Tilbaka
Tilbaka
Til baka
Senda fyrirspurn

Veldu erindi

Fylltu út eitt af neðantöldu!

Takk fyrir!

Við munum hafa samband eins fljótt og unnt er.
Úps!
Eitthvað hefur farið úrskeiðis. Vinsamlegast endurhlaða síðu og reyndu aftur.
Panta
Nafn á þjónustu
Undirtexti á
Þjónustuvefnum.
Texti undir formi1
Texti undir formi2
Viðhengi texti
Hleð inn skrá...
fileuploaded.jpg
Upload failed. Max size for files is 10 MB.
Texti falinn
0
Ertu hjá Símanum?
Verð samtals:
22.000
kr./ mán.
Færslu/útskriftargjald bætist á reikning skv. verðskrá.
Takk fyrir!
Við munum hafa samband eins fljótt og unnt er.
Til baka
Úps!
Eitthvað hefur farið úrskeiðis. Vinsamlegast endurhlaða síðu og reyndu aftur.
Pöntunarform
Þú getur meira með SímanumÞú getur meira með Símanum

Ársskýrsla 2020

Frá árinu 1906 hefur Síminn tengt þjóðina saman og við umheiminn. Við nýtum tæknina til góðra verka, auðveldum samskipti og styttum boðleiðir. Árið 2020 var ár fjarfunda, fjarvinnu, fjarnáms og þar lék þjónusta Símans lykilhlutverk svo allt myndi ganga sem best.

Samstæðan

Jón Sigurðsson, stjórnarformaður
Samstæðan

Fjarskipti efla og auðga lífið

Frá árinu 1906 hefur Síminn tengt þjóðina saman og við umheiminn. Við nýtum tæknina til góðra verka, auðveldum samskipti og styttum boðleiðir. Árið 2020 var ár fjarfunda, fjarvinnu, fjarnáms og þar lék þjónusta Símans lykilhlutverk svo allt myndi ganga sem best.

Síminn er móðurfélag innviða félagsins Mílu og upplýsingatæknifyrirtækisins Sensa með það helsta markmið að vera framúrskarandi þjónustufyrirtæki, með besta reksturinn og að hér sé stunduð stöðug nýsköpun.

Hreyfum okkur hratt
Jón Sigurðsson, stjórnarformaður

Hreyfum okkur hratt

Eftir því sem ég læri meira um starfsemi Símans ber ég sífellt meiri virðingu fyrir félaginu og því frábæra starfi sem þar er unnið á hverjum degi. Síminn virkar eins og vel smurð vél, eins og sést á stöðugum og farsælum rekstri um árabil.

Síminn þarf hins vegar alltaf að vera á tánum, starfandi í síbreytilegum heimi fjar- og samskipta, og í harðvítugri samkeppni á öllum þeim mörkuðum sem félagið starfar. Sífellt þarf að vera vakandi fyrir því að þróa söluvörur og þjónustu þannig að viðskiptavinum líki vel. Það er hins vegar í fleiri horn að líta. Í upphafi síðasta árs höfðu stjórn og stjórnendur mörg verkefni á prjónunum sem snúa að rekstri og efnahag félagsins. Fjármagnsskipan félagsins í heild sinni var til endurskoðunar, endurmeta þurfti nálgun á fjárfestingar til skemmri og lengri tíma og huga þurfti að stefnumótun og samsetningu samstæðunnar til framtíðar, svo fátt eitt sé nefnt.

Yfirskrift viðtals við mig í síðustu ársskýrslu Símans var enda „Kyrrstaða er ekki í boði“. Ég held að það megi með sanni segja að árið 2020 hafi ekki verið ár kyrrstöðu hjá Símanum, m.a. í ljósi þess að á þetta hlaðborð verkefna bættist svo Covid.

Það er skemmst frá því að segja að Síminn sýndi úr hverju hann er gerður og komst vel frá þessu óvenjulega ári sem einkenndist af miklum áskorunum. Nær öll starfsemi félagsins var endurskipulögð á mjög skömmum tíma í ljósi sóttvarnaraðgerða, og það hnökralaust gagnvart viðskiptavinum sínum. Síminn hagræddi á sama tíma enn frekar í rekstri, þar með talið í fjárfestingum sínum, um leið og auknum krafti var hleypt í sjónvarpsþjónustu og sölustarfsemi. Þessi skjótu viðbrögð áttu stóran þátt í því að afkoma Símans á síðasta ári var vel viðunandi. Tekjur félagsins jukust milli ára í 30 milljarða króna, EBITDA var 10,5 milljarðar króna og hagnaður eftir skatta var 2,9 milljarðar króna.

Á síðasta ári voru jafnframt stigin mörg stór og jákvæð skref sem varða hag félagsins til framtíðar. Starfsemi Símans og Mílu var endurskoðuð og aðgreind enn frekar í samræmi við ólíkt eðli félaganna, þar sem Míla verður stærra og hreinræktaðra innviðafélag á heildsölustigi, meðan Síminn er þjónustufélag í smásölu á neytenda- og fyrirtækjamarkaði. Þetta var ekki einungis gert með því að færa innviði frá Símanum til Mílu, heldur hefur fjármögnunarstrengurinn á milli félaganna einnig verið slitinn.

Á fyrsta ársfjórðungi 2021 mun ljúka endurfjármögnun á grundvelli uppfærðrar fjármagnsskipunar samstæðunnar. Míla fjármagnar sig héðan í frá sjálf, á sínum eigin forsendum. Samhliða því hefur Síminn jafnframt endurfjármagnað sínar skuldir í nýju vaxtaumhverfi.  Þetta nýja fyrirkomulag bætir nýtingu fjármagns umtalsvert, þar sem mismunandi viðskiptamódel samstæðunnar kalla á mismunandi fjármögnun. Dótturfélagið Sensa var jafnframt selt undir lok síðasta árs í kjölfar þess að gott tilboð barst í félagið.  Framangreindar ráðstafanir, sala Sensa og endurfjármögnun, leiða af sér að það losnar um umtalsvert fé sem ekki er þörf fyrir í rekstri Símans og er því lagt til að það verði greitt til hluthafa. Áfram verður haldið með hefðbundna arðgreiðslustefnu og endurkaup í samræmi við ákvarðanir hluthafa.

Við munum halda áfram að þróa og meta hvernig framtíðarskipulagi Símans er best fyrirkomið. Víða um heim hefur þróunin hvað varðar uppbyggingu og rekstur fjarskiptainnviða verið annars vegar í þá átt að aðskilja fjarskiptainnviði frá fjarskiptaþjónustu, og hins vegar að samnýta fjarskiptainnviði eða sameina þá. Fyrir þessu virðast vera gild rök. Síauknar kröfur neytenda og hröð tækniframþróun kallar á gríðarlegar fjárfestingar í fjarskiptainnviðum sem verða vart réttlættar nema sérhæfing og stærðarhagkvæmni sé til staðar.

Við sýndum í fyrra að við getum hreyft okkur hratt. Fjarskipta- og afþreyingarheimurinn er í stöðugri þróun og hið öfluga starfsfólk Símans þarf að halda áfram að vera á fleygiferð til að sinna sínu mikilvægasta verkefni; að uppfylla væntingar viðskiptavina, með sífellt betri vörum og þjónustu.

Hreyfum okkur hratt
Óskar Hauksson, fjármálastjóri

Stolt af niðurstöðunni

Rekstur síðasta árs gekk vel þrátt fyrir krefjandi ytri aðstæður. Betur gekk að verja reksturinn fyrir áhrifum heimsfaraldurs en búist var við í upphafi þó að vissulega hafi orðið neikvæð áhrif vegna veikingar krónu og tekjufalls af reikitekjum ferðamanna.

Það að ná að skila svipaðri rekstrarniðurstöðu og árið áður er því eitthvað sem að við getum verið stolt af. Það eru talsverðar breytingar að verða á efnahag félagsins. Lán verða endurfjármögnuð með annarsvegar láni til móðurfélagsins og hins vegar láni til Mílu sem hefur hingað til verið fjármögnuð frá móðurfélaginu. Í kjölfar endurfjármögnunar verður hlutafé lækkað með greiðslu til hluthafa. Eiginfjárhlutfall lækkar úr rúmlega 57% í tæp 45% við þessa aðgerð sem er betri fjármagnsskipan að okkar mati.


Stjórn Símans 2020

Jón Sigurðsson stjórnarformaður

Jón Sigurðsson stjórnarformaður

Jón er fæddur 1978 og settist í stjórn Símans 21. nóvember 2019. Jón er viðskiptafræðingur að mennt og hefur starfað á íslenskum og erlendum fjármálamarkaði í u.þ.b. 20 ár, ýmist sem stjórnandi, fjárfestir, ráðgjafi eða stjórnarmaður. Jón er stjórnarformaður fjárfestingafélagsins Stoða hf., sem er stærsti hluthafi Símans.

Jón starfaði við fyrirtækjaráðgjöf hjá Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands á árunum 2002-2005 og sem framkvæmdastjóri fjárfestingasviðs og síðar forstjóri Stoða frá 2005-2010. Jón hefur setið í stjórnum fjölmargra félaga, skráðra jafnt sem óskráðra, innanlands sem og erlendis. Jón sat m.a. í stjórn Refresco B.V. á árunum 2006-2018 og tók virkan þátt í uppbyggingu Refresco, m.a. kaupum fjölmargra félaga og sameiningu þeirra, skráningu á Euronext Amsterdam og loks sölu Refresco og afskráningu. Þá sat Jón í stjórn N1 (nú Festi) á árunum 2014 til 2018 en miklar breytingar urðu á rekstri og efnahag N1 á því tímabili, sem lauk með kaupum N1 á Festi. Jón hefur hin síðari ár sinnt eigin fjárfestingum, m.a. í gegnum Helgafell og Stoðir, en Helgafell á óbeinan 26% eignarhlut í Stoðum.

Jón á ekki beinan eignarhlut í Símanum hf. Jón er ekki tengdur helstu viðskiptaaðilum félagsins eða samkeppnisaðilum. Jón er stjórnarformaður Stoða hf. sem á 1.300.000.000 hluti eða 14,86% í Símanum hf.

Helga Valfells varaformaður

Helga Valfells varaformaður

Helga er fædd árið 1964 og settist í stjórn Símans 15. mars 2018.  Helga er með B.A. gráðu frá Harvard Háskóla og MBA gráðu frá London Business School.

Helga er stofnandi og framkvæmdastjóri hjá nýsköpunarsjóðnum Crowberry Capital. Hún er stjórnarmaður í stjórn Sensa, Aldin Dynamics, Katla, Monerium og er stjórnarformaður Lucinity. Áður en Helga stofnaði Crowberry árið 2017 var hún framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins frá 2010. Á þessum tíma sat Helga í stjórnum 14 nýsköpunarfyrirtækja og bar ábyrgð á eignasafni sjóðsins í allt að  41 nýsköpunarfyrirtæki.  

Helga var varaformaður stjórnar Íslandsbanka til ársins 2019. Helga var stjórnarformaður Frumtaks frá 2010 til 2017. Helga var forstöðumaður hjá Útflutningsráði Íslands frá 1999 til 2005 þar sem hún stýrði m.a. ýmsum verkefnum tengdum markaðsmálum og fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja. Fyrir utan störf í nýsköpunargeiranum hefur Helga starfað hjá fjárfestingabanka Merrill Lynch í London, í markaðsmálum hjá Estee Lauder í Bretlandi og VÍB. Helga var ópólitískur aðstoðarmaður Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra fyrstu mánuðina eftir hrun.    

Helga á ekki hluti í Símanum hf. Helga er ekki tengd helstu viðskiptaaðilum félagsins, samkeppnisaðilum eða hluthöfum sem eiga 10% eða meira í félaginu.

Bjarni Þorvarðarson

Bjarni Þorvarðarson

Bjarni er fæddur árið 1966 og settist í stjórn Símans 21. mars 2019. Bjarni lauk B.Sc. prófi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1989 og síðar meistaragráðum í rafmagnsverkfræði frá University of Wisconsin, Madison, 1991, í alþjóðaviðskiptum frá ISG í París 1993 og fjármálafræðum frá London Business School árið 1998.   Eftir sölu- og stjórnunarstörf hjá Tölvusamskiptum og Tæknivali réðist Bjarni sem viðskipta- og sjóðsstjóri til Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og síðar, árið 2002, til fjárfestingarfyrirtækisins CVC í Bandaríkjunum og sat í stjórnun nokkurra af fjarskiptafyrirtækjum CVC á Íslandi, Bandaríkjunum, Kanada, Írlandi, Bretlandi, Hollandi, Indlandi og Ástralíu.  Árið 2004 tók Bjarni að sér forstjórastöðu hjá nýstofnuðu fjarskiptafyrirtæki í eigu CVC, Hibernia Networks, og hélt þeirri stöðu þar til Hibernia var selt árið 2017, þá með 240 starfsmenn í 9 löndum og ljósleiðaranet sem náði til flestra af stærstu borga heims.  Frá miðju ári 2018 gegndi Bjarni forstjórastöðu lyfjaframleiðandans Coripharma ehf. í Hafnarfirði og sem stjórnarformaður síðan 2020 auk þess að sinna eigin fjárfestingarverkefnum.

Bjarni á ekki hluti í Símanum hf. Bjarni er ekki tengdur helstu viðskiptaaðilum félagsins, samkeppnisaðilum eða hluthöfum sem eiga 10% eða meira í félaginu.

Kolbeinn Árnason

Kolbeinn Árnason

Kolbeinn er fæddur árið 1971 og settist í stjórn Símans 21. nóvember 2019. Kolbeinn er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands. Þá lagði hann stund á framhaldsnám í alþjóðlegri viðskiptalögfræði við Háskólann í Leuven. Kolbeinn er með AMP gráðu frá IESE Business School í Barcelona.

Kolbeinn hefur setið í stjórn LBI ehf., frá því að nauðasamningur við kröfuhafa félagsins var staðfestur árið 2016. Kolbeinn var framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í Sjávarútvegi frá 2013 til 2016 og sat á því tímabili einnig í Framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins. Hann var aðallögfræðingur og framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupþings hf. frá 2008 til 2013 og hafði sem slíkur umsjón með lögfræðilegri vinnu sem snéri að endurskipulagningu, sölu og innheimtu á eignum Kaupþings auk endurskipulagningar félagsins, með það að markmiði að leggja niður starfsemi þess og greiða eignir þess út til kröfuhafa á skipulegan hátt. Kolbeinn hefur einnig langa reynslu af störfum innan stjórnsýslunnar. Hann var skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu sjávarútvegsráðuneytisins frá 1999 til 2004 og fulltrúi í fastanefnd Íslands hjá Evrópusambandinu í Brussel frá 2004 til 2006. Kolbeinn var skipaður í embætti skrifstofustjóra matvælaöryggis- og fiskeldis í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í október 2020.

Kolbeinn á 1.000.000 hluti í Símanum hf. Kolbeinn er ekki tengdur helstu viðskiptaaðilum félagsins, samkeppnisaðilum eða hluthöfum sem eiga 10% eða meira í félaginu.

Sylvía Kristín Ólafsdóttir

Sylvía Kristín Ólafsdóttir

Sylvía er fædd árið 1980 og settist í stjórn Símans 15. mars 2018. Sylvía lauk mastergráðu frá London School of Economics í aðgerðarannsóknum árið 2006. Fyrir það, eða árið 2005 lauk hún BSC í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Sylvía starfaði í 5 ár hjá Amazon fyrst sem sérfræðingur í nýfjárfestingum á fjármálasviði og seinna sem yfirmaður viðskiptagreindar og vörustjóri í Kindle deild Amazon. Árin 2007 til 2010 starfaði hún fyrir Seðlabanka Íslands sem forstöðumaður viðbúnaðarsviðs.

Frá 2015 og 2018 starfaði Sylvía hjá Landsvirkjun sem Forstöðumaður tekjustýringar og seinna sem forstöðumaður jarðvarmadeildar. Sylvía var einnig stundakennari við Háskóla Íslands í kvikum kerfislíkönum, rekstrarfræði og verkefnastjórnun (MPM). Sylvía gengdi stöðu forstöðumanns á rekstrarsviði hjá Icelandair en hóf störf sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og markaðsmála hjá Origo snemma árs 2021. Sylvía fór úr stjórn Símans í janúar 2021 vegna breytinga á eigin starfsvettvangi.

Sylvía á ekki hluti í Símanum hf. Sylvía er ekki tengd helstu viðskiptaaðilum félagsins, samkeppnisaðilum eða hluthöfum sem eiga 10% eða meira í félaginu.

+

29.939 m.kr.

Tekjur samstæðunnar voru 29.939 m.kr. á árinu 2020.

10.500 m.kr

EBITDA samstæðunnar var 10.500 m.kr. og EBIT 4.386 m.kr. árið 2020

37.298  m.kr.

Í árslok var eigið fé samstæðunnar 37.298 m.kr. og eiginfjárhlutfallið 57,2%.

9.653 m.kr.

Handbært fé frá rekstri var 9.653 m.kr. á árinu 2020.

Enn betri samskipti og endurmenntun standa upp úr
Ragna Margrét Norðdahl, Mannauðsstjóri

Enn betri samskipti og endurmenntun standa upp úr

Aldrei hefur elja og vilji starfsfólks til að takast á breytingar verið jafn sýnilegur okkur stjórnendum og á síðasta ári þegar heimsfaraldur skall á. Sífelldar breytingar á samkomutakmörkunum sem höfðu bein áhrif á vinnuumhverfi okkar voru ekki til trafala heldur vorum við öll fljót að finna okkar takt, þannig hélst góður gangur í daglegum störfum og viðskiptavinir Símans urðu ekki varir við allar þær breytingar sem varð að fara í til að tryggja öryggi og heilsu starfsfólks og viðskiptavina.

Þjónustuver Símans var t.d. á einum degi flutt úr sameiginlegu rými og vinnustöðvar urðu til á yfir 60 heimilum sem áfram veittu framúrskarandi þjónustu. Starfsmannafundir urðu að fullu rafrænir og til að brjóta upp daginn var boðið upp á fjölmargar skemmtanir, beint heim í stofu. Góð samskipti urðu enn mikilvægari og þannig voru stjórnendur hvattir til að vera í enn meiri og beinni samskiptum við allt sitt starfsfólk, þannig var hægt að hjálpa öllum að ná vopnum sínum sem best í nýju umhverfi og breyttu vinnufyrirkomulagi.

Endurmenntun starfsfólks var fyrirferðarmikil á árinu sem leið og mörg mikilvæg skref í þeirri vegferð verða stigin á nýju ári. Mannauður Símans er okkar mikilvægasta eign, að honum þarf að hlúa svo auðveldara sé að halda í frábært starfsfólk en einnig til að gera Símann að enn eftirsóttari vinnustað. Við erum stolt af frábæru verkefni sem unnið er í samstarfi við Menntaskóla Borgarfjarðar þar sem starfsfólk okkar án framhaldsmenntunar er hvatt og stutt dyggilega til að ganga menntaveginn enn frekar, sér, Símanum og samfélaginu öllu til góðs.

Ársskýrsla 2020
Ársskýrsla 2020

Framkvæmd starfskjarastefnu

Innan Símans er starfandi starfskjaranefnd, nefndin er undirnefnd stjórnar félagsins og er skipuð af henni í samræmi við starfsreglur stjórnar félagsins. Hlutverk starfskjaranefndar er að tryggja að starfskjör yfirstjórnenda taki mið af afkomu fyrirtækisins til langs tíma, frammistöðu þeirra sjálfra og hagsmunum hluthafa. Framkvæmdastjóri er ábyrgur fyrir starfskjörum annarra og ber honum að tryggja að starfskjör séu ávallt í samræmi við stefnu starfskjaranefndar. Stefna starfskjaranefndar er að tryggja að félaginu sé jafnan kleift að laða til sín og halda í starfi hæfum stjórnendum. Í þessu skyni ber nefndinni að ráðfæra sig við ytri ráðgjafa um starfskjör í sambærilegum fyrirtækjum þegar þörf krefur. Hlutverki nefndarinnar er ætlað að ná til þeirra verkefna sem kveðið er á um í Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, 5. útgáfa 2015.  

Starfskjaranefnd skipa Jón Sigurðsson formaður nefndarinnar, Bjarni Þorvarðarson og Sylvía Kristín Ólafsdóttir þar til hún hætti þann 25. janúar. Starfskjaranefnd hélt 3 fundi árið 2020 og var full mæting á alla fundi. Nefndin samþykkti starfskjara fyrirkomulag til handa framkvæmdastjórum Símans fyrir starfsárið 2020. Föst laun voru hækkuð í samræmi við launavísitölu og haldið var inni breytilegum þætti, sem réðst annars vegar af EBITDA afkomu félagsins og hins vegar ýmsum einstaklingsbundnum frammistöðutengdum atriðum. Hámark aukagreiðslna var jafnt þriggja mánaða launum. Byggt á afkomu ársins og annarra þátta ávann umræddur hópur sér ígildi 2,5 mánaðarlauna sem kom að hluta til greiðslu á árinu 2020 og það sem út af stóð í upphafi árs 2021. Fyrir starfsárið 2021 er breytilegi þáttur launakerfisins áfram byggður á sömu viðmiðum og á árinu 2020. Er hámark aukagreiðslna vegna almenns rekstrar áfram bundið við laun þriggja mánaða. Frá því kerfi þetta var tekið upp 2018 hafa aukagreiðslur aldrei numið hámarkinu, þremur mánuðum, fyrir neinn stjórnanda.

Núgildandi starfskjarastefna var samþykkt á aðalfundi félagsins 2020. Hér má nálgast starfskjarastefnu Símans og starfsreglur starfskjaranefndar.

Síminn

Traustur bakhjarl íslenskra heimila og fyrirtækja.

Síminn
Síminn

Stöðugur rekstur, stöðugar endurbætur

Fjarskipti eru undirstaða alls hjá Símanum. Við erum stolt af víðfemu dreifikerfi okkar í farsíma, interneti, talsíma og sjónvarpi sem veita frábært samband en á sama tíma vitum við að rekstri slíkra dreifikerfa lýkur aldrei.  

Afþreying til viðskiptavina Símans hefur leikið stóra rullu síðustu ár, árið 2020 var þar engin undantekning og áhorf á efnisveituna okkar, Sjónvarp Símans Premium hefur aldrei verið meira. Því má þakka fjölbreyttu úrvali efnis, bæði erlendu sem og innlendu ásamt því að Enska úrvalsdeildin bættist við fjölbreytta flóru afþreyingar. Aldrei hafa verið fleiri beinar útsendingar, 4K ofurháskerpa er komin til að vera og áhorfendur hafa tekið vel í þá nýjung að Síminn taki viðtöl við fyrrum stórstjörnur deildarinnar sem hafa verið með okkur í beinni útsendingu að kryfja leiki dagsins.

Síminn stytti stundir þjóðarinnar í samkomutakmörkunum með Helga Björns sem sló í gegn í fyrstu, annarri og þriðju bylgju veirunnar en vinsældir Helga hafa haldið áfram inn í nýtt ár.

Góður upptaktur
Orri Hauksson, forstjóri

Góður upptaktur

Við unum vel við niðurstöðu rekstrar Símans og dótturfélaga á faraldursárinu 2020. Það sem af er árinu 2021 lítur einnig ágætlega út. Í heilt ár hafa þau viðskiptamódel sem við starfrækjum innan Símasamstæðunnar staðist þau erfiðu próf, sem lögð hafa verið lögð fyrir fólk og fyrirtæki um allan heim. Starfsfólk samstæðunnar á hrós skilið fyrir sveigjanleika og dugnað.

Faraldurinn hefur þó haft áhrif á reksturinn. Reikitekjur hafa að mestu horfið og erlendur kostnaður jókst í fyrra krónum í talið. Þróunarverkefni töfðust og sumum fjárfestingum var slegið á frest. Okkur auðnaðist hins vegar að bregðast hratt við nýjum veruleika, sinna viðskiptavinum okkar vel og draga úr kostnaði. Ekkert fyrirtækja samstæðunnar nýtti sér hlutabótaleið eða önnur úrræði hins opinbera.

Eins mótsagnakennt og það kann að hljóma þá leiddi sú ánægjulega niðurstaða til skertrar samkeppnisstöðu okkar í gegnum faraldurinn og áfram nú þegar dregur úr áhrifum samkomutakmarkanna. Auk hinnar hefðbundnu samkeppni, sem samstæðan hefur um langt árabil búið við af hendi opinberra aðila á Íslandi, eru einkareknir keppinautar Símans nú farnir að njóta opinberra styrkja. Jafnvel eru hugmyndir uppi um að slík styrkjakerfi verði gerð varanleg. Þá búa erlendir samfélagsmiðlar og streymisveitur ekki við sömu skattlagningu og reglukvaðir og innlendir miðlar. Fyrr en síðar hljóta eftirlitsaðilar eða ráðamenn að skakka þennan leik, sem er orðinn ójafn á svo mörgum sviðum.

Eftir langt skeið hraðra fjárfestinga hægði á hjá samstæðunni í fyrra. Svo verður áfram í ár, en þó munu nýir 5G sendar, nýir ljósleiðarar, nýjar tengingar milli neta og nýjar sjónvarpslausnir líta dagsins ljós. Öll þessi verkefni komast á aukinn skrið nú þegar losnar um hömlur vegna veirunnar. Samvinna um grunninnviði fjarskipta í landinu, sérstaklega úti um hinar dreifðu byggðir, hefur lengi verið keppikefli Símasamstæðunnar. Góð fyrirheit voru gefin af hálfu einkarekinna fjarskiptafyrirtækja í byrjun árs í fyrra, eftir hrinu óveðra og rafmagnsleysis. Virtust ráðamenn og aðrir opinberir aðilar sammála um að finna mætti leiðir til betri nýtingar fjármagns, innviða og framkvæmda úti um land, til að byggja sem hraðast upp þar sem öryggi og þjónustu skortir. Samkeppninni um hylli neytenda yrði fundinn staður ofan á grunninnviðum sem byggðir yrðu að hluta upp sameiginlega.

Væntingar um að slík viðleitni gæti hafist minnkuðu hratt við alvarleg varnaðarorð samkeppnisyfirvalda gagnvart tilburðum til samvinnu í uppbyggingu innviða. Nýjar boðaðar kvaðir á Mílu af hálfu fjarskiptayfirvalda ollu einnig töfum og gera enn. Tugir bæjarfélaga á landsbyggðinni eru að mestu án ljósleiðaraheimtauga og miðað við óbreytta afstöðu eftirlitsstofnana mun það ekki breytast á næstu árum. Einhver bið verður einnig eftir hraðari uppbyggingu farsímaneta úti um landið. Til að gæta sanngirni má þó nefna að fjarskiptayfirvöld unnu vel með Neyðarlínunni og fleirum í að koma varaafli á afskekkta staði, sem er vel.

Árið 2020 var nýtt til að endurmeta stefnu, samsetningu og fjármögnun Símasamstæðunnar. Ákveðið var að taka tilboði hins alþjóðlega upplýsingatæknifyrirtækis Crayon í allt hlutafé Sensa. Fyrirvari er um samþykkt Samkeppniseftirlitsins en búast má við niðurstöðu fyrir vorið. Síminn mun þó áfram starfa á sviði upplýsingatækni og bjóða slíkar afurðir til viðskiptavina sinna á fyrirtækjamarkaði.

Verkaskiptingu milli Símans og Mílu var breytt í upphafi árs 2021 eftir ítarlegan undirbúning síðari hluta ársins 2020. Umsvif Mílu aukast við breytinguna með því að félagið tekur yfir netrekstur sem áður var innan vébanda Símans. Rekstrarumfang, efnahagur og sjóðstreymi Mílu munu vaxa við breytinguna. Míla mun sækja eigið lánsfjármagn frá Íslandsbanka en móðurfélagið er samhliða að ganga frá endurfjármögnun lána sinna hjá Arion banka. Frekari skref kunna að vera tekin til að skerpa á einingum samstæðunnar. Markmið allra þessara breytinga er aukin arðsemi eigin fjár, fókus í rekstri og ánægðustu viðskiptavinirnir á Íslandi.

23.768 m.kr.

Tekjur Símans námu 23.768 m.kr. á árinu 2020

5.991  m.kr.

EBITDA Símans nam 5.991 m.kr. árið 2020. EBITDA hlutfall var 25,2%.

5G

5G vegferð hafin með tilraunasendum í samstarfi við Ericsson

1.2 m

Vikulegar spilanir í Sjónvarpi Símans Premium eru komnar í 1.2 milljónir.

Samstæðan, viðtal við stjórnarformann
Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri

Ár afþreyingar

Árið 2020 var einstakt fyrir margar sakir en heimsfaraldur hafði þau áhrif að áhorf á sjónvarp jókst umtalsvert. Síminn brást hratt við þegar Helgi Björns hafði samband og þættir hans urðu strax vinsælasta sjónvarpsefni landsins og halda enn þeim sessi. Útsendingum frá Ensku úrvalsdeildinni fjölgaði verulega og þar sem það vinsæla efni hefur aldrei verið ódýrara og aðgengilegra féll hvert áhorfsmetið á fætur öðru. Það sýndi sig líka að það er ekkert sem skákar vinsældum á leiknu íslensku efni, bæði Venjulegt fólk og Jarðarförin mín nutu feikna vinsælda og ljóst að Síminn mun leggja aukna áherslu á slíkt efni í framtíðinni.


Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri

Míla

Míla er heildsölufyrirtæki á fjarskiptamarkaði sem á og rekur fjarskiptainnviði á landsvísu

Míla
Míla

Undirstaða fjarskipta á Íslandi

Hlutverk Mílu er skýrt, að vera undirstaða fjarskipta á Íslandi. Öll helstu fjarskiptafélög á Íslandi nýta sér grunnnet Mílu á einhvern hátt. Grunnet Mílu er heildstætt kerfi um allt land sem gegnir mikilvægu hlutverki í fjarskiptum á Íslandi, fjarskipti eru mikilvæg samfélaginu og mikilvægt fyrir öryggi fjarskipta að eitt heildstætt kerfi sé til staðar, það kerfi á og rekur Míla.

Stjórnstöð Mílu vaktar heilbrigði stofnsambanda sem halda allri byggð í sítengdu sambandi ásamt því að vakta mikilvæga sæstrengi sem tengir landið við umheiminn. Góður uppitími sambanda og þjónustu skiptir öllu máli í rekstri Mílu ásamt því að allt kapp er lagt á að sýna skjót viðbrögð þegar mikið liggur við t.d. þegar náttúruöflin minna á sig eða bilanir koma upp sem valda  

Eftir óveður í lok árs 2019 og í byrjun árs 2020 var farið í umfangsmikið verkefni með Neyðarlínunni og fjarskiptafélögunum og bæta þannig varaafl víða um land með stuðningi íslenska ríkisins. 68 fjarskiptastaðir voru greindir þar sem úrbóta væri þörf, 27 þeirra voru fjarskiptastaðir Mílu. Fjarskiptastaðir á Norðurlandi, Vestfjörðum og Austurlandi urðu verst úti í óveðrunum og þar var hafist handa við að bæta varaafl, fjölga rafhlöðum og tengja fleiri með ljósleiðara og þannig leysa af hólmi örbylgjusambönd sem eru talsvert viðkvæmari í slæmum veðrum en ljósleiðari í jörðu.

Jón R. Kristjánsson, framkvæmdastjóri

Rekstraröryggi ofar öllu

Árið 2020 var sérstakt hjá Mílu eins og flestum vegna heimsfaraldursins.  Þorra ársins vann stór hluti starfsmanna í fjarvinnu en flestir gátu sinnt sínum verkefnum þrátt fyrir þær takmarkanir sem í gildi voru.  Í svona aðstæðum hefur Míla sem rekstraraðili mikilvægra grunninnviða skyldum að gegna og var neyðaráætlun félagsins virkjuð.  Aðstæður höfðu einnig talsverð áhrif á verkefnaval.  

Áherslan var á að tryggja rekstraröryggi og að breytt notkun fjarskiptainnviða með aukinni heimanotkun myndi ganga vel.  Einnig var uppbyggingarverkefnum sem gætu truflað rekstur haldið tímabundið í lágmarki og áhersla var lögð á aðkallandi viðhald, breytingar og rekstrarverkefni.  Auk heimsfaraldurs hafði birting PFS á drögum að markaðsgreiningu á heimtauga og bitastraums markaði áhrif á verkefni ársins.  

Samkeppni hefur aukist verulega á þessum markaði en samt taldi PFS rétt að leggja enn meiri og íþyngjandi kvaðir á Mílu sem m.a. myndi að óbreyttu gera félaginu erfitt að halda áfram með ljósleiðaravæðingu þéttbýlisstaða úti á landi.  Fyrir árslok sendi PFS út drög að breytingum sem drógu úr þessum áhrifum.  

Míla fjárfesti í heild minna en gert ráð fyrir í áætlun en engu að síður náðust helstu markmið ársins.  Ljósleiðaravæðing þéttbýlisstaða utan höfuðborgarsvæðisins var í fyrsta skipti umfangsmesta verkefnið sem skiptist milli nokkuð margra þéttbýlisstaða.  Ljósleiðaravæðing á höfuðborgarsvæðinu var, eins og undanfarin ár, einnig fyrirferðarmikið verkefni Mílu á árinu 2020 sem gekk vel og í samræmi við áform.  Í árslok 2020 höfðu um 95 þúsund heimili möguleika á að tengjast ljósleiðara Mílu.    

Auk ljósleiðaravæðingar til heimila og fyrirtækja stóð Míla í nokkrum stórum verkefnum við lagningu stofnlagna.  Stærst var lokaáfangi hálendisleiðar sem fól í sér lagningu ljósleiðara frá Hveravöllum og norður í Skagafjörð, alls um 84 km.  Þetta var loka áfanginn á nýrri stofnleið milli milli Suður- og Norðurlands sem skapar tækifæri fyrir nýja uppbyggingu og aukið fjarskiptaöryggi á Norðurlandi og víðar.  Einnig var m.a. unnið að lagningu stofnlagna frá Aratungu að Geysi, frá Þorlákshöfn í Selvog, í Hörgárdal á Norðurlandi og á Seyðisfirði.   

Um áramót fluttust IP/MPLS netkerfi og farsímadreifikerfi Símans yfir til Mílu.  Markmiðið er að Míla verði öflugra og heildstæðara félag á sviði fjarskiptainnviða.  Ný starfsemi felur í sér tækifæri fyrir Mílu, bæði hvað varðar þjónustu og þjónustuframboð til fjarskiptafélaga og hagræðingu í uppbyggingu fjarskiptaneta og starfsemi Mílu.  Samhliða breytingunni var skipuriti Mílu breytt þannig að Míla samanstendur nú af átta sviðum sem heyra undir framkvæmdastjóra, 6 meginsviðum og 2 stoðsviðum. Meginsviðin eru Stofnkerfi, Aðgangs- og netkerfi, Farsímadreifikerfi, Þjónusta og sala, Framkvæmdir og Grunnkerfi en Tæknistoð og Fjármál eru stoðsvið.    

Viðbótarefni má finna á vef Mílu.

+

6.462  m.kr.

Tekjur Mílu námu 6.462 m.kr. árið 2020.

3.950 m.kr.

EBITDA Mílu nam 3.950 m.kr. árið 2020. EBITDA hlutfall var 61,1%.

Ljósleiðara uppbygging

Fjöldi heimila með aðgang að ljósleiðaratengingu er 95 þús á landsvísu.

Öflugir innviðir

Míla eflt enn frekar sem innviðafélag með tilfærslu verkefna

Míla

Sensa

Fjölbreyttar lausnir í upplýsingatækni
Sensa

Fjölbreyttar lausnir í upplýsingatækni

Sensa er fyrsta flokks þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í fjölbreyttum lausnum í upplýsingatækni. Sensa hefur yfir að ráða frábæru starfsfólki með hátt þekkingarstig sem leggja áherslu á að skapa virðisauka fyrir viðskiptavini sína í krefjandi og oft á tíðum flóknum heimi upplýsingatækninnar.

Síðustu ár hefur Sensa lagt aukna áherslu á skýjaþjónustur og þekking starfsfólks þegar kemur að netöryggi bæði viðkvæmra kerfa og útstöðva hefur aldrei verið mikilvægari.

Þann 2. desember 2020 seldi Síminn Sensa til upplýsingatæknifyrirtækisins Crayon Group AS. Áætlað er að uppgjör viðskiptanna muni eiga sér stað á fyrri hluta ársins 2021, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, þ.m.t. samþykki samkeppnisyfirvalda.

Síminn mun samhliða sölunni á Sensa fara í öflugt samstarf með Crayon þar sem fyrirtækjalausnir Símans ásamt Crayon munu geta boðið fyrirtækjum í landinu heilsteyptari þjónustu en áður, með upplýsingatækni- og fjarskiptaþjónustu sem eina sterka heild.

Radíomiðun

Radíomiðun

Þjónusta við sjávarútveginn á landi og á sjó

Radiómiðun er dótturfélag Símans þar sem fjarskiptaþjónusta Símans og sértækar lausnir Radíómiðunar sameinast í þeim tilgangi að þjónusta sjávarútveginn á Íslandi, bæði á landi og á sjó.

Radíómiðun hefur yfir að ráða sérþekkingu sem nettengja skip, bæði nálægt landi þar sem víðfemt dreifikerfi Símans er notað en einnig yfir gervihnetti. Þannig geta sjófarendur átt samskipti við sína nánustu og notað nútímatækni ásamt því að útgerðir geta fengið rauntíma upplýsingar frá vélum og tækjum í skipunum og þannig t.d. sinnt viðhaldi þó langt sé í land.

Þjónusta við sjávarútveginn á landi og á sjó

Farsímagreiðslur

Síminn Pay
Farsímagreiðslur

Síminn Pay

Farsímagreiðslur ehf. er dótturfélag Símans sem sinnir rekstri og þróun fjártæknilausnarinnar Síminn Pay.

Síminn Pay er smáforrit fyrir Android og iOS stýrikerfin sem gerir notendum kleift að greiða fyrir vörur og þjónustur með snjallsímanum, dreifa greiðslum með léttkaupum og borga í bílastæði. Síminn Pay er í góðu samstarfi við fjölda fyrirtækja um allt land þar sem hægt er að nota þjónustuna, bæði með því að greiða í verslunum en einnig með því að versla vörur og þjónustur í appinu sjálfu.

Ársreikningur Símans

Ársreikningurinn hefur að geyma samstæðureikning Símans hf. og dótturfélaga. Allar fjárhæðir eru í milljónum króna.

Rekstrarreikningur

Rekstrarreikningur

Efnahagsreikningur

Ársreikningur  Mynd1

Sjóðstreymisyfirlit

Sjóðstreymisyfirlit

Starfsþættir

Starfsþættir

Lykiltölur

Sjálfbærni hjá Símanum

Síminn tengir gildi Símans við allar áherslur þegar kemur að sjálfbærni. Arðbær og ábyrgur rekstur ásamt því að umgangast umhverfið og fólk af virðingu skiptir okkur öllu máli. Síminn hefur notið trausts almennings frá stofnun, slíkt er áunnið og því skiptir okkur máli að vera virkur þáttakandi í samfélaginu og nýta þekkingu okkar og þjónustu til áframhaldandi góðra verka.

Síminn skapar tækifæri
Sjálfbærnisstefna

Síminn skapar tækifæri

Síminn skapar tækifæri, það er megin stefið í öllum okkar verkum hvort sem er um að ræða í gegnum fjarskipta- eða upplýsingatækni. Við eflum heimilin, byggð og fyrirtækin í landinu og erum með þeim í liði.

Síminn leggur áherslu á góða stjórnarhætti og tekið er mið af reglum Viðskiptaráðs Íslands, Nasdaq OMC Iceland hf. og Samtökum atvinnulífsins. Síminn er ISO vottaður og starfrækir virkt stjórnunar- og gæðakerfi sem nær til alls upplýsingaöryggis hjá fyrirtækinu. Þannig tryggjum við örugga og faglega þjónustu með skýru verklagi, umbótum á ferlum og kerfum sem auka þjónustustig og þekkingu starfsfólks og viðskiptavina okkar.

Síminn er í miðri endurskoðun á sjálfbærnistefnu fyrirtækisins sem er unnin í nánu samráði við sérfræðinga í sjálfbærni. Úr þeirri vinnu munu verða til mælanleg markmið og við tengja okkur betur við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Sjálfbærniskýrsla

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Við höfum sett þrjú heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í forgrunn. Þau eru valin með starfsemi Símans að leiðarljósi og getu fyrirtækisins til að hafa jákvæð áhrif á haghafa, samfélag og umhverfið.

Jafnrétti kynjanna

Síminn stuðlar að auknu kynjajafnrétti hjá Símanum með markvissum aðgerðum í Jafnréttisvísi og eyða kynbundnum launamun. Auk þess vinnur Síminn að menntun og þjálfun kvenna í tækni með háskólasamfélaginu.

Nýsköpun og uppbygging

Aukin stafvæðing, að gera sem flesta hluti stafræna og læsilega tölvum er nátengt starfsemi Símans. Við vinnum að þróun sjálfbærra og kolefnislágra innviða í fjarskiptageiranum og styðjum við íslenska máltækni.

Sjálfbærar borgir og samfélög

Síminn vinnur að því að innleiða kolefnislága stafræna innviði sem hafa það að markmiði að draga úr umhverfisáhrifum Símans sem og þeirra sem nýta tæki og tækni Símans.

Sjálfbærni

Jafnrétti

Jafnrétti hefur verið ofarlega í hugum starfsfólks Símans síðustu ár. Starfsþróun er virk hjá Símanum og við erum stolt af því að starfsfólk starfar lengi hjá Símanum en tekur á sig ólík verkefni og ábyrgð í vegferð sinni um fyrirtækið.

Síminn var fyrstur fjarskiptafélaga á Íslandi að fá jafnlaunavottun sem nýverið var endurnýjuð. Auk þess var farið í sérstakt verkefni meðal allra starfsmanna byggt á Jafnréttisvísi Capacent, þannig voru sett upp mælanleg markmið sem hafa þann tilgang einan að auka jafnrétti og skapa enn öflugri vinnustað og vinnustaðarmenningu.

Jafnrétti
Síminn nýtir styrkleika sína til góðra verka
Sjálfbærni

Síminn nýtir styrkleika sína til góðra verka

Síminn nýtir styrkleika sína í fjarskipta- og upplýsingatækni til góðra verka og þannig erum við í samstarfi við fjölda góðgerðar- og líknarfélaga, lista- og menningarlíf í landinu, íþróttahreyfinguna og vísinda- og menntasamfélagið.

Síminn er stoltur bakhjarl Borgarleikhússins ásamt því að í samstarfi við Breiðablik höldum við stærsta kvennaknattspyrnumót landsins, Símamótið. Frábært samstarf við Menntaskóla Borgarfjarðar nýtum við til að hjálpa starfsfólki Símans að ljúka námi eða mennta sig frekar í samstarfi við Háskólann á Bifröst. Síminn er einnig bakhjarl Símans Cyclothon hjólareiðakeppninnar en þar fara öll áheit sem safnast til góðgerðarmála.

Enn frekar hefur Síminn átt í góðu samstarfi við fjölda hjálpar- og góðgerðarsamtaka þar sem við gefum vinnu okkar og aðgang að tæknikerfum okkar sem hjálpar fjölda þeim að efla sitt starf okkur öllum til góða.

Allt sorp er flokkað hjá Símanum og skilað til endurvinnslu. Við hvetjum starfsfólk til umhverfisvænni samgöngumáta og höfum óbilandi trú á að tæknin geri okkur kleift að fækka ferðalögum og þannig minnka kolefnisfótspor okkar enn frekar.

Síminn lagði sitt af mörkum þegar samkomubann tók gildi á Íslandi og voru allir viðskiptavinir settir í ótakmarkað gagnamagn í interneti og farsíma án auka kostnaðar. Fjarskipti urðu á einni nóttu nauðsynleg í því ástandi sem skapaðist og við vildum að viðskiptavinir okkar gætu hugsað um eigin hag og heilsu, ættingja og vini í stað þess að hugsa um áskriftarleiðir og innifalið gagnamagn.