Öll tæki og við mannfólkið erum skotmörk á internetinu, ekki bara þekktir einstaklingar, stjórnmálafólk eða stórfyrirtæki. Ef eitthvað er tengt internetinu með einhverjum hætti er það mögulegt skotmark óprúttinna aðila, líka á Íslandi.
Þess vegna mælum við með að fylgja nokkrum grunnreglum sem auka öryggi okkar á internetinu, ekki er um tæmandi lista að ræða en þessar reglur auka öryggi okkar talsvert.
Við mælum einnig með öryggisprófi Google sem sýnir og kennir okkur með myndrænum hætti að varast ýmsar hættur á internetinu. Einnig má benda á Taktu tvær, átaksverkefnis Samtaka atvinnulífsins, Samtaka fjármálafyrirtækja og Neytendasamtakanna um netglæpi en þar má finna ýmsan fróðleik og almenn ráð.
Það er bannað að endurnýta lykilorð
Nota skal sérstakt lykilorð fyrir hverja og eina þjónustu. Þannig heldur maður aðgöngum og upplýsingum öruggari ef einhver ein þjónusta, app eða vefsíða sem maður hefur stofnað aðgang á lendir í t.d. gagnaleka. Þínar notendaupplýsingar sem þá leka út er hvergi annars staðar hægt að nota.
Notum örugg lykilorð, en allra helst lykilorðastjóra
Það eru margar leiðir til að gera gott lykilorð, einfaldast er að nota lykilorðastjóra (e. password manager) til að gera flókin og góð lykilorð og lykilorðastjórinn man þau svo fyrir þig og getur fyllt þau inn á heimasíðum og smáforritum.
Ekki opna viðhengi í blindi
Algengustu netárásir sem þekkjast verða að veruleika þegar við mannfólkið opnum viðhengi sem t.d. berast í tölvupósti eða frá ókunnugum yfir skilaboðaforrit. Þegar þau eru opnuð virkjast árásin og fjandinn verður laus.
Notum tveggja þátta auðkenningu
Tveggja þátta auðkenning (e. two factor authentication) ásamt öruggu og sérstöku lykilorði ættum við öll að nýta okkur þar sem hún er í boði. Hún eykur öryggi okkar talsvert og flækir talsvert fyrir óprúttnum aðila að misnota aðgangsupplýsingar þínar ef þau t.d. hafa komist yfir lykilorðið þitt í t.d. gagnaleka frá þjónustu þar sem lykilorð voru samnýtt. Dæmi um hugbúnað fyrir tveggja þátta auðkenningu er Authy, Microsoft Authenticator og Google Authenticator.
Uppfærum reglulega
Það skiptir miklu máli að uppfæra öll tæki á heimilinu reglulega. Á það bæði við um tölvur, snjallsíma, sjónvörp og öll nettengd tæki á heimilinu sem og öll forrit í tækjunum okkar. Uppfærslur loka fyrir þekkta öryggisgalla og verja okkur enn betur.
Notum gagnrýna hugsun
Ef eitthvað er of gott til að vera satt er það oftast svo. Ef það koma einkennileg skilaboð frá vinum að biðja um hitt og þetta er það oftast verk óprúttins aðila og viðhengi í tölvupóstum skal aðeins opna ef við erum alveg viss um hvað þetta er og að þetta sé sannanlega frá þeim sem að við höldum.