Á næstu vikum mun Síminn virkja VoLTE (Voice over Long-Term Evolution) í auknum mæli hjá viðskiptavinum sínum sem þýðir aukin hljómgæði símtala. Um er að ræða næstu kynslóð talsíma yfir farsímakerfi og mun símtalið fara yfir 4G og 5G kerfi Símans í stað þess að nýta 2G og 3G kerfin áður. VoLTE er nauðsynlegt til að tryggja hnökralausa upplifun t.d. í reiki í Bandaríkjunum en fjarskiptafélög þar í landi hafa hafið að slökkva á 2G og 3G kerfum sínum.