn. Þannig eru þættirnir um IceGuys enn á Topp 10 lista Símans yfir þá þætti sem mest áhorf hafa en þættirnir hafa náð yfir 450.000 spilunum frá því að þeir fóru í loftið, það mesta frá upphafi Sjónvarps Símans.
Örtröð myndaðist í verslunum Símans þegar að IceGuys varningur var til sölu og uppselt varð samstundis á tvenna tónleika sveitarinnar í Kaplakrika í loks árs. Þjóðin fær einfaldlega ekki nóg af IceGuys. Önnur þáttaröðin um IceGuys mun koma út síðar á árinu í samstarfi við Atlavík og munu Hannes Þór Halldórsson, Allan Sigurðsson og Hannes Arason leikstýra þáttunum sem fyrr.
Birkir Ágústsson, dagskrárstjóri innlendrar dagskrár hjá Símanum
„Við erum afskaplega glöð að geta deilt IceGuys með þjóðinni enda slógu strákarnir í gegn frá fyrsta degi og eru enn að slá met. IceGuys hafa sungið og nú leikið sig inn í hjörtu þjóðarinnar og það óháð aldri sem gerir þættina að IceGuys að frábæru skemmtiefni fyrir alla fjölskylduna. Við vorum að loka stærsta ári Símans þegar kemur að innlendri dagskrárgerð og erum hvergi nærri hætt.“
Hannes Þór Halldórsson, Atlavík
„Ég átti kannski ekki alveg von á þessum viðbrögðum sem IceGuys hafa fengið en þetta var í upphafi bara brjáluð hugmynd sem svo stækkaði og stækkaði. Við erum umkringd hæfileikafólki í öllum stöðum ásamt IceGuys sjálfum og munum vanda virkilega til verka í að svara þessu ákalli þjóðarinnar, hún vill og mun fá meira af IceGuys.“