Stjórnarháttarlýsing

Veldu ár
Ár

Umgjörð um stjórnarhætti

Stjórnarhættir hjá Símanum eru skilgreindir sem umgjörð utan um umsýslu og stjórnun fyrirtækisins og tæki til samskipta milli stjórnenda fyrirtækisins, félagsstjórnar, hluthafa og annarra hagsmunaaðila.

Stjórnarhættir Símans eru markaðir af lögum nr. 2/1995 um hlutafélög, samþykktum félagsins, starfsreglum stjórnar og siðareglum félagsins auk þess sem félagið hefur innleitt samkeppnisréttaráætlun í starfsemi sína sem er mikilvægur hluti af stjórnarháttum þess.

Stjórnarhættirnir taka mið af leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem gefnar eru út af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq OMX Iceland hf. og Samtökum atvinnulífsins, 5. útgáfa 2015.

Leiðbeiningar um um stjórnarhætti fyrirtækja má m.a. finna á vefsíðu Viðskiptaráðs Íslands, www.vi.is.

Síminn leggur áherslu á góða stjórnarhætti og var útnefnt fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum árið 2015 af rannsóknarmiðstöð góða stjórnarhætti.

Hluthafafundur

Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum hluthafa þess. Aðalfund félagsins skal halda fyrir lok maí ár hvert. Hlutabréf félagsins eru rafræn og skráð hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð hf., sem jafnframt hýsir hlutaskrána. Hlutaskráin er aðgengileg hluthöfum á skrifstofu félagsins.

Samþykktir

Samþykktir eru hluti af stofnskjölum hlutafélaga. Samþykktir Símans geyma m.a. reglur um tilgang félagsins, hlutafé, hluthafafundi, stjórn, ársreikninga og endurskoðun.

Samþykktir fyrir Símann hf.

Stjórn félagsins

Stjórnin er skipuð þeim Jóni Sigurðssyni, formanni stjórnar, Helgu Valfells, varaformanni stjórnar, Bjarna Þorvarðarsyni, Kolbeini Árnasyni og Sylvíu Kristínu Ólafsdóttur.

Stjórn telur að samsetning hennar samræmist starfsemi og stefnu félagsins þannig að henni sé kleift að sinna málefnum félagsins af skilvirkni og heilindum.

Stjórn fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli hluthafafunda með þeim takmörkunum sem leiða af lögum, samþykktum félagsins og starfsreglum stjórnar. Stjórnarformaður hefur tilteknu hlutverki að gegna sem mælt er fyrir um í starfsreglum stjórnar Símans og gert er ráð fyrir að hann sinni í samræmi við leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja.

Undirnefndir

Hjá Símanum starfa tvær undirnefndir stjórnar, endurskoðunarnefnd og starfskjaranefnd. Auk þess er starfandi tilnefningarnefnd hjá félaginu.

Endurskoðunarnefnd

Hlutverk endurskoðunarnefndar er að tryggja áreiðanleika fjármálaupplýsinga til hluthafa, hafa umsjón með innri endurskoðun félagsins og bókhaldskerfi, svo og að leggja mat á vinnu fjármálastjórnenda fyrirtækisins og kjörins endurskoðanda. Hlutverk nefndarinnar nær til þeirra verkefna sem kveðið er á um í Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, sem gefnar eru út af Viðskiptaráði, Kauphöllinni (OMX) og Samtökum atvinnulífsins. Endurskoðunarnefnd er skipuð þremur nefndarmönnum að lágmarki. Nefndarmenn skulu búa yfir þeirri reynslu og þekkingu sem nauðsynleg er til þess að gegna störfum sínum.

Endurskoðunarnefnd skipa Sigurður Þórðarson, formaður, Kolbeinn Árnasons og Helga Valfells.

Starfsreglur endurskoðunarnefndar má nálgast hér.

Starfskjaranefnd

Hlutverk starfskjaranefndar er að tryggja að starfskjör yfirstjórnenda taki mið af afkomu fyrirtækisins til langs tíma, frammistöðu þeirra sjálfra og hagsmunum hluthafa. Framkvæmdastjóri er ábyrgur fyrir starfskjörum annarra og ber honum að tryggja að starfskjör séu ávallt í samræmi við stefnu starfskjaranefndar. Stefna starfskjaranefndar er að tryggja að félaginu sé jafnan kleift að laða til sín og halda í starfi hæfum stjórnendum. Í þessu skyni ber nefndinni að ráðfæra sig við ytri ráðgjafa um starfskjör í sambærilegum fyrirtækjum þegar þörf krefur. Hlutverki nefndarinnar er ætlað að ná til þeirra verkefna sem kveðið er á um í Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, 5. útgáfa 2015.

Starfskjaranefnd skipa Jón Sigurðsson, formaður, Bjarni Þorvarðarson og Sylvía Kristín Ólafsdóttir.
Núgildandi starfskjarastefna var samþykkt á aðalfundi félagsins 2020. Starfskjarastefnu félagsins má nálgast hér á heimasíðu félagsins.

Árangursmat stjórnar

Stjórn félagsins framkvæmdi formlegt árangursmat á störfum og lauk því 29. janúar 2019. Árangursmati er ætlað að bæta vinnubrögð og auka skilvirkni stjórnarinnar og meta störf undirnefnda stjórnar.

Samskipti hluthafa og stjórnar

Samskipti stjórnar við hluthafa eiga að einkennast af hreinskilni og vera skýr og samræmd. Beini hluthafar fyrirspurnum til stjórnar félagsins skal stjórn vera tilkynnt um þær og hafa yfirumsjón með viðbrögðum félagsins við þeim.

Forstjóri félagsins

Orri Hauksson var ráðinn forstjóri Símans hf. á árinu 2013. Forstjóri annast daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórn hefur gefið. Forstjóri skal ávallt starfa af heilindum með hagsmuni félagsins að leiðarljósi. Í framkvæmdastjórn Símans sitja auk forstjóra framkvæmdastjórar þeirra þriggja sviða sem félagið hefur á að skipa.

Innra eftirlit og áhættustýring

Áhættustefna félagsins var staðfest á árinu 2016. Stefna félagsins um áhættustýringu hefur þann tilgang að viðhalda yfirsýn og viðeigandi stýringu áhættu í starfsemi Símans og dótturfélaga. Hjá hverju félagi innan samstæðunnar skal starfa öryggisráð eða sambærilegur vettvangur sem sér til þess að stefnunni sé framfylgt og að starfrækt sé stjórnskipulag áhættustýringar og samræmt áhættustýringar ferli sem hentar umfangi viðkomandi fyrirtækis.

Fyrirtækin skulu greina og meðhöndla áhættu í starfsemi sinni með reglubundnu áhættumati, markvissu eftirliti og aðgerðum. Stjórn og stjórnendur stýra áhættu félagsins í samræmi við áhættuvilja félagsins sem inniheldur áhættumörk sem félagið vill halda sig innan.

Gildi félagsins

Gildi Símans eru framsækni og einfaldleiki.

Samfélagsleg ábyrgð

Síminn er einn af stofnfélögum í Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð, frá árinu 2011 og á fulltrúa í stjórn. Áherslur Símans í samfélagsábyrgð eru örugg og fagleg þjónusta, mannauður, umhverfisvernd og samfélagsþátttaka. Unnið í samræmi við þessar áherslur á grundvelli tíu viðmiða UN Global Compact og staðalinn ISO 26000 um samfélagsábyrgð. Gerð er árleg framvinduskýrsla um aðgerðir og árangur í samfélagsábyrgð.

Siðareglur

Félagið vinnur eftir siðareglum sem síðast voru endurskoðaðar og samþykktar af stjórn Símans í febrúar 2017.

Upplýsingastefna Símans

Upplýsingastefna  tekur mið af reglum Kauphallar - Nasdaq Iceland fyrir útgefendur fjármálagerninga dagsettum 17. desember 2013.

Stefnur Símans

Jafnlaunavottun

Stærstu hluthafar

Hluthafar Símans

Hlutabréfaupplýsingar

Hlutabréfaupplýsingar
Veldu ár
Ár
Veldu tungumál
Tungumál
Veldu ársfjórðung
Ársfjórðungur